Hoppa yfir valmynd
01.11. 2017 Utanríkisráðuneytið

Djúpstæð, langvarandi og lamandi áhrif þurrka á samfélög og atvinnulíf

UnchartedwaterHver eru áhrif þurrka og flóða á samfélög, fjölskyldur og fyrirtæki? Áhrifin eru alvarlegri og flóknari en áður hefur verið vitneskja um, segir í nýrri skýrslu Alþjóðabankans - 'Uncharted Waters - The New Economics of Water Scarcity and Variability'.

Í skýrslunni segir að ný gögn sýni hvernig sífellt óreglulegri úrkoma, lélegar vatnsveitur og langvarandi skortur á vatni geti haft alvarleg áhrif á líf fólks, skaðað býli og skóga og haft vond áhrif á fyrirtæki og borgir. Þar segir ennfremur að síendurteknir þurrkar víðs vegar um heiminn hafi gífurlegar og oft á tíðum ósýnilegar afleiðingar, meðal annars hafi þurrkar eyðilagt landbúnaðarframleiðslu sem hefði ella dugað til að fæða 81 milljón manna á hverjum degi í heilt ár. Einnig sé hætta á því að þurrkar leiði til þess að kynslóðir barna festist í viðjum fátæktar.

Niðurstaða skýrsluhöfunda er sú að þurrkar hafi djúpstæðari, langvarandi og lamandi afleiðingar, meiri en áður hafi verið talið.

"Þessi áhrif sýna að það er sífellt mikilvægara að meðhöndla vatn eins og þá dýrmætu viðkvæmu auðlind sem hún er," segir Guangzhe Chen hjá Alþjóðabankanum. "Við verðum að skilja vatnsskort betur en gert er og horfast í augu við að hann verður stöðugt alvarlegri vegna mannfjölgunar og loftslagsbreytinga."

Áhrif þurrka á fjölskyldur geta verið svo langvinn að margar kynslóðir verði fyrir skakkaföllum, segir í skýrslunni. Dæmi eru tekin af sveitafólki í Afríkuríkjum þar sem t.d. kona fædd á þurrkatímabili ber þess merki alla ævi, vex úr grasi vannærð og veikluleg með vaxtarhömlun sem nær bæði til líkamslegs og andlegs þroska. Fram kemur í skýrslunni að ný gögn sýni að konur fæddar á þurrkatímum fái jafnframt minni menntun og minni tekjur en aðrar konur, þær eignist hins vegar fleiri börn og verði frekar fyrir heimilisofbeldi. Þjáningar þeirra berast síðan oft til næstu kynslóðar sem eignast að líkindum lasleg börn með vaxtarhömlun - og þannig sé viðhaldið vítahring fátæktar.

Í skýrslu Alþjóðabankans koma fram tillögur um það hvernig takast á við þessar brýnu áskoranir og eins er kallað eftir nýrri stefnumörkun, nýsköpun og samstarfi - og ekki síst öryggisneti fyrir fátækar fjölskyldur sem verða fyrir tjóni, hvort heldur er vegna þurrka eða flóða.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum