Hoppa yfir valmynd

Úthlutun ársins 2006

Eldgos í Öræfajökli 1362

Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, kr. 500.000,-

Mesta sprengigos sem átt hefur sér stað á sögulegum tíma á Íslandi er Öræfajökulsgosið 1362. Þetta gos er af þeirri gerð sem nefnast „Plínísk” gos sem að jafnaði eru öflugustu og skaðlegustu eldgos jarðar. Þeim fylgir ekki aðeins gjóskufall sem þekur tugþúsundir ferkílómetra heldur mynda þau líka gjósku- og gusthlaup sem flæða með ógnarhraða frá eldfjallinu og geta orðið allt að 10-100 kílómetra löng. Sem dæmi um gos af þessari gerð má nefna gosið í Vesúvíusi 79 e.kr.

Heimildir um eldgosið 1362 eru af skornum skammti. Eina samtímaheimildin er annálsbrot sem kennt er við Skálholt. Það er skrifað á Norðurlandi og í því segir orðrétt: „Eldar uppi í þrem stöðum fyrir sunnan og hélst það frá fardögum til hausts með svo miklum býsnum, að eyddi allt Litlahérað og mikið af Hornafirði og Lónshverfi, svo að eyddi 5 þingmannaleiðir. Hér með hljóp Knappafellsjökull fram í sjó, þar sem áður var þrítugt djúp, með grjótfalli, aur og saur, að þar urðu síðan sléttir sandar. Tók og af tvær kirkjusóknir með öllu, að Hofi og Rauðalæk. Sandurinn tók í miðjan legg á sléttu, en rak saman i skafla, svo að varla sá húsin.” Öskufall bar norður um land svo að sporrækt var. Það fylgdi þessu, að vikurinn sást reka í hrönnum fyrir Vestfjörðum að varla máttu skip ganga fyrir.

Rannsóknir munu beinast að því að skilja hvernig eldgosið 1362 gekk fyrir sig. Nauðsynlegt er því að fara vel í gegnum lagsyrpur sem að hafa myndast i eldgosinu til þess að átta sig á framgangi gossins. Sigurður heitinn Þórarinsson og Kvískerjabræður hafa unnið mikið afrek í að staðsetja og skrá útbreiðslu gosefna. Sú vinna mun nýtast vel við þessar rannsóknir.

 

Landslag og jöklar í nágrenni Kvískerja við landnám

Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, kr. 700.000,-

Einn aðal mótunarvaldur umhverfis Kvískerja frá því byggð hófst er jökullinn. Stór landsvæði sem nú eru undir jökli voru áður blómleg byggð. Ljóst er að jöklar sem nú ná niður á láglendi stóðu mun ofar við landnám. Í kringum 1400 byrjuðu þeir að skríða fram og brjóta undir sig byggðina á Breiðumörk. Í lok 19. aldar þegar Kvísker stóðu ein eftir byrjuðu jöklar að hörfa og hafa þeir gert það síðan.

Það landsvæði sem Breiðamerkurjökull braut á þessum tíma undir sig er nú í stórum dráttum þekkt (Helgi Björnsson, grein í Kvískerjabók). Hins vegar er landið undir Fjallsjökli, Hrútárjökli og Kvíárjökli, þeim jöklum sem næstir eru Kvískerjum, ókannað. Með því að mæla þykkt og hæð þessara jökla yrði hulunni svift af því landi sem nú hefur verið þakið jökli öldum saman.

Um er að ræða sambærilegt verk og unnið var við Hoffellsjökul og birt var í bókinni Jöklaveröld sem kom út árið 2004. Öflun gagna um botn og yfirborð jökulsins yrði síðar grundvöllur að frekari rannsóknum á landslagi og jöklabreytingum frá landnámstíð til vorra daga og mun auk þess nýtast við mat á jöklabreytingum að gefnum spám um líklegar loftslagsbreytingar á næstu áratugum. Niðurstöður þessarar rannsóknar yrðu birtar í Skaftfellingi og Jökli, tímariti Jöklarannsóknafélags Íslands og Jarðfræðafélags Íslands. Auk þess væru þær tilvaldar til sýningar á Jöklasafninu á Höfn. Að lokum skal þess getið að jökullinn hefur alla tíð verið eitt af mörgum hugðarefnum Kvískerjabræðra og er það vilji okkar að mælingar verði skipulagðar og unnar í samráði við þá.

Fjöldi tófugrenja og útbreiðsla tófu í Öræfum

Skaftafellsþjóðgarður, kr. 250.000,-

Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna fjölda tófugrenja í Skaftafelli og hugsanlega útbreiðslu tófunnar til annarra svæða í Öræfum. Hugmyndin er að merkja yrðlinga á grenjum til þess að hægt sé að fylgjast með ferðum þeirra og hvort verið er að veiða þá annars staðar í sveitinni. Öll meðferð skotvopna er bönnuð í þjóðgarðinum og því hafa tófur ekki verið skotnar í þjóðgarðslandinu í áratugi. Af þeim sökum hefur Þjóðgarðurinn legið undir ámæli fyrir að vera útungunarstöð fyrir tófur. Rannsókn þessi gæti varpað ljósi á staðreyndir málsins og nýst sem grunnupplýsingar í enn ítarlegri rannsóknum.

Úttekt á jarðminjum í Skaftafellsþjóðgarði

Skaftafellsþjóðgarður, kr. 500.000,-

Unnið er að gerð verndaráætlunar fyrir Skaftafellsþjóðgarð. Aldrei hefur verið gerð úttekt á jarðminjum í þjóðgarðinum með tilliti til verndargildis þeirra. Til að geta lagt mat á verndargildi jarðminja á svæðinu, þurfa vissar grunnupplýsingar að vera til staðar. Nauðsynlegt er að taka saman yfirlit um jarðminjar í þjóðgarðinum, kortleggja þær og lýsa þeim með tilliti til verndunar. Mikilvægt er að skilgreina hversu fágætar jarðminjar í þjóðgarðinum eru, hvaða sjónrænt gildi þær hafa, hvort þær veita okkur upplýsingar um loftslagsbreytingar eða hafa menningarlegt gildi og hvort þær hafa vísinda- og rannsóknagildi. Auk þess er nauðsynlegt að skilgreina hvaða hættur steðja að jarðminjum í þjóðgarðinum, hvort heldur er vegna rofs eða af mannavöldum.

Jökulhlaup af völdum eldgosa í Öræfajökli

Veðurstofa Íslands, kr. 390.000,-

Tilgangur þessa verkefnis er að útvíkka rannsóknir Sigurðar Björnssonar á upptökum, rennslisleiðum og landfræðilegum áhrifum jökulhlaupa úr Öræfajökli 1362 og 1727. Með því að nota loftmyndir sem þegar eru til af svæðinu, munum við útbúa röð stafrænna korta, með hárri upplausn, sem sýna útbreiðslu setlaga og önnur flóðtengd fyrirbæri frá þessum hlaupum. Sömu loftmyndir verða notaðar til að útbúa stafrænt hæðarlíkan af austanverðum Skeiðarársandi, og verður það sameinað kortlagningarniðurstöðunum. Þetta sameinaða gagnasafn mun gera okkur kleift að reikna rennslishraða og rúmmál beggja jökulhlaupa. Verkefnið mun veita nýja innsýn í rennslisleiðir og stærðir sögulegra jökulhlaupa úr Öræfajökli og verða þar með fyrsta skrefið til að nálgast hættumat fyrir Öræfasveit af völdum jökulhlaupa. Vísindalegar niðurstöður verkefnisins verða birtar sem skýrsla Veðurstofunnar og ritrýnd grein í vísindatímariti. Ennfremur verður útbúið kynningarveggspjald um niðurstöður verkefnisins fyrir þjóðgarðinn í Skaftafelli og Jöklasafnið á Höfn í Hornafirði.

Rannsóknaholur v. fornleifa í Öræfum

Fornleifafélag Öræfa, kr. 216.000,-

Fornleifafélag Öræfa hefur staðið fyrir umfangsmiklum rannsóknum á Bæ við Salthöfða í Öræfum. Árið 2004 fékk félagið styrk frá Kvískerjasjóði til rannsókna á Bæ. Rannsóknin hefur vakið mikla athygli og mun hugsandi varpa nýju ljósi á eyðingu Litla-Hélaðs árið 1362. Fornleifafræðingar með hjálp heimamanna hafa grafið upp heilstæðan bæ frá 14 öld. Mun þetta vera annar bær frá 14 öld sem finnst á Íslandi. Verkið er ekki fullklárað, en verður vonandi lokið á þessu ári. Sjá rannsóknarskýrslu 2005, Bjarna F. Einarssonar, fornleifafræðings.

Þekkingarbrunnur fortíðar – þekkingargrunnur framtíðar

Háskólasetur á Hornafirði, kr. 670.000,-

„Rannsóknir bændanna á Kvískerjum, ritverk og frásagnir eru merkar heimildir um frumsköpun vísinda og þekkingar, dæmasafn um kraftbirtingu íslenskrar menningar eins og hún gerist best.” (Ólafur Ragnar Grímsson).

Kvískerjabræður eru landskunnir fyrir fræðastörf sín og athuganir á ýmsum sviðum náttúrufræði. Í gegnum tíðina hafa þeir lagt sig fram um að afla þekkingar á dýralífi, gróðurfari, landmótun, jarðfræði og búsetu í Austur-Skaftafellssýslu með því að fylgjast með og skrá niður breytingar á náttúrufari, og hvernig þær breytingar hafa haft áhrif á menningu og mannlíf, byggð og búsetu. Þeir hafa auk þess aflað þekkingar og fróðleiks með viðtölum við sér eldra fólk og úrvinnslu heimilda á borð við annála og fornbókmenntir.

Störf þessara sjálfmenntuðu bræðra eru ómetanleg og bera glöggt vitni um óbilandi áhuga íslenskra alþýðumanna á umhverfi sínu. Það er mikilvægt að þeirra verðmæti þekkingarbrunnur varðveitist og verði gerður aðgengilegur komandi kynslóðum.

Markmið
Meginmarkmið þessa verkefnis er að taka saman og skrásetja á skipulegan hátt fræðastarf Kvískerjabræðra á liðinni öld og gera það aðgengilegt þannig að rannsóknamenn framtíðarinnar geti byggt ofan á þann grunn þekkingar sem Kvískerjabræður hafa byggt upp.
Þetta verður gert með því í fyrsta lagi að safna saman á einn stað upplýsingum um þær rannsóknir sem Kvískerjabræður hafa unnið að. Í öðru lagi með því að að taka viðtöl við þá bræður. Og í þriðja lagi með því að greina og flokka rannsóknir þeirra.

Síðast uppfært: 2.6.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum