Hoppa yfir valmynd

Úthlutun ársins 2015

Minnismerki um strönduð skip meðfram Suð-austurströndinni

Ólafía Herborg Jóhannsdóttir f.h. óstofnaðs einkahlutafélags afkomenda Valdórs Bóassonar hlýtur styrk að upphæð 500.000 kr.

Markmiðið með verkefninu er að gera minnismerki um strönduð skip á Suð-austurströndinni og minnismerki um þessa atburði.Ætlunin er að þarna verði sett upp stórt skilti með korti og gerður áningarstaður sem ferðamenn geta numið staðar og skoðað kortið og lesið sér til um söguna bak við þessi strönd og fleiri upplýsingar um þetta svæði.
Myndi þarna verða skemmtilegur áningarstaður fyrir alla fjölskylduna.

Gamla smiðjan á Sléttaleiti

Vala Garðarsdóttir, forstöðumaður Hornafjarðarsafna, hlýtur styrk að upphæð 300.000 kr.
Gamla smiðjan á Sléttaleiti stendur enn að mestu. Talið er að hún hafi verið reist í þeirri mynd sem hún er í dag um og eftir miðbik 19. aldar. Líklegt þykir að ábúandinn þar, Sigurður Ingimundarson fæddur 1829 hafi reist smiðjuna á eldri smiðju. Þó eru engar sannanir fyrir því þó líklegt þyki.
Markmiðið er að byggja smiðjuna upp í upprunalegri mynd. Heillegar smiðjur sem þessi eru vandfundnar á landinu og því mikilvægt að varðveita mannvirkið í sögulegu samhengi og ekki síst að varðveita byggingararfinn sem þarna er og var.

Uppgræðsla með staðargróðri á Skaftafellsheiði í Öræfum

Járngerður Grétarsdóttir og Ragnar Frank Kristjánsson hljóta styrk að upphæð 300.000 kr.
Markmið verkefnisins er að prófa aðferðir við endurheimt staðargróðurs í nágrenni gönguleiðar á Skaftafellsheiði í Vatnajökulsþjóðgarði. Á gönguleið að Kristínartindum á Skaftafellsheiði hefur traðk valdið miklum gróðurskemmdum sem eru mjög áberandi í landslaginu. Á svæðinu er mikil umferð gangandi ferðamanna á hverju ári og stígur sem eitt sinn myndaðist hefur breikkað óhóflega, og er mesta breidd stígsins orðin um 14 metrar. Ávinningur af verkefninu yrði aukin þekking á því hvaða aðferðir séu mögulegar við endurheimt staðargróðurs á svæðinu. Þannig myndu niðurstöður verkefnisins nýtast þjóðgarðsyfirvöldum og hugsanlega öðrum aðilum sem áhuga hafa á aðferðafræði við uppgræðslu með staðargróðri.

Búskaparhættir Nesjamanna fyrr og nú

Gunnar Stígur Reynisson f.h. Hornafjarðarsafna hlýtur styrk að upphæð 550.000 kr.
Á aðalfundi Búnaðarfélagsins Aftureldingar í Nesjum fyrir rétt um tveimur árum kom fram tillaga um að minnast 100 ára afmælis félagsins með eftirminnilegum hætti. Var sú tillaga lögð fram á fundinum að gera heimildarmynd um horfna búskaparhætti og vinnubrögð til sveita í Nesjum um og eftir miðja síðustu öld. Markmiðið er að minnast þess verklags sem við var haldið ekki fyrir svo löngu síðan og náðst hefur á filmur og ljósmyndir en samhliða því að skoða þær gífurlegu breytingar sem orðið hafa í verkmenningu til sveita á svo stuttum tíma sem raun ber vitni.
Rafn Eiríksson fyrrum skólastjóri Nesjaskóla og sagnaritari gerði heimildarmynd fyrir um 40 árum síðan sem snéri að búskaparháttum í sveitinni og verður leitast við að notast við þær upptökur ásamt því að tekið verður upp nýtt efni því til samanburðar.
Stefnt er að því að taka viðtöl við bændur sem enn eru í búskap síðan Rafn tók upp sína mynd og verða þær breytingar sem orðið hafa á þeim árum skeggræddar út frá þeirra sjónarhóli.

Tengsl einstaklinga við náttúruna

Hugrún Harpa Reynisdóttir hlýtur styrk að upphæð 200.000 kr.
Verkefnið er lokaverkefni til meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.
Náttúrutengsl einstaklinga, það er tengsl fólks við það umhverfi og þá náttúru sem það býr í nánd við er megin viðfangsefni rannsóknarinnar. Áhersla er á að öðlast skilning á upplifun einstaklinga á tengslum sínum, mótun þeirra og mögulegum áhrifum tengslanna á viðhorf og gildi einstaklinga. Markmið þessa megin hluta rannsóknarinnar er því fyrst og fremst að öðlast aukinn skilning á félagslegu sambandi einstaklinga við umhverfi og náttúru.
Annað viðfangsefni rannsóknarinnar er umhverfisstjórnun sem tengist því fyrra í gegnum umræðu og samanburð rannsóknarinnar á birtingarmyndum sambands samfélag og náttúru, annars vegar innan þeirrar hugmyndafræði er umhverfisstjórnun byggir á og hins vegar þeirrar er birtist í niðurstöðum rannsóknarinnar. Samanburður þessi er mikilvægur fyrir það markmið rannsóknarinnar að vekja athygli á mikilvægi þekkingar á náttúrutengslum einstaklinga og samfélags fyrir bættan árangur í umhverfisstjórnun. Mikilvægi þess að greina ríkjandi skilning íbúa svæðis á tengslum við náttúru þegar byggja skal upp árangursríkt kerfi hvers konar umhverfisstjórnunar. Stjórnunar sem þá rímar við upplifun íbúa og skilning og sem íbúar finna sig í og finnst merkingarbær. Rannsóknin kannar enn fremur upplifun og viðhorf einstaklinga til umhverfisstjórnunar.

Dagbækur á Kvískerjum

Halldóra Oddsdóttir hlýtur styrk að upphæð 400.000 kr.
Á Kvískerjum í Öræfum hefur heimilisfólkið haldið dagbækur til margra ára. Geyma þær örugglega ýmsan fróðleik sem dýrmætt er að varðveita. Vitað er um skrif eftir hjónin Þrúði Aradóttur og Björn Pálsson. Synir þeirra Sigurður, Flosi og Hálfdán eru landsþekktir fyrir sín fræðistörf og rannsóknir og því reiknað með að bækur þeirra geti innihaldið fróðleik sem tengdist þeirra áhugasviði. Bræður þeirra Helgi og Ari voru líka ötulir við að skrifa niður allt sem þeim var hugleikið. Páll bróðir þeirra ólst upp á Fagurhólsmýri en eftir hann liggja einnig margar dagbækur sem varpa ljósi á daglegt líf, mannaferðir um sveitina og veðurfar.
Það má því leiða líkum að því að allar þessar dagbækur hafi að geyma fjölbreytt sjónarhorn á daglegt líf þessarar fjölskyldu og almennt á líf fólks í Öræfum á því tímabili sem þær eru skrifaðar. Dagbækurnar eru af öllum stærðum og gerðum, allt frá litlum vasabrotsbókum upp í stílabækur af stærri gerð. Allt í allt eru þetta um 190 bækur frá því um 1926 –2006.
Mikilvægt er að varðveita þessar bækur sem best því þær veita dýrmætar upplýsingar um líf og störf heimilisfólksins á Kvískerjum og ein leið til þess er að skanna innihald þeirra til þess að koma þeim á rafrænt form svo hægt sé að vinna með efnið í tengslum við ýmsar rannsóknir eða heimildaöflum við skrif. Einnig er mikilvægt að fara að huga að því að koma bókunum eða afriti af þeim í örugga geymslu í skjalasafni svo þær glatist ekki.

Framtíðin er NÚNA!

Landssamtök Landsbyggðarvina hljóta styrk að upphæð 100.000 kr.
Um er að ræða verkefni, sem höfðar til ungmenna á aldrinum 12 – 30 ára um land allt. Verkefnið var samið í samráði við Skólaþróunardeild mennta- og menningarmálaráðuneytisins, og hét áður, Sköpunarkraftur – Heimabyggðin mín, nýsköpun, heilbrigði og forvarnir. Er það nafn meira lýsandi fyrir breidd þess og fjölbreytileika, þ.e. að nemendur geti komið þeim hugmyndum að, sem þeim sjálfum eru hugleiknastar.

Hámarksútbreiðsla Kvískerjajökla í lok litlu ísaldar

Náttúrustofa Suðausturlands hlýtur styrk að upphæð 800.000 kr.
Hve langt fram í Múlagljúfur náðu jöklarnir ofan við Kvísker, í lok 19. aldar? Þessir jöklar eru meðal skriðjökla í Öræfajökli. Eins og kunnugt er voru jöklar hér á landi stærri í lok 19. aldar en nokkru sinni frá því land byggðist. Það var í lok langvinns kuldaskeiðs sem nefnt er „litla ísöldin“. Í Austur-Skaftafellssýslu gengu jöklar fram í láglendið og tíðarfar og jökulvötn ollu sum staðar talsverðum búsifjum í kjölfarið. Eftir það hafa jöklar styst og rýrnað mikið. Markmiðið er að draga saman greinargerð með korti sem sýnir jöklabreytingar Kvískerjajökla á 19. og 20. öld og rúmmálsbreytingar á þessum hluta Öræfajökuls.

Svartijökull – flóðfarvegur jökulhlaups í kjölfar Öræfajökulgoss 1727

Náttúrustofa Suðausturlands hlýtur styrk að upphæð 800.000 kr.
Tvö gos eru þekkt í Öræfajökli, stærsta eldfjalli Íslands, frá því að land byggðist. Í fyrra skiptið árið 1362 en í því síðara árið 1727. Seinna gosið varð ekki í öskjunni í Öræfajökli heldur í suðvestanverðum hlíðum fjallsins, nærri rótum jökulsins, á Sandfelli. Í kjölfar þess hljóp óhemju jökulhlaup undan Kotárjökli, einum skriðjökla Öræfajökuls, og niður í Grænafjallsgljúfur sunnan Falljökuls. Í hamfarahlaupinu tók af sel og týndu a.m.k. þrjár manneskjur lífi. Hlaupið dreifðist yfir sléttlendi við rætur fjallsins, framan Kotárjökuls, og situr eftir grýtt aurkeila, Svartijökull, þar sem áður var gróið land
Einu heimildirnar um umfang hlaupsins eru samtíma heimildir. Ummerkin hafa enn ekki verið kortlögð né lagt mat á hve mikið rúmmál hlaupsins var. Með verkefninu er fyrirhugað að kanna aurkeiluna til hlítar og áætla stærð hlaupsins.

Áhrif beitarfriðunar á vöxt, blómgun og fræframleiðslu plantna á Skeiðarársandi

Dr. Bryndís Marteinsdóttir, próf. Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Dr. Kristín Svavarsdóttir hljóta styrk að upphæð 550.000 kr.
Sumarið 2004 voru 10 stórir rannsóknarreitir (40x40 m) girtir af með það að markmiði að fylgjast með langtímaáhrifum beitarfriðunar á sjálfgræðslu sandsins. Enn sem komið er virðist friðun hafa haft lítil áhrif á gróðurþekju og tegundasamsetningu. Markmið rannsóknarinnar er að greina fyrstu áhrif friðunar á hæfni einstakra plantna og meta hvaða áhrif sauðfé hefur á frædreifingu á Skeiðarársandi. Einkum verður leitast vit að svara þremur rannsóknarspurningum:

  1. Hefur beitarfriðun áhrif á ástand plantna s.s.s stærð og tíðni og virkni sveppróta? Eru slík áhrif friðunar greinanlega eftir 10 ár?
  2. Hefur beitarfriðun áhrif á fræframleiðslu, þ.e. tíðni blómgunar og magn eða þroska fræja?
  3. Leiðir sauðfjárbeit til aukinnar frædreifingar?
Síðast uppfært: 2.6.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum