Hoppa yfir valmynd
06.12. 2017 Utanríkisráðuneytið

Vilja virkja afrískar konur í frumkvöðlastarfi í orkumálum

KvenorkaUtanríkisráðuneytið er styrktaraðili verkefnisins Africa Women Energy Entrepreneur Framework (AWEEF) sem hleypt var af stokkunum í aðdraganda Umhverfisþings Sameinuðu þjóðanna (UN Environment Assembly) sem stendur yfir þessa dagana í Næróbí í Kenía. Verkefnið er leitt af Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP).

Að sögn Péturs Waldorffs frá Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna er verkefnið vettvangur til að virkja afrískar konur í frumkvöðlastarfi sem tengist orkumálum og til að hasla sér völl í ákvarðanatöku um orkumál og sem lykil hagsmunaaðilar í virðiskeðju orku innan álfunnar. "Verkefninu er ætlað að taka á þeim áskorunum og hindrunum sem koma í veg fyrir fulla þátttöku kvenna innan orkugeirans í álfunni. Þannig eru leiddir saman kvenfrumkvöðlar í afríska orkugeiranum, orkustofnanir, ríkisstofnanir, fjármálastofnanir, vísinda- og fræðimenn, einkageirinn, aðilar úr viðskiptalífinu og frjáls félagasamtök," segir Pétur.

Hann bendir á að þótt konur í Afríku gegni lykilhlutverki sem framleiðendur, dreifingaraðilar og neytendur orku bæði i þéttbýli og til sveita í Afríku hafi þær lítil áhrif á ákvarðanatöku í orkumálum álfunnar sem og á þær lausnir sem í boði eru þegar kemur að hreinni og sjálfbærri orkunýtingu. Að sögn Péturs tengir AWEEF þörfina á endurnýjanlegri orku við jafnréttismál og félagslega og efnahagslega þróun með því að auka aðgengi kvenna að ódýrri, sjálfbærri og hreinni orku og með aðkomu kvenna að lausnum í orkumálum. "Með því að taka á þessum samþættu málum á heildstæðan hátt tekur verkefnið til ýmissa Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, þar á meðal til markmiðs nr. 5 um jafnrétti kynjanna, markmiðs 7 um sjálfbæra orku og markmiðs13 um verndun jarðarinnar.

Viðstaddir setningu AWEEF voru Davíð Bjarnason frá þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Jón Geir Pétursson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu auk Péturs Waldorffs frá Jafnréttisskólanum en hann tók einnig þátt í pallborðsumræðum fyrir hönd UNU-GEST á þessum viðburði.
Staðreyndir um orkumál í Afríku:

  • 600 milljón manns hafa ekki aðgang að rafmagni
  • 730 milljón manns notast við eldivið og/eða kol sem megin orkugjafa
  • Um 600 þúsund manns deyja á ári hverju vegna loftmengunar innan afrískra heimila. 60% þeirra eru konur.
  • Miðað við framgang mála í dag mun taka til ársins 2080 að veita öllum íbúum Afríku aðgengi að rafmagni og ekki næst að veita aðgengi að hreinni orku til eldunar fyrr en um miðja 22. öldina.

(Atlas of Energy Resources 2016)

Nánari upplýsingar um AWEEFAFRICAN WOMEN ENERGY ENTREPRENEURS FRAMEWORK (AWEEF) AND PANEL SESSION ON INNOVATIVE SOLUTIONS TO EMPOWER WOMEN ENTERPREUNERS IN ENERGY SECTOR - Concept Note 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum