Hoppa yfir valmynd
12.06. 2018 Utanríkisráðuneytið

Ályktun 1325: Aðgerðaráætlun stjórnvalda í Mósambík ýtt úr vör

Mynd frá viðburðinum í gær í Mapútó.  - mynd

Fyrsta aðgerðaáætlunar Mósambíkur til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi var hleypt af stokkunum í gær af Cidália Chaúque Oliveira ráðherra jafnréttis-, barna- og félagsmála. Aðgerðaáætlunin er framkvæmd í samstarfi við UN Women í Mósambík. Fjárhagslegir bakhjarlar eru íslensk stjórnvöld, gegnum alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, og sendiráð Noregs í Mapútó.

„Áætlunin mun auka öryggi kvenna, stuðla að efnahagslegri valdeflingu þeirra, efla getu kvenfélaga til að taka þátt í forvörnum og úrlausnum átaka, auk þess að auka getu stjórnvalda til að samræma, fylgja eftir og framkvæma alþjóðlegar skuldbindingar um konur, frið og öryggi,“ segir Lilja Dóra Kolbeinsdóttir sem tók þátt í undirbúningi verkefnisins fyrir hönd sendiráðs Íslands í Mapútó í fyrra. Hún bætir því við að hugsa megi verkefnið sem frumkvöðlastarf, verkefni sem vísar veg og leggur línur til framtíðar um framkvæmd aðgerðaráætlunar ályktunar 1325 í Mósambík.

Viðburðurinn í gær var sóttur af rúmlega hundrað manns frá stjórnvöldum í Mósambík, fulltrúum á mósambíska þinginu, borgarasamfélaginu, einkageiranum og stofnunum Sameinuðu þjóðanna.

Ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 viðurkennir sérstöðu kvenna í stríði og átökum og mikilvægi hlutverks þeirra í friðaruppbyggingu. „Í Mósambík ríkti borgarastyrjöld í rúm sextán ár og þar enn eru róstur öðru hverju. Því skiptir ályktunin og framkvæmd hennar gríðarlega miklu máli,“ segir Lilja Dóra.

Ísland skrifaði í apríl á síðasta ári undir samstarfssamning við UN Women í Mósambík upp á 2,5 milljónir Bandaríkjadali til fjögurra ára, 2017-2020. Verkefnið beinist að því að aðstoða mósambísk stjórnvöld við framkvæmd þessarar fyrstu aðgerðaáætlunar ályktunar 1325.

Meginmarkmið verkefnisins er að tryggja að ferlar og áætlanir sem stuðla eiga að friði, öryggi og endurreisn í mósambísku samfélagi leiði til þess að auka jafnrétti og valdeflingu kvenna og stúlkna. Að sögn Lilju Dóra verða konur og stúlkur oftar en ekki útundan í þess háttar ferlum og áætlunum. „Verkefnið var byggt þannig upp að auðvelt væri að stækka það og fjölga fylkjum og héruðum til að framkvæma verkþætti ef viðbótarfjármagn fengist frá öðrum framlagsríkjum. Nú hafa Norðmenn slegist í hópinn og bætt tveimur milljónum Bandaríkjadala í verkefnið til þriggja ára sem styrkir verkefnið verulega,“ segir Lilja Dóra.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum