Hoppa yfir valmynd
15.11. 2017 Utanríkisráðuneytið

Skrifað undir nýjan samstarfssamning við Mangochi hérað í Malaví

BladafregnmalaviÍslensk stjórnvöld hafa skrifað undir nýjan samstarfssamning við stjórnvöld í Malaví um grunnþjónustu við íbúa Mangochi héraðs til fjögurra ára. Ágústa Gísladóttir forstöðukona sendiráðs Íslands í Lilongve skrifaði undir samninginn fyrir hönd Íslands en Kondwani Nankhumwa ráðherra sveitastjórnarmála og Moses Chimphepo héraðsstjóri í Mangochi fyrir hönd Malaví.

Yfirmarkmið þróunarsamvinnu ríkjanna tveggja er að styðja við viðleitni stjórnvalda í Malaví og héraðsstjórnvalda í Mangochi til að bæta félags- og efnahagsleg lífsskilyrði í héraðinu. Um er að ræða verkefni á ýmsum sviðum grunnþjónustu, svokallaða verkefnastoð, framhaldsáfanga af verkefnastoð sem er að ljúka. Helstu verkþættir eru uppbygging í heilbrigðismálum, með áherslu á mæðra- og ungbarnaheilsu; uppbygging í grunnskólum, með áherslu á stuðning við yngsta aldursstigið; uppbygging í vatns- og salernismálum; bætt atvinnutækifæri og valdefling kvenna og ungmenna; og almennur stuðningur við héraðsskrifstofuna með áherslu á deildir fjármála og eftirlits.

Verkefnastoðin er liður í aðgerðaáætlun Malaví og framkvæmd innan ramma tvíhliða samkomulags ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Malaví á sviði þróunarsamvinnu. Hún leggur jafnframt sinn skerf af mörkum til Heimsmarkmiða um sjálfbæra þróun, ekki síst til markmiðs nr. 3 um heilsu og vellíðan; markmiðs nr. 4 um menntun fyrir alla; markmiðs nr. 5 um jafnrétti kynjanna; og markmiðs nr. 6 um hreint vatn og salernisaðstöðu.

Heiti verkefnastoðarinnar er "Mangochi Basic Services Programme 2017-2021" og samstarfsaðilinn er héraðsstjórn Mangochi héraðs. Verkefninu verður hleypt af stokkunum í desember á þessu ári. Kostnaðaráætlun fyrir Ísland nemur rúmum 16,3 milljónum Bandaríkjadala á fjórum árum.

Megináhersla í tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands er að stuðla að bættum lífskjörum með því að styðja við áætlanir stjórnvalda í samstarfslöndunum um að draga úr fátækt. Malaví er í hópi fátækustu ríkja heims og hefur verið eitt helsta samstarfsland Íslands allt frá árinu 1989. Frá byrjun hefur verið lögð áhersla á svæðisbundna nálgun í Malaví og einkum verið starfað í Mangochi héraði. Árið 2012 var fyrst undirritaður samstarfssamningur við ráðuneyti sveitarstjórnarmála og héraðsstjórnvöld í Mangochi um eflingu grunnþjónustu í héraðinu. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum