Hoppa yfir valmynd
04.10. 2017 Utanríkisráðuneytið

Milljónir skólabarna geta ekki lesið, skrifað eða leyst einföld reiknidæmi

Learning

"Milljónir ungmenna í lágtekju- og meðaltekjuríkum standa frammi fyrir þeirri nöturlegu staðreynd að þeir hafa glatað tækifærum og afla því lægri launa á fullorðinsaldri vegna þess að menntunin sem þeim stóð til boða í grunn- og framhaldsskóla gaf þeim ekki möguleika til þess að ná árangri í lífinu."  

Á þessa leið hefst fréttatilkynning Alþjóðabankans um World Development Report 2018, flaggskip bankans sem kom út í síðustu viku, og fjallar eingöngu um námslegan vanda í skólum. "Skólavist án lærdóms felur ekki aðeins í sér glötuð tækifæri til þróunar heldur felur hún einnig í sér gífurlegt óréttlæti gagnvart börnum og ungmennum um heim allan," segir í skýrslunni.

Í Þróunarskýrslu Alþjóðabankans sem nefnist "Learning to Realize Education´s Promise" er því haldið fram að án menntunar hafi sjálft fyrirheitið um að með menntun sé unnt að útrýma sárafátækt og skapa sameiginleg tækifæri og velmegun fyrir alla orðið að engu. "Jafnvel eftir nokkur ár í skóla geta milljónir barna ekki lesið, skrifað eða leyst einföld reiknidæmi," segir í skýrslunni.

Þar er því haldið fram að námslegi vandinn í skólum auki á félagslegan ójöfnuð í stað þess að draga úr honum. Börn sem standi í bernsku höllum fæti vegna fátæktar, ófriðar, kynferðis eða fötlunar verði unglingar án þess að hafa tileinkað sér grundvallar lífsleikni.

Hrópandi óréttlæti

SkolabornAð mati Jim Yong Kim forseta Alþjóðabankans er námsvandinn bæði af siðferðislegum og efnahagslegum toga. "Þegar allt er eins og það á að vera veitir menntun vilyrði um störf, betri tekjur, góða heilsu og líf án fátæktar. Í samfélögum kyndir menntun undir nýsköpun, styrkir stofnanir og stuðlar að félagslegri samheldni. En þessi ávinningur er háður því að börn læri í skólum, skólaganga án lærdóms er sóun. Og meira en það: óréttlætið er hrópandi. Börnin sem samfélagið bregst mest eru þau sem þurfa sérstaklega á því að halda að fá góða menntun til að ná árangri í lífinu."  

Dæmi eru nefnd í skýrslunni um fákunnáttu barna í þriðja bekk í skólum í Kenía, Tansaníu og Úganda. Þau áttu að lesa setninguna "Hundurinn heitir Puppy" (The name of the dog is Puppy") bæði á ensku og Kiswahili. Tvö börn af hverjum þremur skildu ekki setninguna. Í sveitahéruðum Indlands gátu því sem næst tvö börn af hverjum þremur í þriðja bekk ekki leyst tveggja stafa reiknidæmi eins og "46-17" og í fimmta bekk gat helmingur barnanna ekki svarað rétt. 

Í skýrslunni segir á einum stað að þótt 15 ára unglingum í Brasilíu hafi farið námslega fram þá megi gera því skóna að með sömu þróun og undanfarin ár taki það brasilísk ungmenni 75 ár að ná meðaltali barna meðal ríkari þjóða heims í stærðfræði en í lestri komi það til með að taka 263 ár.

Auk þróunarskýrslu Alþjóðabankans kom út í vikunni fyrsta greining UNESCO á fjórða Heimsmarkmiðinu um menntun fyrir alla með fyrirsögn sem rímar vel við niðurstöður Alþjóðabankans: "More Than One-Half of Children and Adolescents Are Not Learning Worldwide."

More Than One-Half of Children and Adolescents Are Not Learning Worldwide/ UNESCO 
State urged to step up aid over global education crisis/ Irish Times

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum