Hoppa yfir valmynd
11.10. 2017 Utanríkisráðuneytið

Einstæðar atvinnulausar mæður í öndvegi hjá Enza í Suður-Afríku

Enza10112Hjálparsamtökin Enza fengu á dögunum styrk frá utanríkisráðuneytinu vegna langtímaverkefnis samtakanna til valdeflingar og aukinnar atvinnuþátttöku kvenna í fátækrahverfum í Suður-Afríku. Heildarupphæðin nam tæplega 15 milljónum króna.

Hjálparsamtökin Enza voru stofnuð árið 2008. Fyrstu árin fór starfsemi samtakanna fram í Mbekweni fátækrahverfinu, 50 km norður af Höfðaborg í Suður-Afríku, en í dag eru samtökin með starfsemi á fimm stöðum í landinu í samvinnu við önnur þarlend samtök. Nafn samtakanna, "Enza", hefur jákvæða tilvísun og merkir að framkvæma eða gera á Zulu og Xhosa, sem eru móðurmál meirihluta landsmanna.

Enza er með starfandi stjórnir á Íslandi og í Suður-Afríku. Stofnandi samtakanna er Ruth Gylfadóttir, sem er búsett ásamt fjölskyldu sinni í Cape Town. Systrasamtök Enza eru Suður-afrísku samtökin TCB eða The Clothing Bank en þau samtök vinna að sama markmiði og Enza sem er félags -og fjárhagsleg valdefling fátækra kvenna. Saman reka Enza og TCB fræðslumiðstöðvar. Þar fer fram atvinnuskapandi uppbyggingarstarf fyrir konur sem hafa sökum bágborins efnahags og annarra samfélagsmeina ekki fengið tækifæri til að mennta sig og efla.

Starfsstöðvar Enza og TCB eru ýmist í eða mjög nálægt þeim fátækrahverfum sem flestar kvenna landsins búa. Staðarvalið helgast af því að þessi svæði eru þéttbýlust, þar eru fátækrahverfin fjölmennust. 

Í fræðslumiðstöðvum Enza og TCB fer fram starfsmenntun sem miðar að því að veita haghöfum brautargengi í rekstri smáfyrirtækja. Starfsmenntun þessi felur meðal annars í sér, tölvukennslu, fjármálalæsi og lífsleikni svo eitthvað sé nefnt. Hlutverk Enza í samstarfinu er meðal annars rekstur og fjáröflun tölvuvera sem eru hluti af fræðslumiðstöðvunum.

Að sögn Ruth Gylfadóttur stofnanda samtakanna var upphaflegur kjarnahópur Enza konur sem höfðu neyðst til að gefa frá sér barn til ættleiðingar vegna fátæktar. "Í dag þjóna samtökin konum sem búa við háa glæpatíðni, gríðarlega fátækt, atvinnuleysi og landlæga sjúkdóma á borð við HIV og berkla, en vilja fræðast og auka tækifæri sín til innihaldsríkara lífs og bættra lífsskilyrða. Forgangshópur samtakanna eru einstæðar atvinnulausar mæður," segir hún.

Tölvurnar aflvaki kvenna

"Enza-konur sýna takmarkalaust hugrekki og leggja mikið á sig til að brjótast undan oki fátæktar og bjargleysis. Tölvukunnátta og þekking á interneti er gríðarlega mikilvægt vopn í þágu jafnréttis fyrir þær, einkum hvað varðar félags- og fjárhagslega valdeflingu. Fæstar eða engar kvennanna eiga eigin tölvu eða hafa aðgang að interneti heima fyrir. Tölvurnar hjá Enza eru þeim því mikill aflvaki og eru þær óspart nýttar allt árið um kring. Á það jafnt við um rekstur þeirra smáfyrirtækja sem konurnar stofna, sem og í atvinnueflingu og atvinnuleit þeirra," segir Ruth.

Hún segir að núna hafi um 720 konur daglegan aðgang að tölvuverum Enza.

"Allt frá stofnun hefur Enza haft það að markmiði sínu að færa verkefnið nær, og að lokum alfarið í hendur heimamanna á vettvangi, undir eftirliti íslenskrar stjórnar. Farsælt samstarf Enza og TCB er stór áfangi á þeirri vegferð, en hjá TCB starfa eingöngu heimakonur og menn."

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum