Hoppa yfir valmynd

Úthlutun ársins 2011

Eyðibýli í Austur-Skaftafellssýslu

Samstarfshópur um verndun og nýtingu eyðibýla á Íslandi, Gísli Sverrir Árnason, kr. 300.000,-

Eyðijarðir á Íslandi eru tæplega 2.300 og er ekki vitað á hve mörgum þeirra er einhver húsakostur. Ætlunin er að hefja verkefnið Eyðibýli á Íslandi í Austur-Skaftafellssýslu og e.t.v. víðar á Suðurlandi og láta reyna á það í samstarfi við eigendur, ferðaþjónustu, varðveisluaðila og fleiri hvort hægt sé að gera upp valin eyðibýli í sveitum og nýta þau í ferðaþjónustu.

Hámarksútbreiðsla Vatnajökuls í lok Litlu ísaldar

Snævarr Guðmundsson, kr. 200.000,-

Í lok 19. aldar urðu jöklar hér á landi stærri en nokkru sinni frá því að land byggðist. Þetta var í lok langvinns kuldaskeiðs sem jafnan er nefnd „Litla ísöldin“. Enn í dag má segja að ekki hafi fengist fullgerð heildarmynd af því hve umfangsmikill Vatnajökull, eða aðrir stórir jöklar, voru í hámarksútbreiðslu í lok 19. aldar. Verkefnið er áfangi í heildarkortlagningu á útbreiðslu jökla landsins í lok Litlu ísaldar og felst í því að komast að hversu víðfeðmir þeir raunverulega urðu í hámarki og hvert rúmmál þeirra varð. Jafnframt fæst viðmið á hversu mikil rýrnun hefur átt sér stað eftir að hlýna tók á 20. öld svo og undirstöðugögn fyrir spálíkön á þróun jökla.

Skráning menningarminja í Öræfasveit

Guðlaug Matthildur Jakobsdóttir, kr. 250.000,-

Verkefnið er heimildaöflun þar sem lögð verður áhersla á að skrásetja og ljósmynda hluti frá fyrri hluta 20. aldar sem eru í eigu íbúa í Öræfum. Markmiðin með skráningunni er að rannsaka hvert umfang gamalla hluta er í Öræfasveit, skrá þá í gagnagrunn Byggðasafnsins á Höfn og taka viðtöl við eigendur hlutanna.
Að saga hlutanna endurspegli notkun fólksins á þeim og hvernig þeir voru hluti af daglegu lífi fólks. Einnig verður skoðað hvort og hver sé munurinn á milli bæja eða bæjarkjarna.
Að öðlast meiri þekkingu á menningararfi sveitarinnar, stuðla að varðveislu hans og setja upp sýningu í sveitinni að verkefni loknu sem hefur fræðslugildi fyrir gesti og gangandi.

Stærstu jökulgarðar á Íslandi – setgerð, bygging og myndun Kvíármýrar- og Kambamýrarkamba

Dr. Ívar Örn Benediktsson, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, kr. 300.000,-

Verkefnið felur í sér rannsókn á byggingu og myndun jökulgarða Kvíárjökuls, sem er brattur skriðjökull (falljökull) sem fellur til suðausturs úr öskju Öræfajökuls. Þessir jökulgarðar, Kvíármýrarkambur að vestan og Kambsmýrarkambur að austan eru allt að 150 m háir og 600 m breiðir, sem gerir þá að langstærstu jökulgörðum á Íslandi. Markmið verkefnisins er að kanna setgerð þeirra og innri byggingu í þeim tilgangi að skýra myndun þeirra og stærð, og auka þekkingu á virkni falljökla við rof, setmyndun og landmótun.

Rannsókn og miðlun á fornum minjum i landi Kvískerja

Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Forleifastofnun Íslands, kr. 300.000,-

Í verkefninu felst kortlagning og vettvangsskráning allra fornleifa í landi Kvískerja, þ.m.t. viðtöl við staðkunnuga um minjar, forna búskaparhætti og lífið á Kvískerjum á fyrri hluta 20. aldar. Markmið verkefnisins er að dýpka þekkingu á fornleifum og sögu Kvískerja með því að skrá og hnitsetja alla þekkta minjastaði og lýsa þeim, teikna upp rústir og taka ljósmyndir og jafnframt að meta ástand minja í landi Kvískerja og þá hættu sem í sumum tilfellum kann að þeim að steðja.

Könnun á kelfingu íss í Jökulsárlón

Eyjólfur Magnússon, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, kr. 400.000,-

Mestur hluti þess íss sem skilar sér til heimshafanna frá Grænlandi og Suðurskautslandinu brotnar frá þeim við kelfingu stórra skriðjökla í sjó fram. Til að spá fyrir um afdrif þessra risa á tímum hnattrænnar hlýnunar er mikilvægt að skilja eðli kelfandi skriðjökla. Þessir jöklar eru alla jafnan mjög óaðgengilegir og kostnaðarsamt að komast að þeim á meðan að aðgengi að Breiðamerkurjökli er mun auðveldara. Verkefnið felst í því að koma upp myndavél fyrir framan Breiðamerkurjökul sem næði myndum af klefandi hluta jökulsporðsins. Út frá myndunum yrði hægt ða meta skriðhraða jökulsporðsins, tímasetningu kelfingaatburða og rúmmál íssins sem kelfir út í lónið sem mun nýtast sem skorður í ísflæðilíkanið.

Birki á Skeiðarársandi: fræframleiðsla og frægæði

Dr. Kristín Svavarsdóttir, Landgræðslu ríkisins og Dr. Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Háskóla Íslands, kr. 250.000,-

Umsækjendur hafa stundað rannsóknir á gróðurframvindu á Skeiðarársandi um nokkurt skeið. Markmið þessa verkefnis er að kanna fræframleiðslu og spírunarhæfni birkis á Skeiðarársandi og bera saman við fyrri ár. Að kanna betur breytileika í frægæðum milli einstaklinga og hvort frægæði tengjast tilteknum vistfræðilegum breytum, einkum stærð og fræframleiðslu plöntu, þéttleika birkitrjáa í næsta nágrenni og þéttleika blómstrandi birkitrjáa í næsta nágrenni. Að kanna takmarkandi áhrif næringarefna í jarðvegi á frægæði með því að bera á tilbúinn áburð umhverfis valin tré.

Útivist og afþreying ferðamanna í Vatnajökulsþjóðgarði

Dr. Þorvarður Árnason, Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Hornafirði, kr. 300.000,-

Rannsóknir á ferðavenjum erlendara ferðamanna á Íslandi sýna að þeir stunda á heildina litið talsvert fjölbreytta afþreyingu, en útivist í náttúrulegu umhverfi er þó langalgengasta tegund hennar. Markmið verkefnisins er að rannsaka þá útivist sem stunduð er af ferðamönnum sem koma í Vatnajökulsþjóðgarð. Hvers konar útivist þeir stunda á ólíkum svæðum innan þjóðgarðsins, hvaða væntingar þeir hafi til útivistarmöguleika þar og hversu vel þessar væntingar eru uppfylltar. Einnig verður leitast við að greina hvers vegna umræddir ferðamenn sækjast eftir útivist eða afþreyingu af ólíkum toga.

Áhrif landgræðsluaðferða, lúpínu og áburðargjafar/sjálfssáningar, á dýralíf á Íslandi

Brynja Davíðsdóttir, kr. 300.000,-

Markmið verkefnisins er að meta áhrif mismunandi landgræðsluaðferða, lúpínusáningar og áburðardreifingar/ sjálfgræðslu á dýralíf, einkum fugla og liðdýr. Með þeirri þekkingu fæst fræðilegur grunnur til þess að hæft sé að taka tillit til dýralífs þegar landgræðsluaðferðir eru valdar og einnig þegar rætt er um ráðstöfun lúpínu – kosti hennar og galla. Sérstaklega er nauðsynlegt að kanna áhrif lúpínu á dýralíf, vegna þess að hún hefur sannanlega getu til að dreifa sér yfir gróið land. Áhrif lúpínu hafa einkum verið könnuð á gróður en áhrif á dýralíf eru lítið þekkt.

Áhrif Vatnajökuls á veður og veðurfar

Hálfdán Ágústsson, Reiknistofu í veðurfræði, kr. 300.000,-

Vatnajökull er stærsti hveljökull Evrópu og er mikilvægur í jökla-, vatna- og veðurfarsfræðilegu tilliti. Skriðjöklar hans hafa hopað frá lokum 19. aldar og jökullinn þynnst og tapað allt að 400 km3 af ís á sama tíma. Ef litið er til áhrifa á veður og veðurfar þá er jökullinn einn mikilvægasti þáttur í landslagi á Íslandi. Með minnkandi umfangi og þykkt jökulsins má ætla að það verði töluverðar breytingar á áhrifum hans á veður og veðurfar á og við landið. Meginmarkmið verkefnisins er að meta líklegar breytingar á staðbundnum vindum og vindafari við suðaustanverðan Vatnajökul, miðað við ætlaðar breytingar á umfangi jökulsins vegna hlýnunar á loftslagi á næstu árum.

Skráning mynda

Svavar M. Sigurjónsson frá Litla – Hofi, kr. 250.000,-

Svavar hefur um nokkurt skeið safnað gömlum ljósmyndum úr Öræfum og skannað þær inn í tölvu og er markmið hans að skrá sem flestar myndir sem tengjast sögu sýslunnar. Elstu myndirnar eru frá því í kringum 1910 og ennþá er fólk á lífi sem þekkir þessa tíma og er mikilvægt að skrá sem fyrst þær upplýsingar sem þetta fólk hefur um sögu Öræfasveitar sem ljósmyndirnar geyma.

Þróun gróðurs og jarðvegs í Skaftafelli og Öræfum síðustu árþúsundir með tilliti til áhrifa loftslags, eldvirkni og mannvistar

Guðrún Gísladóttir, kr. 200.000,-

Markmið rannsóknarinnar er að rekja gróðurbreytingar og jarðvegsmyndun (breytingar á landvistkerfi) síðustu árþúsundir í Skaftafelli og Öræfum og meta áhrif loftslagsbreytinga, eldvirkni og mannvistar þar. Rýnt verður í þróunina eins langt aftur í tímann og jarðlög leyfa og til dagsins í dag. Sérstaklega verður lögð áhersla á að rannsaka áhrif Öræfajökulsgossins 1362 á vistkerfi og búsetuskilyrði til langs og skamms tíma. Reynt verður að svara því hvenær skógur og önnur gróðurlendi komu til sögunnar og hversu frjósamur og kolefnisríkur jarðvegur var á mismunandi tímum. Þá verður metið hvaða áhrif veðurfarsbreytingar, eldvirkni og landnýting höfðu á þessa þróun.

Fuglar: nytjar og hefðir

Björn Gísli Arnarson, Fuglaathugunarstöð Suðausturlands, kr. 150.000-

Í Austur-Skaftafellssýslu voru m.a. svartbaksungar og skúmsungar nýttir og rjúpur fluttar út frá Papósi í Lóni. Einnig voru ýmis fuglaegg nýtt þar um slóðir. Þó vitað sé um nýtingu fugla er lítið vitað um þær veiðiaðferðir sem notaðar voru, geymsluaðferðir, matreiðslu og annað. Dæmi eru um að fara þyrfti yfir jökul til unga- og eggjatekju og eru margar sögur til af þessháttar leiðöngrum. Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á hvernig menn í Austur-Skaftafellssýslu nýttu sér bæði egg og fugla á ýmsa vegu hér áður fyrr.

Síðast uppfært: 2.6.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum