Hoppa yfir valmynd
11.10. 2017 Utanríkisráðuneytið

Fiskeldis- og rannsóknarsetrið CEPAQ verður formlega opnað í lok þessa árs

https://youtu.be/WahEe1caB00 Íslendingar hafa um árabil stutt við uppbyggingu og þróun á fiskeldis- og rannsóknarsetri  í Chokwe héraði í  Gaza fylki í Mósambík, sem nefnist CEPAQ. Stuðningur við fiskeldi er hluti af verkefnastoð sem Norðmenn og Íslendingar hafa tekið þátt í með stjórnvöldum í Mósambík frá árinu 2008. Metnaðarfyllstu áformin hafa á síðustu árum verið í fiskeldinu og stjórnvöld gera sér vonir um allt að 200 þúsund tonna framleiðslu innan 10 ára. Verið er að undirbúa lagaramma sem gerir fjárfestingar í fiskeldi meira aðlaðandi en áður var, með niðurfellingu tolla og skatta, undanþágu um fjármagnstekjuskatt og heimildir til að flytja fé út úr landinu þrátt fyrir ströng gjaldeyrishöft.

Stöðin hefur verið í þróun frá 2012 en verður formlega opnuð í lok árs 2017. Að sögn Alberto Halare framkvæmdastjóra CEPAQ er lögð mikil áhersla á alþjóðlega samvinnu og bestu tæknilegu ráðgjöf sem fáanleg er við uppbyggingu stöðvarinnar.  Á tilraunatímabilinu voru markmiðin meðal annars þau að finna út hvaða afbrigði tilapíu henti best til eldis í Mósambík, hvaða fóður henti best, tryggja framboð á góðum seiðum til ræktunar á landsvísu ásamt því að veita þjálfun í hagnýtum fiskeldisfræðum. Á ræktunarsvæðinu eru núna alls 39 tjarnir en áður hafði seiðum verið safnað til tilraunaræktunar bæði innanlands og frá Tælandi.

Skortur á þekkingu og reynslu innanlands

Alberto segir að sex sérfræðingar hafi verið þjálfaðir sem komi til með að starfa að uppbyggingu og þróun setursins. Þjálfunin er skipulögð af norskum ráðgjöfum og fór fram í Gaza fylki en einnig í Brasilíu, Tælandi og Egyptalandi. Hann nefnir að einn megin áhættuþátturinn sé skortur á þekkingu  og reynslu innanlands á fiskeldi til að tryggja gæði framleiðslunnar. Einungis örfáar litlar fiskeldisstöðvar eru komnar í gagnið í Mósambík og skortur hefur verið á innlendu fiskeldisfóðri og framboð á eldisseiðum takmarkað. Meðal annars af þessum ástæðum eru núna einungis uppi áform um að rækta tilapíu en ekki margar tegundir eins og upphaflega var ráðgert. Markmiðið er að fá góðan grunnstofn með erfðafræðilega fjölbreytni til að framleiða kynbreytt hágæða seiði sem færu til dreifingar og sölu til annarra fiskræktenda.

CEPAQ stöðin er hönnuð með tilliti til loftslags- og umhverfisaðstæðna - og öll öryggismál eru tekin mjög alvarlega: seiðaeldi er ofur viðkvæmt og kallar á vöktun allan sólarhringinn. Hér er ýmiss konar útbúnaður, pumpur, stíflur og varaorkugjafar, til að bregðast við ef flóð eða aðrar náttúruhamfarir verða sem gætu til dæmis leitt til rafmagnsleysis. Alberto segir einnig að stöðin sé hönnuð með það í huga að allar deildir starfi sjálfstætt og miklar öryggisvarnir séu til staðar til að draga úr smithættu milli deilda.  

Skammt frá stöðinni hér í Chokwe héraði eru um 10 þúsund hektarar af söltum jarðvegi. Ríkið mun taka frá sex þúsund hektara af þeim undir fiskeldi en svæðið kallast dauða jörðin eða "terra morta" á portúgölsku. Þar sem jarðvegurinn er saltur hentar svæðið því betur til fiskeldis en til hefðbundinnar ræktunar í landbúnaði. Að sögn Alberto er áformað að hefja þar mikla tilapíuræktun með aðkomu einkafyrirtækja og fjárfesta. Einnig hefur verið rætt um að bjóða rekstur CEPAQ út til einkaaðila en stöðin mun þurfa fjárstuðning næstu fimm til tíu árin ef vel á að takast að þróa tílapíuræktun í Mósambík sem eina af undirstöðum næringar og fæðuöryggis í landinu.  


Myndband gert af Norðmanninum Morten Holt Hoyum sýnir vel framkvæmdasvæðið í Chokwe héraði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum