Hoppa yfir valmynd

Fjármögnun

Fjármögnun - skýringarmynd

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er að stuðla að uppbyggingu og  vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

Tækniþróunarsjóður

Hlutverk Tækniþróunarsjóðs er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Fjármögnun og ábyrgð sjóðsins er í höndum Atvinnu-og nýsköpunarráðuneytisins en umsýsla sjóðsins er í höndum Rannsóknamiðstöðvar Íslands (Rannís) við ráðuneytið.

Matvælasjóður

Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Áhersla er á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu um land allt. Sjóðnum er einnig heimilt að styðja við vöruþróun og markaðssókn á erlendum mörkuðum. Sjóðurinn fylgir eftir heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í þessum tilgangi styrkir sjóðurinn verkefni og rannsóknir einstaklinga og lögaðila.

Markmið sjóðsins er að ná til verkefna á öllum stigum, allt frá hugmyndum til markaðssetningar og hagnýtra rannsókna. Ráðstöfunarfé Matvælasjóðs samanstendur af fjárveitingu af fjárlögum hverju sinni og öðrum tekjum eftir því sem þeim er til að dreifa.

Orkusjóður

Orkusjóður hefur það hlutverk að stuðlaað hagkvæmri nýtingu orkulinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða er miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Orkusjóður er samkeppnissjóður. Styrkumsóknir eru metnar út frá hlutverki og tilgangi sjóðsins og þeim áhersluatriðum sem fram koma í auglýsingum um styrki hverju sinni.

Byggðastofnun

Byggðastofnun veitir langtímalán til fjárfestinga, hagræðingar og fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja á starfssvæði stofnunarinnar. Lánastarfsemi Byggðastofnunar er valkostur í fjármögnun sem stuðlar að hagstæðum lánskjörum og lánsframboði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í landsbyggðunum. Sérstök athygli er vakin á lánaflokki til stuðnings atvinnurekstri kvenna á  landsbyggðunum og lánum til jarðakaupa/kynslóðaskipta í landbúnaði í því skyni að styðja við nýliðun, nýsköpun og framþróun í greininni.

Svanni

Svanni Lánatryggingasjóður kvenna. Meginmarkmið sjóðsins er að styðja konur til nýsköpunar í atvinnulífi með því að veita ábyrgðir á allt að helming lána sem tekin eru lánastofnun til að fjármagna tiltekið verkefni.

Sprotasjóður

Sprotasjóður er sameiginlegur sjóður fyrir leik-, grunn-og framhaldsskóla og styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá.

Atvinnumál kvenna

Sjóðurinn Atvinnumál kvenna veitir styrki til atvinnuþróunarverkefna kvenna víðsvegar um landið. Styrkirnir eru veittir af Félagsmálaráðuneytinu en það er Vinnumálastofnun sem að hefur vistað verkefnið hin síðustu ár.

Umhverfissjóður sjókvíaeldis

Umhverfissjóður sjókvíaeldis starfar samkvæmt lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, og er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.  Árið 2021 munu njóta forgangs rannsóknarverkefni á laxalús, kynlausum eldisfiskum (genaþöggun) og orkuskiptum í sjókvíaeldi. Sjóðurinn styrkir einnig verkefni á sviði burðarþolsmats og vöktunar. 

Uppbyggingasjóðir landshlutanna

Uppbyggingasjóðir landshlutanna eru hluti sóknaráætlana landshluta sem eru þróunaráætlanir og fela í sér stöðumat, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Forgangsröðun verkefna í hverjum landshluta byggir á sóknaráætlun hans. Þannig er fjármunum sem varið er til verkefna á sviði atvinnu-, byggða- og menningarmála ráðstafað af heimamönnum samkvæmt áherslum sem mótaðar hafa verið af breiðum hópi þeirra. Sóknaráætlunum er ætlað að stuðla að jákvæðri samfélagsþróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni hvers landshluta sem og landsins alls. Samkvæmt gildandi samningum um sóknaráætlanir landshluta renna framlög ríkisins annars vegar til uppbyggingar sjóða og hins vegar til áhersluverkefna. Ábyrgð og utanumhald uppbyggingasjóðanna er í höndum átta landshlutasamtaka sveitarfélaga.

Styrkir til gæða- og nýsköpunarverkefna í heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðisráðuneytið auglýsir árlega eftir umsóknum um styrki til gæða- og nýsköpunarverkefna í heilbrigðisþjónustu. Tilgangur styrkveitinganna er að stuðla að umbótastarfi, nýbreytni og auknum gæðum heilbrigðisþjónustu og jafnframt eru þeir ætlaðir sem hvatning og viðurkenning fyrir störf á þessu sviði.

Sjá einnig upplýsingasíðu um stuðning við vísinda- og tæknirannsóknir hér á vefnum

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 17.2.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum