Hoppa yfir valmynd
24.05. 2018 Utanríkisráðuneytið

Gavi samtökin leggja áherslu á ná til þeirra 20% barna í heiminum sem enn eru óbólusett

Ljósmynd frá Úganda: gunnisal - mynd

Talið er að ein og hálf milljón óbólusettra barna yngri en fimm ára látist árlega í fátækustu ríkjum heims af völdum sjúkdóma þar sem virk bóluefni eru til. Gavi, alþjóðlegum samtökum um bólusetningar, hefur tekist frá því samtökin voru stofnuð fyrir átján árum að fjármagna bóluefni fyrir 700 milljónir barna sem ella hefðu ekki verið bólusett gegn banvænum sjúkdómum.

Að sögn Tormod Simensen framkvæmdastjóra hjá samtökunum (sjá meðfylgjandi myndband) hefur Gavi bjargað 9 milljónum mannslífa og sparað milljónir bandarískra dala með því ná fram lækkun á verði bóluefna frá lyfjaframleiðendum.

Gavi hefur frá upphafi helgað sig baráttunni gegn barnasjúkdómum í fátækustu ríkjum heims með fjármögnum á bóluefnum. Tormod segir að samtökin miði við tilteknar þjóðartekjur og þegar þjóðir lyfta sér upp úr fátækt falli þau út af listanum hjá Gavi og fjölmargar þjóðir séu nú betur settar en áður og geti fjármagnað eigin bólusetningar á börnum.

Hann segir að þegar ný lyf gegn alvarlegum niðurgangspestum og lungnabólgu komu á markað hafi þau verið dýr og fyrst og fremst hugsuð fyrir efnaðar þjóðir. Þá hafi viðskiptalíkan Gavi reynst afburða vel því og samtökunum hafi með magninnkaupum tekist að lækka verulega verð á bóluefnum í þágu fátækustu þjóðanna. Tormod nefnir til dæmis HPV bóluefni gegn leghálskrabbameini sem kosti 110 evrur (14 þúsund íslenskar krónur) í Evrópu. Tvö skammta þurfi til að bólusetja hverja stúlku sem kosti þá tæplega 30 þúsund íslenskar krónur. Gavi hafi hins vegar tekist að ná verðinu niður í 4,50 evrur (570 kr.) fyrir fátækar stúlkur í þróunarríkjunum og því kosti einungis rétt rúmlega eitt þúsund íslenskar krónur að bólusetja hverja stúlku gegn leghálskrabbameini.

Tormod segir að Gavi hafi náð til 80% barna í fátækum ríkjum heims og því séu enn um 20% barna óbólusett sem samtökin leggi nú mesta áheslu á að ná til. Með stefnumörkun til ársins 2020 sé markmiðið að bólusetja til viðbótar 300 milljónir barna og forða þannig 6 milljónum barna frá ótímabærum og ónauðsynlegum dauðsföllum.

Hann segir aðspurður að Heimsmarkmiðin séu rauður þráður í starfi Gavi samtakanna, bólusetning sé einn lykilþátturinn í skilvirku heilbrigðiskerfi.

Tormod Siemensen var á ferð hér á landi á dögunum ásamt Carl Björkman frá Bill & Melinda Gates sjóðnum en sá sjóður er einn helsti styrktaraðili Gavi. Erindi þeirra til Íslands var að kynna starfsemi samtakanna fyrir íslenskum stjórnvöldum.

Vefur Gavi samtakanna

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum