Hoppa yfir valmynd
11.10. 2017 Utanríkisráðuneytið

Alþjóðleg ráðstefna: Feminísk andspyrna gegn uppgangi þjóðernishyggju og popúlisma

RingJafnréttisskólinn var einn af þremur skipuleggjendum alþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin var í fyrirlestrasal Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns dagana 4.-6. október 2017 undir yfirskriftinni "femínísk andspyrna gegn uppgangi þjóðernishyggju og popúlísma". 

Hér var um að ræða þriðju ráðstefnu RINGS (The International Research Association of Institutions of Advanced Gender Studies) sem er alþjóðlegt samstarfsnet rannsóknastofnana á sviði kynja- og jafnréttisfræða með þátttakendum frá Afríku, Ástralíu, Karíbahafinu, Evrópu og Norður-Ameríku.  Rannsóknasetrið EDDA, RIKK - rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum og Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem eru stofnaðilar að RINGS, skipulögðu ráðstefnuna. Frá því að samstarfsnetið var stofnað árið 2014 við Örebru-háskóla hafa verið haldnar tvær ráðstefnur á vegum þess, önnur í Prag árið 2015 og hin í Höfðaborg árið 2016.

Markmið RINGS-ráðstefnunnar í Reykjavík var að kynna femínískar rannsóknir og gagnrýni á uppgang þjóðernisstefnu og popúlisma út frá fjölþjóðlegu sjónarhorni; að miðla kynjafræðilegum rannsóknum sem unnar eru á vegum aðildarstofnanna RINGS um pólitíska strauma og stefnur, samfélagsleg málefni og menningu og að takast á við takmarkanir á samstarfi fræðastofnanna í ólíkum heimshlutum vegna margþættrar mismununar sem m.a. landfræðileg staðsetning felur í sér.

Meðal fyrirlesara voru fræðakonur frá samstarfsháskólum Jafnréttisskólans. Tamara Shefer, prófessor við University of Western Cape í Suður Afríku flutti erindi um andspyrnu ungra kvenna og jafnréttisbaráttu þeirra í Suður Afríku. Lina Abirafeh, forstöðukona Institute for Women's Studies in the Arab World í Lebanese American University fjallaði um jafnréttislöggjöfina í Líbanon og velti upp þeirri spurningu hvort að um raunverulegar framfarir væri að ræða eða hvort að löggjöfin endurspeglaði sýndargjörning. Meðal íslenskra fyrirlesara var Erla Hlín Hjálmarsdóttir, rannsóknarstjóri Jafnréttisskólans, en hún fjallaði um þann þátt í starfsemi skólans sem snýr að valdeflingu kvenna í þróunarlöndum og tók dæmi af árangri af verkefnum nemenda í heimalöndum þeirra.

Að sögn Erlu Hlínar hefur þjóðernishyggja og popúlismi ólík birtingarform í mismunandi heimshlutum en ljóst sé að þar sem orðræða sem tengist þessum hreyfingum fær þrifist sé hætta á bakslagi í jafnréttisbaráttu.   
Dagskrá ráðstefnunnar í heild má sjá hér:  RINGS 2017 - Dagskrá.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum