Hoppa yfir valmynd
01.11. 2017 Utanríkisráðuneytið

Stjórnvöld veita 15 milljónum króna til Róhingja í flóttamannabúðum

Rohinga-UNHCRGuðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur veitt 15 milljónum króna til aðstoðar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna við Róhingja múslima, sem búa við afar erfiðar aðstæður í flóttamannabúðum í Bangladess. Tilkynnt var um framlögin á ráðstefnu sem haldin var í síðustu viku í Genf á vegum Samhæfingarskrifstofu aðgerða SÞ í mannúðarmálum, Flóttamannastofnunarinnar og Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar þar sem óskað var eftir stuðningi ríkja við Róhingja. Þá hefur Rauði krossinn á Íslandi ákveðið að hefja neyðarsöfnun fyrir Róhingja frá Mjanmar í flóttamannabúðum.


Aðbúnaður flóttafólksins í Bangladess er mjög slæmur og mikill skortur á allri mannúðaraðstoð, s.s. skýlum, matvælaaðstoð, hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu. Unnið er að því í samstarfi við stjórnvöld í Bangladess að koma upp flóttamannabúðum á nýju landsvæði sem getur tekið á móti vaxandi fjölda flóttafólks og þar sem aðgengi að lífsnauðsynlegri aðstoð verður í boði.  

Róhingja múslimar hafa sætt ofsóknum frá því Mjanmar öðlaðist sjálfstæði árið 1948. Í ágúst síðastliðnum brutust út átök í Rakhine-héraði þar sem flestir þeirra hafa verið búsettir og hefur um hálf milljón Róhingja flúið yfir til Bangladess undanfarna tvo mánuði. Mjög stór hluti flóttafólksins eru börn, eða um 250 þúsund. Fyrir í flóttamannabúðunum í Bangladess eru um 300 þúsund Róhingjar sem komu þangað í kjölfar átaka á tíunda áratugnum.

Redcrossrohingja

Neyðarsöfnun Rauða krossins

Rauði krossinn á Íslandi hefur ákveðið að fara af stað með neyðarsöfnun fyrir  Róhingja, flóttafólk frá Mjanmar, sem farið hefur yfir landamærin til Bangladess. Yfir hálf milljón einstaklinga hafa þurft að flýja blóðug átök. Flóttafólkið þarf að ferðast nokkur hundruð kílómetra til þess að komast yfir landamærin, langflestir fótgangandi, oft og tíðum berfætt, með aleiguna og börn meðferðis.

Lilja Óskarsdóttir sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi sem verið hefur á svæðinu sl. mánuð lýsir aðstæðum svo:

"Í dag horfði ég á endalausa röð af uppgefnu fólki sem gekk hægum skrefum framhjá. Það var mikið af börnum, þeir fullorðnu voru með aleiguna á höfðinu eða hangandi á stöng sem lá á öxlunum. Konur báru yngstu börnin. Flestir gengu berfættir. Ég táraðist þegar ég horfði á röðina líða rólega hjá, fólk sem ekkert á og hvergi á heima. Í hvíldarbúðunum var hlúð að fólkinu, sumir voru skinnlausir á fótunum með flakandi sár eftir langa göngu. Allir þjáðir af hungri og vökvaskorti." Alls 8 sendifulltrúar frá Rauða krossinum á Íslandi hafa verið að störfum á vettvangi og útlit er fyrir að fleiri fari út til aðstoðar. Tjaldsjúkrahúsi hefur verið komið upp þar sem heilbrigðisaðstoð til flóttafólks er veitt, auk matarúthlutunar og aðstoðar. Hægt er að leggja sö fnuninni lið með eftirfarandi hætti:

  • Senda sms-ið TAKK í 1900 og styrkt söfnunina um 1900 kr.
  • Senda sms-ið HJALP í 1900 og styrkt söfnunin um 2900 kr.
  • Leggja inn á söfnunarreikning Rauða krossins 0342-26-12, kt. 530269-2649.
  • Fara inn á heimasíðuna, raudikrossinn.is
  • Hringja í síma - Söfnunarsímar 904 1500 (gefa 1500 kr.), 904 2500 (gefa 2500 kr.) og 904 5500 (gefa 5500 kr).  
  • Nota Kass appið frá Íslandsbanka og nota KassTag-ið takk@redcross

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum