Hoppa yfir valmynd
15.11. 2017 Utanríkisráðuneytið

Asíuþjóðir í takt við fyrsta Heimsmarkmiðið en fátækum fjölgar hins vegar í Afríku

WorldpovertyclockGóðu fréttirnar eru þær að sárafátækum í heiminum heldur áfram að fækka á þessu ári. Reiknað er með að þeim fækki um 38 milljónir á árinu, örlítið meira en árið 2016 þegar þeim fækkaði um 34 milljónir. Vondu fréttirnar eru þær að með sama áframhaldi tekst ekki að útrýma fátækt árið 2030 eins og fyrsta Heimsmarkmiðið kveður á um. Til þess að útrýma fáækt fyrir þann tíma þurfa 90 einstaklingar að lyfta sér upp úr fátækt á hverri mínútu, eða 1,5 á hverri sekúndu. Með sömu þróun og síðustu árin verða enn 9,5 milljónir manna sárafátækir í árslok 2030.

Þannig lýsa þeir Homi Kharas og Wolfgang Fengler horfunum um fyrsta Heimsmarkmiðið, að útrýma fátækt fyrir árið 2030. Þeir skrifuðu á dögunum athyglisverða grein á vef Brookings stofnunarinnar þar sem þeir benda á að þegar Heimsmarkmiðin voru samþykkt af þjóðarleiðtogum heims árið 2015 hafi líka verið kallað eftir tölfræðibyltingu. Þeir segja að sú bylting kristallist í tveimur spurningum þegar horft sé á fyrsta Heimsmarkmiðið, annars vegar spurningunni hversu margir einstaklingar búi núna við sárafátækt - þar sem viðmiðið er 1,90 bandarískir dalir í tekjur á dag; og hins vegar hvort þróunin sé nægilega hröð til þess að markmiðið sé raunhæft.

"Við settum á laggirnar World Poverty Clock í maí á þessu ári til þess að svara þessum tveimur spurningum," segja þeir í greininni. "Markmiðið var að þróa tól til að fylgjast með fyrsta Heimsmarkmiðinu í rauntíma með því að nota tölfræðilegt líkan til að taka mælanleg söguleg gögn fyrir mat á stöðunni frá degi til dags og spám fyrir um framtíðina."

Frá þessu verkefni var sagt í Heimsljósi í vor en auk þess að telja í rauntíma fjölda sárafátækra og hversu vel miðar miðað við lokatakmarkið árið 2030 að útrýma fátækt með öllu er í þessu verkefni upplýsingagrunnur um stöðu allra þjóða fram til ársins 2030.

Littleboy

Samstarfsþjóðir Íslands illa á vegi staddar
Þegar litið er til samstarfslanda okkar Íslendinga í alþjóðlegri þróunarsamvinnu kemur í ljós að Malaví á langt í land með að útrýma fátækt fyrir árið 2030. Þar eru 65,7% íbúanna sárafátækir, eða rúmlega 12 milljónir af 18,5 milljónum íbúa. Talan fyrir þróun er mínustala upp á 24.
Staðan er lítið betri í Mósambík. Af tæplega 30 milljónum íbúa eru rúmlega 19 milljónir sárafátæktir eða 64,9%. Litlar líkur eru fyrir því að fyrsta Heimsmarkmiðið náist því mikið vantar upp á til þess að þróunin sé í takt við markmiðið, mínustala upp á 16.

Úganda er líka fjarri því að ná takmarkinu um útrýmingu fátæktar fyrir árið 2030. Af rúmlega 42 milljónum íbúa eru núna rúmlega 13 milljónir sárafátækir og talan um þróunina er mínus 8,7.

Tæplega milljarður enn sárafátækur árið 2030?

Homi Kharas og Wolfgang Fengler segja í grein sinni að hjá þjóðum þar sem sárafátækum fækkar á þessu ári nemi fækkunin 47 milljónum einstaklinga. Hins vegar fjölgi sárafátækum í 30 löndum og 9 milljónir einstaklinga sem áður voru fyrir ofan tekjumarkið lendi fyrir neðan línuna á þessu ári. Fram kemur í greininni að Asíuþjóðir séu á réttum hraða að útrýma sárafáækt - 77 einstaklingar á hverri mínútu - en öfugþróun sé hins vegar í Afríku þar sem sárafátækum kemur til með að fjölga á þessu ári um 2,4 milljónir. Þar skiptir mestu að fjölmennustu ríkin í Afríku, Nígería og Lýðstjórnarlýðveldið Kongó, eru að dragast aftur úr og þar bætast við 9,3 einstaklingar í hóp sárafátækra á hverri mínútu.

Niðurstaða greinarinnar um horfurnar á því að ná fyrsta Heimsmarkmiðinu er því ekki uppörvandi: okkur mun ekki takast að útrýma fátækt fyrir árið 2030. Þá verða enn 438 milljónir sárafátækir, eða 5% jarðarbúa. Asíuþjóðum mun að mestu leyti takast að útrýma fátækt samkvæmt spánni en Afríkuþjóðum mun einungis takast að draga úr fátækt úr 34% í álfunni árið 2017 niður í 23% árið 2030. "Vegna fólksfjölgunar í Afríku verður þó aðeins óveruleg fækkun í einstaklingum talið í álfunni," segir þeir Homi Kharas og Wolfgang Fengler í greininni. Þeir minna þó á að um spá sé að ræða.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum