Hoppa yfir valmynd
08.11. 2017 Utanríkisráðuneytið

Samstarfsverkefni Alþjóðabankans og Sameinuðu þjóðanna að hefjast á fjórum átakasvæðum

Ssudan3_1510149291142Sífellt fleira fólk undir fátæktarmörkum býr í óstöðugum ríkjum þar sem blóðug átök leiða til fólksflótta. Vegna þessarar óheillaþróunar hefur Alþjóðabankinn ákveðið að tvöfalda framlög sín til óstöðugra ríkja. Bankinn hefur tekið upp samstarf við Sameinuðu þjóðirnar með það að markmiði að samtvinna neyðaraðstoð og þróunarsamvinnu.

Greint er frá þessu í nýjasta tölublaði danska utanríkisráðuneytisins um alþjóða- og þróunarmál en blaðið sem hét Udvikling hefur nú fengið heitið 360°.

Frankb"Ef við gerum ekki neitt annað en það sem við gerum venjulega munum við sjá á næstu árum að 60% fátækra í heiminum eiga heima í óstöðugum ríkjum," segir Franck Bousquet nýr forstöðumaður þeirrar deildar Alþjóðabankans sem fer með málefni óstöðugra ríkja þar sem stríðsátök og ofbeldi er daglegt brauð.

Á næstu þremur árum áformar Alþjóðabankinn að tvöfalda framlög til verkefna í óstöðugum ríkjum, hækka framlögin úr sjö milljörðum bandarískra dala upp í fjórtán milljarða. Auk Bankans eru fulltrúar annarra stofnana á vettvangi og áhersla verður lögð á einskonar viðvörunarkerfi til að freista þess að afstýra ofbeldisfullum átökum. Tvær Sameinuðu þjóða stofnanir verða helstu samstarfsaðilar bankans, Þróunaráætlun SÞ (UNDP) og Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR) auk staðbundinna samtaka.
Af fyrrnefndum fjórtán milljörðum verða tveir nýttir til að styðja þróunarríki sem hafa tekið við tugþúsundum flóttamanna á síðustu misserum.

"Eins og flestir vita búa 90% flóttamanna í nágrannaríkjum, sem eru þróunarríki," segir Franck Bousquet í viðtalinu við 360°.

Frá árinu 2010 hefur orðið mikil fjölgun stríðsátaka í heiminum og átökin orðið langvinnari. Fram kemur í fréttinni að tveir milljarðar manna búi á óstöðugum átakasvæðum og rúmlega tuttugu milljónir séu á flótta, fleiri en frá dögum síðari heimsstyrjaldar. Víða sé matarskortur og gistiríkin sem taka á móti flóttafólki frá stríðshrjáðum svæðum eigi í erfiðleikum með að taka við fólki, ekki síst þar sem flóttafólk fær aðgang að vinnumarkaði og annarri þjónustu sveitarfélaga.

Samstarf Alþjóðabankans og Sameinuðu þjóðanna þar sem neyðaraðstoð og langtíma þróunarsamvinna samtvinnast hefst í fjórum ríkjum, Sómalíu, Súdan, Jemen og Nígeríu.

Nánar 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum