Hoppa yfir valmynd

Áróður og lýðræði

Tengiliðahópur Þjóðaröryggisráðs um rýni á mögulegri miðlun erlendra ríkja eða aðila þeim tengdum á „fölskum fréttum“, áróðri, lygum og undirróðri hér á landi sem miðar að því að grafa undan samfélagslegu trausti og lýðræðislegum gildum.

Greinargerð

Þjóðaröryggisráð hefur bent á að ógnir og aðrar áskoranir í öryggismálum eru síbreytilegar og flóknari en áður.

Í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland er m.a. lögð áhersla á að tryggja lýðræðislegt stjórnarfar og á virðingu fyrir lýðræðislegum gildum og mannréttindum.

Staða öryggismála og alþjóðasamskipti eru gjörbreytt í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu í febrúar 2022. Spenna í samskiptum NATO - ríkja og Rússlands fer vaxandi. Rússar hafa sett Ísland á lista óvinveittra ríkja.

Lýðræði og mannréttindum er sífellt ögrað um allan heim með margvíslegum aðferðum, sem sérstaklega er ætlað að skapa glundroða og óstöðugleika í samfélögum ásamt því að grafa undan trausti og lýðræðislegum ferlum.

Markmið upplýsingaóreiðu sem stafar frá erlendum ríkjum er að dreifa röngum eða villandi upplýsingum og áróðri í þeim tilgangi að draga úr áfallaþoli samfélagsins og lýðræðislegum styrk með því að ýta undir vantraust á stjórnvöld og stofnanir, hafa áhrif á úrslit kosninga og draga úr trausti almennings á stjórnkerfi, samfélagsgerðina og lýðræði.

Íslenskt ítarefni

  • Fjölmiðlar og traust - Skýrsla Fjölmiðlanefndar 2025
    Í skýrslunni kemur fram að 71% svarenda urðu vör við falsfréttir á netinu á síðustu 12 mánuðum og jókst hlutfallið um 12,3% samanborið við 2022. Á sama tíma hækkaði hlutfall þeirra sem brugðust við falsfréttum eða röngum upplýsingum á netinu með því að kanna aðrar heimildir, slá efni þeirra upp í leitarvél o.s.frv.

  • Falsfréttir og upplýsingaóreiða í aðdraganda alþingiskosninga 2024 - Skýrsla Fjölmiðlanefndar 2025
    Í skýrslunni kemur fram að meira en helmingur þátttakenda, eða 62,1%, sagðist hafa orðið var við það að falsfréttum eða röngum upplýsingum hafi verið beitt til að hafa áhrif á niðurstöður alþingiskosninga á Íslandi 2024 sem er fjölgun frá árinu 2021 þegar hlutfallið mældist 46,6%.

  • Fjölþáttaógnir – skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra (2023)
    Hinar umfangsmiklu breytingar í öryggis- og varnarmálum Evrópu sem orðið  hafa gera að verkum að GRD telur nauðsynlegt að meta og greina stöðu mála varðandi fjölþáttaógnir upp á nýtt. Í ljósi ofangreindrar þróunar og vegna ábendinga um mikilvægi þess að skilgreina hugtakið fjölþáttaógnir og skapa sameiginlegan skilning á eðli og pólitískum áhrifum helstu fjölþáttaógna hefur greiningardeild ríkislögreglustjóra ritað hættumat ásamt ítarlegri umfjöllun um hugtakið og eðli fjölþáttaógna

  • Skýrsla um mat þjóðaröryggisráðs á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum (2022)
    ,,Virðing fyrir mannréttindum er óaðskiljanlegur þáttur þess að styrkja áfallaþol samfélagsins á grundvelli lýðræðislegra gilda. Þótt styrkur lýðræðisríkja felist m.a. í tjáningarfrelsi og opinni upplýstri samfélagsumræðu og vernd mannréttinda er kerfisbundin miðlun rangra og villandi upplýsinga og ólögmæt notkun persónuupplýsinga í því skyni talin vaxandi ógn. Upplýsingaóreiða er vissulega ekkert nýtt fyrirbæri, en hraðar tæknibreytingar hafa gert það að verkum að erfiðara hefur reynst að sporna við henni.”

  • Samantekt frá ráðstefnu þjóðaröryggiráðs um fjölþáttaógnir (2020)
    Lýðræði og mannréttindum er sífellt ögrað um allan heim með fjölda samhæfðra aðferða sem sérstaklega er ætlað að skapa glundroða og óstöðugleika í samfélögum ásamt því að grafa undan trausti og lýðræðislegum ferlum. Fyrir utan að gera skilin á milli stríðs og friðar óskýrari geta þessar aðferðir falið í sér afskipti af kosningum, netárásir, hagnýtingu veikleika í nauðsynlegum innviðum og þrýsting í tengslum við efnahagslíf og viðskipti.

  • Skýrsla um mat þjóðaröryggisráðs á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum (2021)
    ,,Ein aðgerð fjölþáttaógna er undirróður og getur hann verið af ýmsum toga og falist m.a. í því að sníða rangar eða villandi upplýsingar að tilteknum einstaklingum eða hópum í því skyni að hafa bein áhrif á almenningsálit, skoðanir og hegðun ákveðinna hópa. Miðlunin er um netið með meiri hraða og nákvæmni en áður hefur þekkst með ólögmætri hagnýtingu persónuupplýsinga og reiknirita (e. algorithm).
    Erfitt getur verið að bera kennsl á undirróðursherferðir og jafnframt að sanna hverjir standa þeim að baki, en undirróður af þessu tagi er vaxandi ógn við lýðræði og mannréttindi.”

Erlent ítarefni

Síðast uppfært: 1.8.2025 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta