Hoppa yfir valmynd

Landskjörstjórn

kosningalög nr. 112/2021 tóku gildi 1. janúar 2022 og féllu þá úr gildi eldri lög um kosningar. Með gildistöku laganna var Landskjörstjórn sett á fót sem sjálfstæð stjórnsýslunefnd til þess að hafa yfirumsjón með framkvæmd kosninga og til að annast framkvæmd kosningalaga. Landskjörstjórn heyrir stjórnarfarslega undir ráðherra sem fer með málefni kosninga. 

Vefur Landskjörstjórnar er landskjorstjorn.is

 

[Ath. textinn hér að neðan kann að vera úreltur eftir setningu nýrra kosningalaga]

Landskjörstjórn er kosin af Alþingi eftir hverjar almennar alþingiskosningar og í henni sitja fimm menn og jafnmargir til vara. Landskjörstjórn var síðast kosin af Alþingi 8. febrúar 2018. Landskjörstjórn velur sér sjálf oddvita og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Nú fær framboð sem á fulltrúa á Alþingi ekki kjörinn fulltrúa í landskjörstjórn og skal því þá heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu í henni. Áheyrnarfulltrúi hefur sama rétt og kjörinn fulltrúi annan en atkvæðisrétt.

Það er borgaraleg skylda að taka sæti í kjörstjórn. Nú forfallast landskjörstjórnarmaður og varamaður er ekki tiltækur, og skipar ráðherra menn í þeirra stað eftir tillögu þeirra samtaka sem kusu þá á Alþingi. Sá sem sæti á í kjörstjórn skal víkja sæti ef hann er í kjöri til Alþingis.Landskjörstjórn skal eins og aðrar kjörstjórnir halda gerðabók og bóka gerðir sínar. 

Mörk kjördæma í Reykjavík

Kjördæmi eru samkvæmt kosningalögum sex talsins og ræðst afmörkun þeirra af mörkum einstakra sveitarfélaga. Reykjavíkurborg er þó skipt í tvö kjördæmi en ekki er lögfest hvar mörkin milli þeirra liggja. Þess í stað er landskjörstjórn falið að ákveða þessi mörk miðað við íbúaskrá þjóðskrár fimm vikum fyrir kjördag. Landskjörstjórn ber þá að miða við að kjósendur að baki hverju þingsæti í hvoru kjördæmi séu nokkurn veginn jafnmargir auk þess sem gæta skal þess, eftir því sem kostur er, að kjördæmin séu hvort um sig sem samfelldust heild. Landskjörstjórn auglýsir síðan mörk kjördæmanna í Stjórnartíðindum jafnskjótt og þau liggja fyrir og eigi síðar en fjórum vikum fyrir kjördag. 

Landskjörstjórn ákveður í hvoru Reykjavíkurkjördæminu kjósendur sem búsettir eru erlendis, sem taka ber á kjörskrá í Reykjavík, greiði atkvæði. Sama gildir um þá sem skráðir eru með ótilgreint lögheimili í Reykjavík.

Framboð

Framboðslista ber að afhenda yfirkjörstjórn í hverju kjördæmi sem metur hvort gallar séu á honum og eftir atvikum hvort ógilda beri listann. Ákvörðun yfirkjörstjórnar má umboðsmaður framboðslista skjóta til landskjörstjórnar sem fer með endanlegt úrskurðarvald um gildi framboðslista áður en kosning fer fram.

Yfirkjörstjórnir merkja framboðslista með listabókstöfum sem dómsmálaráðuneytið hefur auglýst. Þegar því er lokið sendir hún listana til landskjörstjórnar ásamt öllum gögnum sem þeim fylgdu. Landskjörstjórn tekur listana til meðferðar og ef þörf krefur úrskurðar hún hverjum stjórnmálasamtökum skuli telja þá framboðslista sem í kjöri verða. Þá skal landskjörstjórn gæta þess að allir listar sem eiga saman séu merktir sama bókstaf í öllum kjördæmum. Að þessari athugun lokinni kunngerir landskjörstjórn framboðslistana með auglýsingu í Lögbirtingablaði eigi síðar en 10 dögum fyrir kjördag. Landskjörstjórn endursendir síðan yfirkjörstjórnum listana ásamt greinargerð um afgreiðslu sína auk þess sem hún sendir dómsmálaráðuneytinu listana eins og þeir eru birtir.

Kosningaúrslit - úthlutun þingsæta

Yfirkjörstjórnir hafa almennt umsjón með talningu atkvæða, bæði kjörfundar- og utankjörfundaratkvæða. Að talningu lokinni senda þær landskjörstjórn skýrslu um atkvæðatölur á eyðublöð sem landskjörstjórn hefur látið þeim í té. Þegar skýrslurnar hafa borist kemur landskjörstjórn saman til að úthluta þingsætum. Auglýsir hún með hæfilegum fyrirvara hvar og hvenær hún kemur saman í þessu skyni þannig að umboðsmönnum stjórnmálasamtaka, sem boðið hafa fram, gefist kostur á að vera þar viðstaddir. Úthlutun kjördæmissæta á framboðslista fer fram samkvæmt reikniaðferð sem lýst er í 107. gr. kosningalaga. Þá fer úthlutun jöfnunarsæta á stjórnmálasamtök og framboðslista eftir reikniaðferð samkvæmt 108. gr. laganna. Því næst er fundin út atkvæðatala frambjóðenda á framboðslistunum í samræmi við 110. gr. laganna og á grundvelli hennar er skorið úr um sætaskipan frambjóðanda á hverjum lista. Landskjörstjórn lætur hinum kjörnu þingmönnum og jafnmörgum varaþingmönnum kjörbréf í té í samræmi við niðurstöðu sína um úthlutun þingsæta og tilkynnir dómsmálaráðuneytinu um úrslit kosninganna ásamt því sem hún sendir nöfn hinna kjörnu þingmanna til birtingar í Stjórnartíðindum.

Komi upp ágreiningur milli landskjörstjórnar og umboðsmanna stjórnmálasamtaka um felldan úrskurð eiga umboðsmenn rétt á að fá bókaðan ágreining sinn í gerðabók landskjörstjórnar. Hún sendir dómsmálaráðuneytinu eftirrit af gerðabók sinni um úthlutun þingsæta, svo og skýrslur þær og skilríki frá yfirkjörstjórnum sem ágreiningur kann að vera um. Alþingi á síðan endanlegt úrskurðarvald um gildi kosninganna.

Skipan landskjörstjórnar

Aðalmenn

  • Kristín Edwald formaður
  • Ólafía Ingólfsdóttir
  • Hulda Katrín Stefánsdóttir
  • Magnús Karel Hannesson
  • Ebba Schram

Varamenn

  • Iðunn Garðarsdóttir
  • Helgi Bergmann
  • Ágúst Sigurður Óskarsson
  • Elín Ósk Helgadóttir
  • Arnar Kristinsson

Framkvæmdastjóri Landskjörstjórnar er Ástríður Jóhannesdóttir.

Síðast uppfært: 17.2.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum