Hoppa yfir valmynd
11.10. 2017 Utanríkisráðuneytið

Alþjóðadagur stúlkubarnsins - Stúlkur í dreifbýli

IngadoraMosÞegar ég sóttist eftir starfi jafnréttisráðgjafa hjá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme, WFP) í Mósambík síðasta vor vissi ég í hreinskilni sagt ekki í hverju starfið fælist. Þegar ég hugsaði um WFP sá ég fyrir mér þyrlur sem dreifðu matarpokum til fólks úr lofti á hamfarasvæðum. Það er vissulega rétt að WFP er leiðandi í matargjöfum á hamfarasvæðum en umboð stofnunarinnar er mun breiðara.

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hefur tvöfalt hlutverk: að útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu sem og að bjarga mannslífum. WFP gegnir veigamiklu hlutverki í Mósambík þar sem ýmist flóð og þurrkar skella á nánast árlega og meirihluti þjóðarinnar býr við fæðuóöryggi allan ársins hring. Í Mósambík búa 28 milljónir á landsvæði sem er tíu sinnum stærra en Ísland, meirihluti þjóðarinnar býr í dreifbýli og landið er eitt af fátækustu ríkjum heims. Matvælaáætlun SÞ vinnur allan ársins hring að því að bæta fæðuöryggi og næringu þjóðarinnar ásamt því að vera leiðandi í viðbrögðum þegar náttúruhamfarir skella á.

Í stefnuskrá WFP kemur skýrt fram að stofnunin geti ekki uppfyllt hlutverk sitt nema markvisst sé unnið samtímis að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna. Á heimsvísu er uppskera kvenna um 20-30 prósent minni en uppskera karla þar sem konur hafa ekki sama aðgang að fræjum, verkfærum og áburði. Rannsóknir sýna að með valdeflingu kvenna í dreifbýli væru að minnsta kosti 100-150 milljónir færri hungraðir í heiminum. Þegar hamfarir skella á eru konur og stúlkur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, ekki aðeins með tilliti til aðgangs að neyðargögnum, heldur er konur og stúlkur í hættu að verða fyrir ofbeldi, kynferðisofbeldi og misnotkun. Rannsóknir sýna einnig að konur sýna fyrst einkenni næringarskorts ef matarskortur ríkir þar sem konur láta þarfir fjölskyldunnar ganga fyrir sínum eigin.

Í tilefni af alþjóðlegum degi stúlkubarnsins, 11. október, ætla ég að draga athyglina að mikilvægi þess að bæta mataröryggi stúlkna og kvenna í Mósambík. Landlæg og langvarandi vannæring meðal kvenna og stúlkna á barneignaaldri ógnar lífi þeirra, ófæddra barna þeirra og viðheldur vítahring vannæringar frá móður til barna hennar.

Frjósemi er há í Mósambík en mæður eignast að meðaltali sex börn um ævina (5,6) og leggja sig í lífshættu við hverja meðgöngu og/eða fæðingu. Áætlað er að 500 af hverjum 100.000 konum og stúlkum láti lífið vegna vandkvæða við barnsburð en líklegt er þó að þær séu mun fleiri en að röng dánarorsök sé gefin upp eða þær láta lífið heima og andlát þeirra hvergi skráð. Helsta ástæða mæðra- og ungbarnadauða er takmarkað aðgengi að heilbrigðisþjónustu og vannæring og/eða blóðleysi mæðra. Barnungar mæður eru í sérstakri hættu við meðgöngu og við fæðingu.

IdpMOSÍ Mósambík er tíunda hæsta tíðni barnahjónabanda í heiminum en önnur hver stúlka er gift á barnsaldri. Unglingsstúlkur eru í sérstaklega mikilli hættu á vannæringu en líkamar þeirra breytast geiysihratt á þessum árum og þær þurfa sérstaklega á járni og próteini að halda. Skortur á joði getur meðal annars hamlað andlegum og líkamlegum þroska þeirra. Tæplega helmingur allra stúlkna (40%) sem giftast fyrir 15 ára aldurinn eignast líka sitt fyrsta barn áður en þær verða 15 ára. Líkamar barnungra mæðra keppa við fóstur um næringarefni en vannæring mæðra hamlar gjarnan eðlilegum fósturþroska. Barnungar mæður eru í meiri hættu en aðrar mæður að deyja af barnsförum þar sem líkamar þeirra eru ekki fullþroskaðir og þær eru líka líklegri til að eignast of létt börn eða missa börn sín við fæðingu. Dánartíðni barna undir fimm ára aldri er einnig mun hærri meðal þeirra sem áttu barnunga og vannærða móður. Vítahringur vannæringar er kominn af stað, þar sem stúlkubörn vannærðra mæðra eru líklegri til þess að eignast sjálfar of létt börn og lenda í lífshættu við barnsburð.

Barnahjónabönd og ískyggilega hár ungbarna- og mæðradauði er birtingarmynd ófjafnréttis kynjanna. Til þess að ná árangri verður að vinna heildrænt að samfélagi þar sem allir fá jöfn tækifæri, óháð kyni; samfélagi þar sem hungri er útrýmt og fæðuöryggi ríkir. Þannig björgum við mannslífum. En það eru ekki verkefni einnar stofnunar Sameinuðu þjóðanna heldur verkefni alls alþjóðasamfélagsins. Verkefni WFP í Mósambík á þessu sviði á næstu árum eru til dæmis að standa fyrir viðamikilli vitundarvakningu um mikilvægi bættrar næringar stúlkna, útvega skólamáltíðir til að halda stúlkum í námi lengur, sérstakar næringarlausnir og meðferðir fyrir vannærðar stúlkur og útvega matarpakka á mæðrastöðvum og á fæðingarheimilum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum