Hoppa yfir valmynd
22.03. 2018 Utanríkisráðuneytið

Alþjóðlegi vatnsdagurinn: Mikill munur á aðgengi að vatni

Ljósmynd frá Malaví: gunnisal - mynd

Tæplega 850 milljónir manna þurfa að ganga eða bíða í biðröð í meira en hálftíma eftir góðu neysluvatni, segir í nýrri stöðuskýrslu UNWater um vatnsmálin í heiminum. Alþjóðadagur vatnsins er í dag, 22. mars. Þrátt fyrir miklar framfarir í vatnsmálum í heiminum sýnir skýrslan mikinn mun á aðgengi að vatni innan þjóða og milli þjóða. Fátæk samfélag hafa áberandi lakara aðgengi að heilnæmu vatni en þau efnameiri.

Í skýrslunni er bent á að þótt fjölmiðlar hafi einblínt á þurrkana í Höfðaborg í Suður-Afríku séu samfélög víða í heiminum þar sem íbúar hafi árum saman þurft að standa í biðröð eftir vatni og búið við takmarkanir á vatnsnotkun.

Langverst er ástandið í Eritreu. Þar hafa einungis 19% íbúa aðgang að drykkjarvatni. Vatnsmál eru líka í ólestri í Papúa Nýju-Gíneu, Úganda, Eþíópíu, Lýðræðislega lýðveldinu Kongó og Sómalíu en í öllum þessum löndum hafa aðeins 37-40% íbúanna aðgang að vatni. „Það er engin tilviljun að margar þessara þjóða hafa tekið á móti flóttafólki í miklum mæli sem búa í tímabundnum skýlum,“ segir í skýrslunni.

Vakin er athygli á því í skýrslunni á þeim mikla ójöfnuði sem ríkir innan landa þegar horft er á aðgengi að vatni, ekki síst með tilliti til tekna. Í Níger hafa til dæmis 41% fátækra aðgengi að vatni en 72% þeirra efnameiri. Í nágrannaríkinu Malí er sambærilegar tölur 45% á móti 93%.

„Ójöfnuður hvað varðar aðgengi að vatni eykst fyrst vegna vegna skorts á pólitískum vilja,“ segir Lisa Schechtman hjá WaterAid í frétt The Guardian. Hún bætir við að hætta sé á því að fólk verði útundan, sérstaklega í sveitum, auk þeirra þjóðfélagshópa sem eru í viðkvæmri stöðu, fólk með fötlun, aldraðir, veikir og þeir sem eru á vergangi.

Ójöfnuður hvað varðar hlutverk kynjanna er líka áberandi í vatnsmálum því konur hafa víða það tímafreka hlutverk að sækja vatn. Samkvæmt útreikningum Sameinuðu þjóðanna verja konur að jafnaði tveimur og hálfum mánuði ár hvert í vatnsburðinn miðað við 50 lítra af vatni til heimilisnota.

Fram kemur í skýrslu UNWater að talsverðar framfarir hafi orðið frá síðustu aldamótum. Um 89% jarðarbúa hafa nú aðgengi að neysluvatni í grennd við heimili sín en sú tala stóð í 81% árið 2000. Þær þjóðir sem hafa náð mestum árangri eru Afganistan, Jemen, Laos, Mósambík og Malí.

Enn vantar þó talsvert upp á að sjötta Heimsmarkmiðið náist en tvö fyrstu undirmarkmiðin fela í sér að eigi síðar en árið 2030 verði öllum tryggður almennur og réttmætur aðgangur að heilnæmu drykkjarvatni á viðráðanlegu verði – og að eigi síðar en árið 2030 verði öllum tryggður jafn aðgangur að fullnægjandi salernis- og hreinlætisaðstöðu og endir verði bundinn á að menn þurfi að ganga örna sinna utan dyra, þar sem sérstakri athygli er beint að þörfum kvenna og stúlkna og þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu.

Vefur alþjóðadags vatnsins

Skýrslan: The Water Gap/ UNWater

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum