Hoppa yfir valmynd
06.12. 2017 Utanríkisráðuneytið

Óðaverðbólga í Suður-Súdan og hálf þjóðin við hungurmörk

SouthsudanritEnn eru því miður engin teikn á lofti um frið í Suður-Súdan sem sex árum eftir sjálfstæði er meðal þeirra þjóða heims sem býr við mestan óstöðugleika. Vopnuð átök eru daglegt brauð og hálf þjóðin - um sex milljónir manna - hefur vart til hnífs og skeiðar. 

Hungursneyð var lýst yfir í febrúar á þessu ári en þótt henni hafi verið afstýrt með gífurlegri utanaðkomandi mannúðaraðstoð er matvælaóöryggi áfram útbreitt í landinu.

Um tvær milljónir Suður-Súdana hafa flúið land og svipaður fjöldi er á vergangi innanlands. Í nýju riti Alþjóðabankans um leiðir til þess að koma á efnahagslegum stöðugleika segir að samdráttur í hagkerfinu nemi á einu ári um 11 prósentum vegna átaka, minnkandi olíuframleiðslu og minnkandi landbúnaðarframleiðslu sem hvoru tveggja eru afleiðingar borgarastyrjaldarinnar í landinu. Skuldir þjóðarinnar, verðbólga og markaðsverð á vörum hafa stórhækkað. Almenningur hafi í fæstum tilvikum ráð á því að kaupa í matinn.

Í ritinu  sem heitir - Taming the Tides of High Inflation in South Sudan - segir að fátækt í borgum hafi aukist úr 49% árið 2015 í 70% árið 2016. Með rýrnandi kaupmætti hafi margir launþegar og fólk á vinnumarkaði verið dregið niður í sárustu fátækt. Sömu sögu megi segja af þeim sem rekið hafi eigin fyrirtæki. Skýrsluhöfundar segja að ástandið í fjármálum sé skelfilegt, vangoldin laun opinberra starfsmanna hlaðist upp og ríkisstjórnin stundi seðlaprentun með tilheyrandi óðaverðbólgu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum