Hoppa yfir valmynd
22.08. 2018 Utanríkisráðuneytið

CERF veitti neyðaraðstoð í 36 ríkjum á síðasta ári

Forsíða skýrslunnar. - mynd

Á síðasta ári veitti Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna (CERF) neyðaraðstoð í 36 þjóðríkjum, að því er fram kemur í nýútgefinni ársskýrslu sjóðsins fyrir árið 2017. Neyðaraðstoð sjóðsins er fyrst og fremst veitt til íbúa á átakasvæðum sem lítið er fjallað um á alþjóðavettvangi. Slík “vanrækt neyð” var meðal annars á síðasta ári í Afganistan, Tjad og Súdan en einnig kom CERF hungruðum íbúum í austurhluta Nígeríu, Suður-Súdan og Jemen til aðstoðar þegar hungursneyð vofði yfir. Þá kom sjóðurinn fjölmörgum til bjargar í kjölfar náttúruhamfara á Karíbahafi.

Í ársskýrslunni er ítarlega fjallað um það hvernig CERF ráðstafaði á síðasta ári hartnær 420 milljónum bandarískra dala, rúmum 46 milljörðum íslenskra króna, til fólks í neyð.

“Árið 2017 sá ég hvernig CERF breytti lífi margra ... sjóðurinn er án efa eitt mikilvægasta verkfæri okkar til að ná fljótt til fólks og bjarga lífi," segir Mark Lowcock framkvæmdastjóri mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum í inngangsorðum skýrslunnar.

CERF sjóðurinn var fljótur að bregðast við á árinu og tókst með hjálp samstarfsaðila að hefja fyrstu aðgerðir strax þegar upp komu neyðartilvik. Einn helsti þáttur í skýrslunni fjallar um stuðning CERF við Róhingja flóttamenn frá Mjanmar sem flúðu yfir til Bangladess.

Framlag Íslands

Neyðarsjóður SÞ, CERF (Central Emergency Response Fund), var stofnaður 2006 til að gera SÞ kleift að bregðast annars vegar hraðar við neyðarástandi og hins vegar til að veita nauðsynlega aðstoð til mannúðarverkefna sem ná minni athygli umheimsins eða hafa ekki náð að laða að sér nægt fjármagn frá framlagsríkjum. Fast framlag Íslendinga til sjóðsins er 50 milljónir króna árlega en á síðasta ári nam heildarframlag Íslands til CERF 84 milljónum króna, segir í ársskýrslunni sem lesa má í heild hér.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum