Hoppa yfir valmynd
21.01. 2021 Utanríkisráðuneytið

Úganda: Lögð drög að valdeflingu kvenna í Buikwe héraði

Frá Buikwe. Ljósmynd: gunnisal - mynd

Héraðsyfirvöld í Buikwe eru með stuðningi frá Íslandi að þróa stefnumótandi áætlun til næstu fimm ára um efnahagslega valdeflingu kvenna í fiskisamfélögum héraðsins. Buikwe er helsta samstarfshérað Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu í Úganda en þróunarverkefnin beinast að því að bæta lífsgæði íbúa í 39 fiskiþorpum við strönd Viktoríuvatns.

Vinnustofa um stefnumótunina var haldin í síðustu viku í með þátttöku 37 fulltrúa frá fiskisamfélögunum, ráðuneytum landbúnaðar og sveitarstjórna, héraðsstjórn, félagasamtökum og sendiráði Íslands í Kampala.

„Þátttakendur veltu fyrir sér ýmsum úrlausnarefnum sem snúa að valdeflingu kvenna í fiskveiðisamfélögum og ræddu hugsanlegar lausnir sem væru líklegar að skila jákvæðum breytingum og yrðu framkvæmdar af héraðsstjórninni. Síðar kæmi til stuðningur frá Íslandi við ákveðna þætti, í samræmi við þá stefnumótun sem fyrir liggur um verkefnin í héraðinu milli Íslands og héraðsstjórnarinnar,“ segir Finnbogi Rútur Arnarson starfandi forstöðumaður sendiráðsins.

Fulltrúar héraðsins hrósuðu mjög samstarfi Íslands og héraðsins. „Ólíkt mörgum verkefnum í Úganda sem einkennast af spillingu hefur þróunarverkefnið í Buikwe verið framkvæmt án spillingar, ekki síst vegna stöðugs eftirlits sendiráðsins með framkvæmd verkefnanna. Þess vegna hefur okkur tekist að ná áþreifanlegum árangri sem breytt hefur Buikwe til batnaðar á aðeins fjórum árum, meðal annars í skólamálum, vatns-, salernis- og hreinlætismálum og viðbrögðum við COVID-19,“ sagði Mathias Kigongo héraðsstjóri.

Finnbogi Rútur sagði í lokaorðum sínum að hann væri alinn upp af ömmu sinni með þeirri lífsspeki að „kona getur gert allt sem karlmaður getur gert, oftast betur!“ Þá hugmyndafræði þyrfti að hafa að leiðarljósi framvegis í samstarfsverkefnum Íslands og Buikwe.

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum