Hoppa yfir valmynd
06.06. 2018 Utanríkisráðuneytið

Stuðningur við borgarasamtök í Palestínu

Nýlega hafa verið undirritaðir samningar við tvenn borgarasamtök í Palestínu um rúmlega tíu milljóna króna (100 þúsund bandarískra dala) framlag íslenskra stjórnvalda á ári í þrjú ár. Samtökin hafa bæði notið stuðnings frá Íslandi um árabil.

Önnur þessara samtaka eru Women‘s Centre for Legal Aid and Counselling (WCLAC) sem starfað hafa síðan 1991. Þau beita sér fyrir bættu lagaumhverfi í jafnréttismálum og veita stuðning, fræðslu og ráðgjöf gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi, meðal annars með rekstri kvennaathvarfs.

Hin samstökin eru Palestinian Medical Relief Society (PMRS) sem stofnuð voru 1979 til að bæta veikburða heilbrigðisþjónustu í landinu. Þau leggja áherslu á að veita fátækum og illa stöddum í dreifbýli, þéttbýli og flóttamannabúðum grunnheilsugæslu, meðal annars með færanlegri heilsugæslu. Samtökin annast einnig sjúkraflutninga. Í nýja samningnum er sjónum sérstaklega beint að þátttöku kvenna í samfélagslegri uppbyggingu á sviði heilbrigðismála á Vesturbakkanum.

Bæði samtökin eru rótgróin og gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki hvað varðar þjónustu og málsvarastarf í Palestínu. Stuðningur íslenskra stjórnvalda þjónar þeim meginmarkmiðum mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu að lina þjáningar og efla viðnámsþrótt samfélagsins.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum