Hoppa yfir valmynd
06.12. 2017 Utanríkisráðuneytið

Sameinuðu þjóðirnar óska eftir rúmum tveimur milljörðum í neyðarhjálp

GloablappealSameinuðu þjóðirnar óska eftir 22,5 milljörðum Bandaríkjadala til hjálparstarfa á næsta ári. Samtökin hafa aldrei fyrr óskað eftir jafn háum framlögum til þessa málaflokks, en þetta svarar til sem nemur 2.350 milljarða króna á núgildandi gengi, eins og fram kom í frétt RÚV á dögunum. "Sameinuðu þjóðirnar biðla til allra aflögufærra aðildarríkja um framlög, en markmiðið er að koma brýnustu nauðsynjum til þeirrar 91 milljónar jarðarbúa sem eru í mestri neyð," sagði þar ennfremur.

Að sögn RÚV er um þriðjungur þessara fjármuna, 7,7 milljarðar dala, hugsaður til að lina þjáningar þrautpíndra Sýrlendinga, jafnt innan landamæra Sýrlands sem utan. Hálfur þriðji milljarður til viðbótar er nauðsynlegur til að bjarga lífi þeirra sem verst eru sett í hinu stríðshrjáða Jemen, en Sameinuðu þjóðirnar viðurkenna að markmið þeirra miðist við að samtökin geti einungis hjálpað um helmingi þeirra 20 milljóna Jemena sem þurfa nauðsynlega á aðstoð að halda. Samtals þarf því yfir 10 milljarða dala, ríflega 1.000 milljarða króna, til að sinna brýnustu verkefnum í þessum tveimur löndum.

Þá fer þörfin fyrir neyðarhjálp vaxandi í nokkrum Afríkulöndum, segir RÚV, og er talin þörf á yfir einum milljarði Bandaríkjadala, ríflega eitt hundrað milljörðum króna, til neyðaraðstoðar í hverju landi um sig Kongó, Eþíópíu, Nígeríu, Sómalíu, Súdan og Suður-Súdan. Söfnunarmarkmið yfirstandandi árs var litlu lægra, eða 22,2 milljarðar dala. Um 13 milljarðar höfðu safnast í nóvember, sem er nýtt met. 

Nánar á RÚV 
GLOBAL HUMANITARIAN APPEAL HITS RECORD $22.5 BILLION, AIMING TO REACH 91 MILLION PEOPLE WITH ASSISTANCE IN 2018

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum