Hoppa yfir valmynd
08.11. 2017 Utanríkisráðuneytið

Sýrlenskar konur á flótta þrá nýtt upphaf

https://youtu.be/DTO51wYbnlI UN Women hefur hrint af stað neyðarsöfnun fyrir konur og stúlkur frá Sýrlandi sem dvelja í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Flestar konur í búðunum eru margra barna mæður sem sárlega þurfa vernd, öryggi og stuðning til að koma undir sig fótunum á ný. 

Fyrir skömmu heimsóttu fulltrúar UN Women á Íslandi Zaatari flóttamannabúðirnar og kynntu sér starfsemi UN Women í búðunum. Eva María Jónsdóttir verndari UN Women á Íslandi og Eliza Reid forsetafrú heimsóttu griðastaði UN Women í Zaatari þar sem konur fá hvíld frá stöðugum áhyggjum og ótta.

Vissir þú að:

  • 1 af hverjum 3 konum í Zaatari búðunum hefur verið gift á barnsaldri
  • Konur og stúlkur á flótta eru berskjaldaðar fyrir ofbeldi
  • 1 af hverjum 5 konum í búðunum er fyrirvinna fjölskyldu sinnar
  • Atvinnutækifæri fyrir konur í Zaatari eru sárafá.

Um 80 þúsund Sýrlendingar dvelja í Zaatari eftir að hafa flúið stríðsátök og ofbeldi í heimalandi sínu. Búðirnar eru þær næststærstu í heiminum og jafnframt fjórða fjölmennasta borg Jórdaníu.

Konur og börn eru um  80% íbúa Zaatari og eiga erfitt uppdráttar í búðunum. Flestar konur í Zaatari glíma við áfallastreituröskun, þunglyndi og einangrun. Þær hafa orðið fyrir skelfilegum áföllum; misst börn sín, maka og ástvini. Margar þeirra eru ekkjur og einstæðar margra barna mæður. Það er staðreynd að konur og stúlkur á flótta eiga í meiri hættu á að verða fyrir kynferðislegu áreiti og kynbundnu ofbeldi.

Griðastaðir UN Women í Zaatari

Til að sporna við ofbeldinu og aukningu barnahjónabanda í flóttamannabúðunum starfrækir UN Women þrjá griðastaði fyrir konur og stúlkur. Hver griðastaður samanstendur af níu gámum. Þar eru konur og stúlkur óhultar fyrir ofbeldi, fá atvinnutækifæri, menntun og börnin daggæslu, þar fá konur einnig sálrænan stuðning eftir áföll og ofbeldi. Á griðastöðunum fer einnig fram öflugt fræðslu- og forvarnarstarf þar sem konur og karlmenn á öllum aldri hljóta fræðslu um skaðlegar afleiðingar þess að gifta barnungar stúlkur.

Á griðastöðum UN Women gefst konum einnig kostur á að stunda hagnýtt nám t.d. í ensku, arabísku, mósaík, tölvukennslu, saumi, klæðskurði og hárgreiðslu. Komið hefur verið upp klæðskera- og saumastofum ásamt tölvustofu og hárgreiðslustofum. Á saumastofunni eru ungbarnaföt og burðarrúm saumuð fyrir sjúkrahús búðanna sem dreift er til nýbakaðra mæðra. Þar er smálánasjóður sem konur greiða í og geta sótt í ef þær eða börn þeirra veikjast. Auk þess setti UN Women á laggirnar kven nanefnd sem á sæti í stjórn flóttamannabúðanna - og kemur áhyggjuefnum og sjónarmiðum kvenna á framfæri við yfirvöld Zaatari búðanna.

Færri konur komast að en vilja og hundruð kvenna eru á biðlista eftir aðstoð. Til að starfrækja griðastaði UN Women þarf því fjármagn og þess vegna þurfa konur og stúlkur í Zaatari á hjálp þinni að halda!

Hafðu áhrif!

Sendu sms-ið KONUR í 1900 og veittu konum í Zaatari atvinnu, öruggt skjól og nýtt upphaf. Einnig er hægt að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á bankareikning 0101-05-268086, kt. 551090-2489 ásamt skýringunni Neyð.

Umfjöllun Kastljóss 7. nóvember

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum