Hoppa yfir valmynd
06.12. 2017 Utanríkisráðuneytið

Fjórir milljarðar jarðarbúa án félagslegrar verndar

https://youtu.be/SZfy_CztIZQ Þrátt fyrir verulegar framfarir á sviði almannatrygginga í mörgum heimshlutum fer því fjarri að slík félagsleg réttindi séu tryggð fyrir alla jarðarbúa. Samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðavinnumála-stofnunarinnar (ILO) hefur meirihluti íbúa í heiminum enga félagslega vernd, eða um fjórir milljarðar einstaklinga. Margt er því ógert í baráttunni fyrir félagslegum réttindum, eins og segir í skýrslunni. 

Markmið 1.3 í Heimsmarkmiðunum vísar til almannatrygginga en þar segir orðrétt: "Ráðstafanir verði gerðar til samræmis við aðstæður í hverju landi til að innleiða félagsleg tryggingakerfi og vernd öllum til handa, þar með talin lágmarksframfærsluviðmið, og eigi síðar en árið 2030 verði stuðningur við og vernd fátæks fólks og fólks í viðkvæmri stöðu stóraukinn."

Í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna segir að allir þjóðfélagsþegnar eigi rétt til almannatrygginga (22. gr.) Samkvæmt skýrslu ILO eru þessi mannréttindi þó aðeins í boði fyrir 45% íbúa jarðarinnar. Það er hlutfall þeirra sem hafa viðurkenndan rétt til einhverrar félagslegrar verndar. Ef horft er hins vegar til þeirra sem hafa víðtækar almannatryggingar er einungis verið að vísa til 29% mannkyns. Og það þýðir að mikill meirihluti, 72% eða 5,2 milljarðar manna, hefur alls enga eða mjög takmarkaða félagslega vernd.

Skýrsla ILO nefnist: World Social Protection Report 2017/19: Universal social protection to achieve the Sustainable Development Goals.

"Skortur á félagslegri vernd leiðir til þess að margir eru illa staddir alla ævina ef eitthvað bjátar á eins og fátækt, ójöfnuður eða félagsleg útilokun. Að neita fjórum milljörðum einstaklinga um þessi mannréttindi felur í sér verulega hindrun fyrir efnahagslega og félagslega þróun. Þótt mörg ríki hafi náð langt í að styrkja félagsleg öryggisnet er brýnt að kosta kapps um að tryggja öllum rétt til félagslegrar verndar," sagði Guy Ryder framkvæmdastjóri ILO þegar skýrslan var kynnt á dögunum.

Four billion people have no social security protection - UN labour agency/ UNNewsCentre 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum