Hoppa yfir valmynd
01.02. 2018 Utanríkisráðuneytið

Davos: Aðgerðaráætlun til verndar lífríki hafsins

Málefni sem tengjast þróun og baráttunni fyrir betri heimi eru ávallt fyrirferðarmikil á Davos ráðstefnunni í Sviss. Rúmlega þrjú þúsund leiðtogar í stjórnmálum og viðskiptalífi frá rúmlega eitt hundrað þjóðríkjum tóku þátt í þessari árlegu ráðstefnu á dögunum, þar af 70 þjóðhöfðingjar og 45 framkvæmdastjórar alþjóðlegra stofnana. Ráðstefnan – World Economic Forum (WEF 48) stóð yfir í þrjá daga og lauk í vikunni. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna voru þar í brennidepli.

Að þessu sinni var áhersla á umræðu um sameiginlega framtíð mannkyns í brothættum heimi í ljósi örra tæknibreytinga. Samkvæmt frétt IISD voru haldnar um 400 málstofur sem skiptust á milli sex málaflokka. Leiðtogarnir ræddu brýn málefni um allt himins og jarðar í bókstaflegri merkingu, loftslagsmál, hafið, stafrænu gjána, salernismál og jafnrétti, svo fátt eitt sé talið.

Á Davos ráðstefnunni var meðal annars tilkynnt um aðgerðaráætlun um verndun hafsins en í myndbandinu má sjá upptöku frá blaðamannafundi þar sem tilkynnt var um „Friends of the Ocean Action“ sem byggir á stefnumótun á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um hafið sem haldin var síðastliðið sumar. Peter Thomson frá Fiji eyjum, sérlegur erindireki hafsins hjá Sameinuðu þjóðunum, og Isabella Lövin aðstoðarforsætisráðherra Svíþjóðar kynntu verkefnið í Davos en um að ræða óformlegt bandalag fjölmargra aðila til verndar lífríki hafsins.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum