Hoppa yfir valmynd
05.12. 2018 Utanríkisráðuneytið

Úganda: Íslendingar tryggja aðgengi 50 þúsund manns að hreinu drykkjarvatni

Íbúar í Buikwe héraði í Úganda þurfa ekki lengur að sækja óhreint neysluvatn í Viktoríuvatn.  - myndákj

Allt að 50 þúsund manns verða komnir með aðgang að hreinu, ómenguðu neysluvatni þegar öðrum áfanga í vatnsverkefni Íslands í Buikwe héraði í Úganda lýkur á næsta ári. Framlag Íslands til vatnsverkefnisins hefur nú þegar skilað góðum árangri eins og úgandska blaðið Monitor greindi nýlega frá

Nýverið undirritaði Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í Kampala, samning við Water Mission Uganda um áframhaldandi samstarf sem felur í sér uppsetningu á skömmtunarbúnaði við vatnspósta í fiskiþorpum í Buikwe-héraði og þjálfun íbúanna í notkun og rekstri þeirra. Í þessum áfanga verða boraðar tíu nýjar borholur, sólardrifin dæluhús ásamt forðatönkum byggðar við þær og dreifikerfi frá fjórum vatnsveitum úr fyrsta áfanga stækkaðar. Vatni verður síðan dreift í tuttugu fiskiþorp, þar sem íbúarnir fá greiðan aðganga að hreinu og hollu vatni. 

Þegar áfanganum lýkur munu alls 25 vatnsveitur hafa verið byggðar fyrir íslenskt þróunarfé sem dreifa vatni í rúmlega hundrað vatnspósta í tæplega fjörutíu fiskimannaþorpum við strendur Viktoríuvatns. Samhliða vatnsveitunum hafa verið byggðar um 150 salernisbyggingar til almenningsnota í sömu þorpum. 

Síðasti hluti vatnsverkefnisins í Buikwe héraði, sem þegar er hafinn, er að aðstoða heimamenn við að koma á skynsamlegu og sjálfbæru rekstrarkerfi fyrir vatnsveiturnar þannig að hægt verði að sinna eðlilegu viðhaldi á þeim. Þannig verður tryggt að vatnsveiturnar þjóni íbúum fiskimannaþorpanna um langa framtíð.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

6. Hreint vatn og hreint
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum