Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. desember 2019 UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðuneytið

Áramótaannáll utanríkisþjónustunnar

Áramótaannáll utanríkisþjónustunnar - myndWikimedia Commons/Börkur Sigurbjörnsson

Árið 2019 hefur verið vægast sagt viðburðaríkt í íslensku utanríkisþjónustunni. Þar ber líklega hæst framgöngu Íslands sem kjörins fulltrúa í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, heimsóknir varaforseta og utanríkisráðherra Bandaríkjanna og formennsku í Norðurskautsráðinu og norrænni samvinnu og stjórnarseta í Alþjóðabankanum. Eftirfarandi samantekt er byggð á fréttum úr utanríkisþjónustunni sem birst hafa á vef Stjórnarráðsins undanfarna tólf mánuði en nánar má lesa um það sem á daga okkar hefur drifið í einstökum fréttum, í föstudagspóstum og á samfélagsmiðlum.

Janúar

Ýmis tvíhliða málefni á borð við viðskipti, fríverslun, öryggis- og varnarmál og norðurslóðamál voru til umræðu á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Washington þann 7. janúar. Ráðherrarnir samþykktu í lok fundar sameiginlega yfirlýsingu um samstarf ríkjanna. 

Formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni var kynnt í Norræna húsinu 22. janúar en hún hófst formlega um síðustu áramót og lýkur nú um þessi áramót. Yfirskrift formennskunnar er „Gagnvegir góðir“ og vísar hún til vináttu og samstarfs Norðurlandanna í fortíð og framtíð.

Í árlegu nýársboði Margrétar Þórhildar Danadrottningar, sem haldið var í Kristjánsborgarhöll, ávarpaði Benedikt Jónsson, þáverandi sendiherra Íslands, Danadrottningu, Friðrik krónprins og hans konu, fyrir hönd erlendra sendiherra í Kaupmannahöfn. 

Febrúar

Utanríkisráðherra fór í vinnuheimsókn í Malaví í byrjun ársins til að kynna sér árangur af þróunarsamvinnu Íslands og Malaví, sem hófst fyrir þrjátíu árum. Mannréttindamál og tvíhliða þróunarsamvinna voru í brennidepli á fundum hans með forseta og utanríkisráðherra Malaví. Utanríkisráðherra opnaði í gær nýja fæðingardeild í Mangochi-bæ sem gerbyltir fæðingarþjónustu í héraðinu. 

Í febrúar lauk samningaviðræðum á milli EFTA-ríkjanna innan EES, Íslands, Noregs og Liechtenstein, við Bretland um áframhaldandi búseturéttindi borgara ef útgöngusamningur Bretlands og Evrópusambandsins hefði ekki verið samþykktur fyrir Brexit. Viðræðum um bráðabirgðafríverslunarsamning ef útganga hefði orðið án útgöngusamnings við ESB lauk svo í mars og í apríl voru svo samningarnir undirritaðir. Allt bendir raunar til að Bretland gangi úr ESB með samningi 31. janúar nk. en neðri málstofa breska þingsins samþykkti samning fyrir sitt leyti skömmu fyrir jól.

Viðskipti, málefni norðurslóða og öryggis- og varnarmál voru meðal umræðuefna á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem haldinn var í Hörpu 15. febrúar, en Pompeo var staddur hér á landi í vinnuheimsókn í boði Guðlaugs Þórs. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók einnig á móti Pompeo í Ráðherrabústaðnum í kurteisisheimsókn þar sem ráðherrarnir ræddu meðal annars loftslagsbreytingar, kjarnorkuafvopnun og Norðurskautsmál, auk þess sem þau ræddu tvíhliða samskipti landanna.

Guðlaugur Þór var svo undir lok febrúarmánaðar viðstaddur upphaf fertugustu fundarlotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf og flutti þar ræðu Íslands. Er þetta í þriðja skipti sem Guðlaugur Þór ávarpar mannréttindaráðið – fyrstur íslenskra utanríkisráðherra. Í ræðu sinni gagnrýndi hann meðal annars mannréttindabrjóta í mannréttindaráðinu.

Íslensk viðskiptanefnd heimsótti í febrúar Singapúr til að kynna íslensk sprotafyrirtæki og það sem þau hafa fram að færa.

Mars

Í mars leiddi Ísland svo hóp ríkja í gagnrýni á stöðu mannréttindamála í Sádi Arabíu í mannréttindaráðinu. Er það í fyrsta skipti sem Sádi Arabía sætir slíkri samstilltri gagnrýni í ráðinu, og markar frumkvæðið því tímamót. Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, flutti hið sameiginlega ávarp fyrir hönd 36 ríkja.

Þau ánægjulegu tíðindi urðu í mánuðinum að utanríkisráðuneytið hlaut jafnlaunavottun sem er staðfesting þess að jafnlaunakerfi ráðuneytisins samræmist kröfum jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra og Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri veittu viðtöku skírteini þessu til staðfestingar.

8. mars stóð sendiráð Íslands í Berlín svo fyrir jafnréttisdegi í tilefni af Alþjóðadegi kvenna. Dagurinn hófst með árlegri jafnréttisráðstefnu norrænu sendiráðanna, sem bar í ár yfirskriftina ,,Vertu breytingin: Virkjum karlmenn og drengi í jafnréttisbaráttunni.” Sama dag tóku Kristján Andri Stefánsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands gagnvart UNESCO og Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra þátt í að rétta af kynjaskekkjuna á Wikipedia í höfuðstöðvum UNESCO.

Apríl

Utanríkisráðherrar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins komu saman í aprílbyrjun til fundar í Washington DC í tilefni af 70 ára afmæli bandalagsins, en hinn 4. apríl 1949 var stofnsáttmáli Atlantshafsbandalagsins undirritaður af tólf stofnríkjum, Íslandi þar á meðal. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sótti fundinn.

Síðar í mánuðinum sótti utanríkisráðherra svo vorfundi Alþjóðabankans sem fram fóru í borginni. Hann lagði áherslu á fjölþjóðlegt samstarf, þar á meðal alþjóðaviðskipti, loftslagsmál, mannauð, mannréttinda- og jafnréttismál, í ávarpi sínu í þróunarnefnd Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðins. Þá lagði hann áherslu á gildi mannréttinda í þróunarsamstarfi í ávarpi sem hann flutti við stofnun nýs mannréttindasjóðs Alþjóðabankans.

Á síðasta degi aprílmánaðar flutti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra Alþingi skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál. Skýrslan gefur greinargott yfirlit yfir stöðu utanríkismála Íslands og helstu atburði á þeim vettvangi undanfarna tólf mánuði. 

Árni Þór Sigurðsson sendiherra afhenti í mánuðinum Þjóðskjalasafni Finnlands heildarútgáfu Íslendingasagnanna í sænskri þýðingu. Jussi Nuorteva þjóðskjalavörður veitti gjöfinni viðtöku.

Maí

Þann 7. maí tók Ísland við formennsku í Norðurskautsráðinu á fundi utanríkisráðherra ráðsins í Rovaniemi í Finnlandi og tók Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra við formennskukeflinu af Timo Soini, finnskum starfsbróður sínum. Ráðherrafundurinn markaði lok tveggja ára formennsku Finnlands í ráðinu. Á fundinum var farið yfir starf Norðurskautsráðsins undanfarin tvö ár og lagður grunnur að verkefnum næstu tveggja ára í formennskutíð Íslands.

Í Rovaniemi átti utanríkisráðherra svo fund með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands um  meðal annars tvíhliða samskipti, málefni norðurslóða og öryggismál í Evrópu.

Þá tók Guðlaugur Þór þátt í ráðstefnu um viðskipti á norðurslóðum sem haldin var í sendiráði Íslands í Washington seint í maí. Formennska Íslands í Norðurskautsráðinu og efnahagshvatar og fjárfestingar á norðurslóðum voru aðalefni ráðstefnunnar, sem bar yfirskriftina Doing Business in the Arctic. Um svipað leyti var sýning á verkum Ragnars Axelssonar – Rax – opnuð í sýningarrými sendiráðsins.

3. maí fékk utanríkisráðherra afhenta skýrslu norrænna alþjóðamálastofnana um framkvæmd tillagna Thorvalds Stoltenbergs um aukið samstarf Norðurlandanna í utanríkis- og öryggismálum. Skýrslan markar tíu ára afmæli Stoltenberg-tillagnanna svonefndu frá árinu 2009 um aukið samstarf Norðurlandanna á þessu sviði. Á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda sem fram fór í Stokkhólmi síðar á árinu var ákveðið að fela Birni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra, að skrifa nýja skýrslu þar sem gerðar verða tillögur um hvernig megi þróa samstarf Norðurlandanna enn frekar.

Í lok mánaðarins undirituðu Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Ni Yuefeng, tollamálaráðherra Kína, þrjár nýjar bókanir við fríverslunarsamning Íslands og Kína. Með bókununum opnast ný tækifæri fyrir útflutning á íslenskum framleiðsluafurðum til Kína. 

Framtíð Evrópuráðsins og staða mannréttindamála í Evrópu voru helstu umræðuefnin á ráðherrafundi ráðsins sem lauk í Helsinki í dag. Ráðið fagnar sjötíu ára afmæli og sótti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra athöfn í tilefni þess.

Júní

Öryggismál á Norður-Atlantshafi, fyrirhuguð verkefni Íslands í Kosovo, norrænt öryggismálasamstarf og fjölþátta ógnir voru aðalumræðuefnin á fundum Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins í Reykjavík þann 11. júní.

Fjórum dögum fyrr fór fram fyrsti fundur Íslands og Bandaríkjanna í reglulegu viðskiptasamráði sem komið var á fót á fundi utanríkisráðherra ríkjanna í Reykjavík í febrúar síðastliðinn. Sama dag fór einnig fram tvíhliða efnahagssamráð milli Íslands og Japans í Tókýó. Undir lok mánaðarins áttu fulltrúi embættis viðskiptafulltrúa Bandaríkjaforseta (e. United States Trade Representative) og sendinefnd skipuð íslenskum embættismönnum, undir forystu utanríkisráðuneytisins, fund um viðskipta- og efnahagsmál.

Þorri Íslendinga er jákvæður í garð alþjóðastofnana og þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi. Þetta er niðurstaða könnunar sem Maskína gerði fyrir utanríkisráðuneytið um viðhorf Íslendinga til alþjóðasamstarfs og greint var frá í mánuðinum. Íslendingar eru sérstaklega jákvæðir í garð norræns samstarfs. 

Sameinuðu þjóðirnar birtu í júnímánuði skýrslu íslenskra stjórnvalda um innleiðingu heimsmarkmiðanna. Skýrslan er hluti af landsrýni Íslands á stöðu innleiðingar heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Skýrslan var svo liður í kynningu forsætisráðherra á ráðherrafundi um heimsmarkmiðin hjá Sameinuðu þjóðunum í júlí.

Sendiherra Íslands í Svíþjóð, Estrid Brekkan, kynnti formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, á málþingi sem norrænu sendiráðin í Stokkhólmi ásamt fleirum skipulögðu í mánuðinum. Þar rakti hún áherslur sem Ísland hefur lagt þar, en eitt af aðaláherslum formennskunnar er hafið sem sjálfbær uppspretta velferðar og verðmæta.

Júlí

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti þann 11. júní tímamótaályktun sem Ísland hafði lagt fram í ráðinu um stöðu mannréttindamála á Filippseyjum. Með samþykkt ályktunarinnar lýsti mannréttindaráðið formlega yfir áhyggjum af ástandinu á Filippseyjum, hvatti stjórnvöld í landinu til að stöðva aftökur á fólki án dóms og laga og draga þá til ábyrgðar sem hafa staðið fyrir slíku.

Daginn eftir samþykkti mannréttindaráðið einum rómi ályktun Íslands og fleiri ríkja um jöfn laun til handa konum og körlum. Auk Íslands stóðu alls sjö ríki að ályktuninni: Ástralía, Kanada, Nýja Sjáland, Panama, Suður-Afríka, Sviss og Þýskaland. Hátt í sextíu ríki, að meðtöldum framangreindum ríkjum, skráðu sig hins vegar sem meðflytjendur að ályktuninni sem sýnir breiðan stuðning við málefnið.

15. júlí fór fram í London reglubundið tvíhliða samráð íslenskra og breskra stjórnvalda um alþjóða- og öryggismál. Meðal þess sem rætt var voru málefni norðurslóða, sér í lagi formennska Íslands í Norðurskautsráðinu, netöryggi, loftslagsmál og mannréttindi og hvernig megi enn frekar styrkja gott samstarf ríkjanna.

Ágúst

Fyrsta dag ágústmánaðar tóku gildi flutningar á forstöðumönnum sendiskrifstofa í utanríkisþjónustunni. Með breytingunum eru konur nú í meirihluta forstöðumanna í tvíhliða sendiráðum Íslands í fyrsta sinn. Vikurnar á eftir voru trúnaðarbréf afhent víða um heim, þar á meðal í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins, í norsku konungshöllinni, í Hvíta húsinu, höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna, hjá Þýskalandsforseta, og Fredensborgarhöll í Kaupmannahöfn.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Bergdís Ellertsdóttir sendiherra

Fleiri trúnaðarbréf voru afhent á árinu, eins og má lesa um í þessari frétt frá því í febrúar. Þá má jafnframt nefna aðalræðismannsskipti í Nuuk og afhendingu trúnaðarbréfa gagnvart Eþíópíu og Afríkusambandinu og Páfagarði.

September

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kom í heimsókn hingað til lands í september. Þeir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra leiddu hringborðsumræður um samstarf á sviði efnahags- og viðskiptamála og um vísinda- og menningarleg tengsl Íslands og Bandaríkjanna með forsvarsmönnum atvinnulífs beggja landa á fundi í Höfða. 

Dagana 11.-12. september fóru fram fundir utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Borgarnesi. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra bauð til fundanna þar sem Ísland gegnir nú formennsku í utanríkismálasamstarfi ríkjanna. Alþjóða- og öryggismál og málefni norðurslóða voru í brennidepli á fundi NB8-ríkjanna, ásamt loftslagsmálum.

Ísland var í hópi ríkja sem gagnrýndi ástand mannréttindamála í Sádí-Arabíu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í september. Fastafulltrúi Ástralíu flutti ávarpið að þessu sinni og tók þar við keflinu af fastafulltrúa Íslands sem flutti yfirlýsingu fyrir hönd hópsins fyrr á árinu. Sú yfirlýsing vakti athygli á heimsvísu enda var það í fyrsta sinn sem fjallað var um mannréttindi í Sádí-Arabíu með afgerandi hætti á vettvangi mannréttindaráðsins. Setu Íslands í mannréttindaráðinu sem kjörinn fulltrúi lýkur nú um áramótin.

Tveggja daga ráðstefnu utanríkisráðuneytisins fyrir kjörræðismenn Íslands á erlendri grundu fór fram í september. Markaðs- og kynningarstarf, menningarmál, jafnréttismál og borgaraþjónusta voru á meðal þess sem hæst bar á ráðstefnunni.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði áherslu á baráttuna gegn hlýnun jarðar, mannréttindi og endurbætur á alþjóðakerfinu í samræmi við grunngildi Sameinuðu þjóðanna í ræðu sem hann flutti á allsherjarþinginu í septemberlok. Utanríkisráðherra ræddi einnig óöldina í Sýrlandi og Jemen og skoraði á þau ríki sem ýta undir ófriðinn að beita sér frekar fyrir friði.

Guðlaugur Þór Þórðarson ávarpar 74. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna

Undir lok mánaðarins fór Guðlaugur Þór til fundar með þingmönnum öldunga- og fulltrúadeildar Bandaríkjaþings með það að markmiði að efla tengslin á sviði efnahags- og viðskiptamála og kynna stefnu Íslands í málefnum norðurslóða.

Yfir eitt þúsund vegabréfsáritanir voru gefnar út í sendiráði Íslands í Peking í fyrstu viku september en það er metfjöldi. Búist er við að í lok næsta árs verði útgáfa vegabréfsáritana til kínverskra ferðamanna á leið til Íslands alfarið í höndum íslenska sendiráðsins og miðlægrar áritanadeildar í utanríkisráðuneytinu. 

Október

Fyrsta dag októbermánaðar skilaði starfshópur skipaður af utanríkisráðherra skýrslu sinni um aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu.

Í október fór fram fundur Norðurskautsráðsins og Efnahagsráðs norðurslóða en þetta var í fyrsta sinn sem ráðin koma saman. Fundurinn er liður í þeirri stefnu að auka samstarf milli ráðanna tveggja en hann er sóttur af fulltrúum aðildarríkja Norðurskautsráðsins, vinnuhópa ráðsins, fastafulltrúum frumbyggjasamtaka á norðurslóðum og fulltrúum viðskiptalífs. Í nóvember ræddi Norðurskautsráðið svo um fólk og samfélög á fundi í Hveragerði.

17. október setti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra afmælishátíð í tilefni af því að tuttugu ár eru liðin frá formlegri opnun norrænu sendiráðsbygginganna í Berlín. Á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda og aðstoðarutanríkisráðherra Þýskalands bar hæst hernað Tyrklands í Sýrlandi og öryggis- og varnarsamstarf Evrópu og Bandaríkjanna. 

Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Þýskalands gróðursetja kirsuberjatréð. Frá vinstri: Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, og Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands.

Í októberbyrjun fór íslensk viðskiptasendinefnd í vikulanga ferð til fjarausturhéraða Rússlands. Ferðin þótti vel heppnuð og vonir um að hún skili enn fleiri viðskiptasamningum fyrir íslensku fyrirtækin við rússneska aðila.

Um svipað leyti tók Guðni Bragason, fastafulltrúi hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) í Vínarborg, við formennsku í sameiginlega samráðshópnum um samninginn um takmörkun hefðbundins herafla í Evrópu.

Okkar fólk í sendiráðinu í Tókýó hafði í nógu að snúast í lok mánaðarins þegar forsetahjónin komu þangað í heimsókn vegna krýningar nýs Japanskeisara. Yfir 100 erlendir þjóðhöfðingjar og 2500 gestir voru viðstaddir athöfnina. Heimsókn forseta að þessu sinni er fyrsta opinbera heimsókn íslensks forseta til Japans í 30 ár, eða frá því frú Vigdís Finnbogadóttir var viðstödd útför Showa keisarans árið 1989.

Nóvember

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, ræddu norðurslóðamál, tvíhliða samskipti og viðskipti á fundi sínum í Moskvu þann 26. nóvember. Þá voru öryggismál í Evrópu og alþjóðamál einnig til umræðu. Fyrr í mánuðinum tók Rússnesk-íslenska viðskiptaráðið formlega til starfa. Stofnfélagar eru rúmlega fjörutíu fyrirtæki sem starfa m.a. innan sjávarútvegs og sjávarútvegstækni, matvælaframleiðslu, nýsköpunar og ferðaþjónustu.

Guðlaugur Þór og Sergei Lavrov á fundi þeirra í Moskvu í dag

Ástandið í Sýrlandi, afvopnunarmál og framlög til varnar- og öryggismála voru meðal umræðuefna á fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í höfuðstöðvunum í Brussel síðla nóvembermánaðar. Guðlaugur Þór sótti fundinn fyrir Íslands hönd. Þar ræddu ráðherrarnir meðal annars þann árangur sem náðst hefur á undanförnum misserum við að tryggja fælingar- og varnarmátt bandalagsins, efla viðnám gegn fjölþátta ógnum og netárásum, sem og baráttuna gegn hryðjuverkum.

Ályktun um alþjóðlegan jafnlaunadag, sem Ísland var í forystu fyrir, var samþykkt einróma í mannréttindanefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York þann 15. nóvember. Auk Íslands stóðu sjö ríki að ályktuninni, Ástralía, Kanada, Nýja Sjáland, Panama, Suður-Afríka, Sviss og Þýskaland. Um hundrað ríki til viðbótar voru meðflytjendur að ályktuninni sem sýnir mjög breiðan stuðning við málefnið.

Jafnrétti til útflutnings var yfirskrift ráðstefnu sem utanríkisráðuneytið stóð fyrir í samvinnu við Uppbyggingarsjóð EES, Portúgal og Noreg, um mánaðarmót október og nóvember. Um 120 manns frá 20 ríkjum tóku þátt í ráðstefnunni og fimm hundruð fylgdust með streymi frá ráðstefnunni. Markmiðið var að kynna íslenska sérþekkingu á sviði jafnréttismála sem nýst getur í þágu íbúa og samfélaga í þeim fimmtán ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins(EES) sem njóta styrkja úr Uppbyggingarsjóði EES.

Að frumkvæði Íslands, sem gegnir nú formennsku í EES/EFTA samstarfinu, var haldið málþing í Brussel um tveggja stoða kerfi EES-samningsins þann 15. nóvember. Tilefnið var meðal annars 25 ára afmæli samningsins. Málþingið veitti innsýn í hvernig tekið hefur verið á tveggja stoða málefnum frá gildistöku samningsins þann 1. janúar 1994.

Desember

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Audrey Azoulay, aðalframkvæmdastjóri Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna UNESCO, undirrituðu um miðjan desember samkomulag um að Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu starfi undir merkjum UNESCO sem sjálfstæð stofnun. Í miðstöðinni koma saman fjórir skólar sem starfræktir hafa verið á Íslandi.

Þeir Guðlaugur Þór og Jenis av Rana, utanríkisráðherra Færeyja, ræddu framtíð Hoyvíkursamningsins, fríverslunarsamnings Íslands og Færeyja, á fundi sínum 12. desember. Samningurinn hefði fallið úr gildi um áramótin í kjölfar uppsagnar Færeyinga en færeyska lögþingið samþykkti 27. desember að falla frá því.

Lina al-Hathloul, baráttukona fyrir mannréttindum í Sádí-Arabíu, var aðalræðumaður á málþingi sem haldið var í tilefni af alþjóðlega mannréttindadeginum, sem haldinn er hátíðlegur 10. desember ár hvert. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti opnunarávarp og sérfræðingar tóku þátt pallborðsumræðum um hlutverk smærri ríkja í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og baráttunni fyrir mannréttindum á heimsvísu. Utanríkisráðuneytið stóð fyrir málþinginu í samstarfi við Alþjóðamálastofnun og Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira