Hoppa yfir valmynd
11.10. 2017 Utanríkisráðuneytið

Sveitirnar eru ekki fátæktargildrur - umbylting í landbúnaði er lausnin!

https://youtu.be/ogqlEaQRKoE

Sveitirnar eru lykillinn að hagvexti í flestum þróunarríkjum að mati Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) sem gaf á mánudag út árlega skýrslu sína um stöðu matvæla og landbúnaðar. Skilaboðin eru skýr frá FAO: Heimsmarkmiðin standa og falla með því hvort tekst að koma á verulegum breytingum í sveitum þróunarríkjanna því fólksfjölgun í þeim ríkjum byggist á aukinni landbúnaðarframleiðslu.

Við unga fólkið segir FAO: ekki flýja sveitirnar, þær eru ekki fátæktargildrur - þvert á móti. Samkvæmt skýrslunni koma milljónir ungmenna inn á vinnumarkaðinn á næstu áratugum og skýrsluhöfundar segja að þessar kynslóðir þurfi ekki að flýja landbúnaðarhéruðin og fara á mölina til að forðast fátækt. Miklir möguleikar séu einmitt fólgnir í umbótum í landbúnaði og sækja þurfi aukinn hagvöxt í meiri matvælaframleiðslu og afleidd störf í landbúnaði.

Að mati FAO hefur verið sýnt fram á að breytingar í hagkerfi dreifbýlis geti haft meiriháttar áhrif. Milljónir íbúa í sveitum hafi á síðustu áratugum lyft sér upp úr fátækt með þeim hætti. Í ljósi þess að meirihluti fátækra og hungraðra búi í sveitum, fólksfjölgun sé mikil og borgir stækki ört, muni Heimsmarkmiðin standa eða falla með því hvort tekst að gera nauðsynlegar breytingar í sveitum með aukinni framleiðni og meiri iðnþróun í landbúnaði. Þetta er að mati FAO áskorun sem þróunarríkin standa frammi fyrir til að tryggja nægan mat og atvinnu fyrir borgarana.

Í skýrslunni kemur fram að á árunum 2015 til 2030 fjölgi ungmennum á aldrinum 15-24 ára um 100 milljónir, verði í lok tímabilsins 1,3 milljarðar talsins. Aukningin er nánast öll í sama heimshlutanum, í sunnanverðri Afríku, og að mestu leyti til sveita. Þar hafa hins vegar tækninýjungar verið litlar og að óbreyttu væri fá ný atvinnutækifæri að hafa fyrir unga fólkið sem streymir inn á vinnumarkaðinn.

Hættan er því sú að unga fólkið til sveita leiti ekki tækifæra í landbúnaði heldur taki sig upp, fari til borganna og bætist þar í ört vaxandi hóp fátækra - eða fari í atvinnuleit annað og lendi tímabundið eða varanlega í öðrum ört vaxandi hópi, þ.e. sem farandfólk.

Þetta eru ástæðurnar fyrir skilaboðum FAO um stefnumótun og fjárfestingu í sveitum þróunarríkja til að skapa gróskumikla fjölbreytta matvælaframleiðslu með því að skapa atvinnu í sveitum og gefa fleirum kost á því að blómstra.

2017 The State of Food and Acriculture/ FAO 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum