Hoppa yfir valmynd

Úthlutun ársins 2013

Aldursgreining gróðurleifa við Breiðamerkurjökul

Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur, Helgi Björnsson jöklafræðingur, Náttúrustofa Suðausturlands og Jöklahópur Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands hljóta styrk að upphæð 400.000 kr.


Sumarið 2012 fannst setlag með gróðurleifum í jökulaur framan við Breiðamerkurjökul. Setlagaopnan er kominn undan jökli fyrir nokkrum árum og er óhögguð, það er hún situr á sínum upprunalega myndunarstað. Jökullinn skreið yfir þetta svæði fyrir árið 1700 en ofanáliggjandi jökulaur varði setlagið fyrir hnjaski. Í setlaginu fundust rótarbútar og aðrar lífrænar leifar sem gera kleift að aldursgreina myndunartíma setsins. Gróðurleifar og jarðvegshnausar hafa áður borist undan jöklum en sjaldnast fundist á myndunarstað. Þessi einstaki fundur gefur því tækifæri til þess að rannsaka enn frekar og fá skýrari mynd af gróðurfarssögu og loftslagi á Breiðamerkursandi löngu fyrir Litlu ísöld. Það er mikilvægt innlegg í sögu umhverfisbreytinga á Breiðamerkursandi og Vatnajökulsþjóðsgarðs.

Myndun jökulrennunnar undir Breiðamerkurjökli

Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur, Helgi Björnsson jöklafræðingur, Náttúrustofa Suðausturlands og Jöklahópur Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands hljóta styrk að upphæð 600.000 kr.

Hvenær og hvernig myndaðist jökulrennan sem Breiðamerkurjökull hvílir í? Er myndun hennar lokið? Jökulsárlón tók að myndast um 1930 við hop Breiðamerkurjökuls en íssjármælingar á síðasta áratug 20. aldar leiddu í ljós 300 m djúpa og 25 km langa rennu sem nær langleiðina upp í Esjufjöll. Botn Breiðamerkurjökuls hvílir í þessari rennu og við áframhaldandi hop jökulsins mun Jökulsárlón stækka . Tvær hugmyndir eru um myndun rennunnar; a) jökullinn hafi rofið hana á litlu ísöld þegar hann skreið fram eða b) rennan myndaðist að mestu eftir að hlýna tók í lok 19. aldar og leysingarvatn tók að grafa hana út. Unnt er að skera úr um hvor tilgátan stenst með úrvinnslu á mæligögnum um yfirborðshæð Breiðamerkurjökuls, frá fyrsta áratug 20. aldar og samanburði við seinni tíma mælingar.

Uppsetning Helgólandsgildru í Einarslundi

Fuglaathugunarstöð Suðausturlands hlýtur styrk að upphæð 800.000 kr.

Uppsetning á stórri fuglagildru sem verður sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi, en svona gildrur eru notaðar á fuglaathugunarstöðvum víða erlendis. Fuglaathugunarstöð Suðausturlands er stofnuð til þess að halda áfram þeim rannsóknum á fuglum sem Hálfdán Björnsson á Kvískerjum hóf á þessu svæði með merkingum en hann hefur notast við töluvert minni gildrur við sínar fuglaveiðar.

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi – vistfræði og verndargildi

Þorvarður Árnason, PhD, forstöðumaður, Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði hlýtur styrk að upphæð 400.000 kr.

Verkefnið felst í söfnun tiltækra upplýsinga um náttúrufar Jökulsárlóns og nærliggjandi svæða á Breiðamerkursandi og skráningu þeirra í landfræðilegt upplýsingakerfi (kortlagning). Einnig verður gerð forathugun á lífríki og vistkerfi sérstæðs vatnasvæðis á austanverðum sandinum (þar sem Stemmulón var áður) sem hefur myndast á allra síðustu áratugum, eftir að jökull hopaði. Verkefnið er liður í undirbúningi stærri rannsóknar þar sem markmiðið verður að kanna vistkerfi Jökulsárlóns og Breiðamerkursands í heild sinni. Starfsmaður verkefnisins verður Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir, meistaranemi í landfræði við Háskóla Íslands. Samstarfsaðilar eru Dr.Skúli Skúlason, prófessor í dýrafræði við Háskólann á Hólum, Sveitarfélagið Hornafjörður, Jóhannes Sturlaugsson, líffræðingur, og Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands.

Landslag í Austur-Skaftafellssýslu – greining og flokkun

Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands hlýtur styrk að upphæð 400.000 kr.

Markmið verkefnisins er að lýsa, greina og flokka landslag í Austur-Skaftafellssýslu. Notuð verður aðferðafræðin sem þróuð var í Íslenska landslagsverkefninu og m.a. notuð við lýsingu og flokkun á íslenskum náttúruperlum. Verkefnið mun njóta góðs af gagnagrunni Íslenska landslagsverkefnisins og Náttúruperluverkefnisins. Verkefnið skiptist í sex meginþætti og verður takmarkað við láglendi neðan 200 metra hæð yfir sjávarmál. Starfsmaður verkefnisins er Þorbjörg Ása Jónsdóttir, meistaranemi í Umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Samstarfsaðilar eru Þorvarður Árnason, Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Hornafirði og Vatnajökulsþjóðgarður.


Þróun landgæða og byggðar í Austur-Skaftafellssýslu frá landnámi

Friðþór Sófus Sigurmundsson, M.Sc. Landfræði og doktorsnemi við Háskóla Íslands hlýtur styrk að upphæð 600.000 kr.

Nýnæmi rannsóknarinnar er að beina sjónum að ákveðnu svæði til að draga fram á sem ítarlegastan hátt eðli og ástæður umhverfisbreytinga síðastliðin 1100 ár á mun stærri og viðameiri hátt en áður hefur verið gert á Íslandi. Markmiðið er að skýra hver áhrif landnotkunar, eldvirkni og loftslagsbreytinga hafa verið á byggða- og gróðurþróun í Austur-Skaftafellssýslu frá landnámi. Rakin verða áhrif hvers drifkrafts fyrir sig en einnig samþætt áhrif þeirra.


„Það er nú svona samsafn í þessu“

Guðlaug Matthildur Jakobsdóttir hlýtur styrk að upphæð 300.000 kr.

Verkefnið er framhald verkefnis Skráning menningarminja í Öræfasveit. Um sýningarröð er að ræða og verður hún í þremur hlutum. Fyrsti hluti sýningarraðarinnar verður tileinkaður hugvitsmönnum, þeim Kvískerjabræðrum. Megináhersla þessarar fyrsta sýningarhluta verður á hluti sem voru hannaðir og smíðaðir af Öræfingum, aðallega á fyrri hluta 20. aldar. Ýmis fróðleikur verður unninn upp úr viðtölum og textum sem aflað var í verkefninu Skráning menningarminja í Öræfasveit. Allur texti verður einnig þýddur á ensku til þess að ferðamenn, sem yfirleitt fjölmenna í gegnum sveitina, geti notið þess að kynnast menningararfi Öræfinga. Markmiðið er að sýningin hafi fræðslugildi, bæði fyrir yngri kynslóðina sem og gesti og gangandi. Gert er ráð fyrir að sýningin standi yfir í hálft ár. Samstarfsaðilar eru Matthildur Þorsteinsdóttir, Hofsnesi, Svavar M. Sigurjónsson frá Litla-Hofi, Byggðasafnið á Höfn og Brúarsmiðjan.


Jöklar á Íslandi (heimildarkvikmynd)

Sjónhending ehf. hlýtur styrk að upphæð 500.000 kr.

Jöklar á Íslandi (heimildarkvikmynd 3x30 mínútna þáttarröð) byggir á samnefndri bók Helga Björnssonar sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2009. Jöklar á Íslandi lýsir jöklum landsins, hvernig jöklar hafa mótað landið en einnig eytt því og sambúð þjóðarinnar við þá frá upphafi byggðar til okkar daga. Rakin verður saga þekkingaröflunar og skilnings á jöklum, frá því fyrst var farið að kanna þá fram til nútímarannsókna. Nýjustu rannsóknir í Jökulsárlóni, sem myndin fjallar um er nokkurs konar samnefnari ferla sem mestu munu skipta um framtíð jökla á hnettinum, -einstakt á heimsvísu. Ísland er kennt við ís. Jöklar hafa mótað landið og þjóðina. Rof jöklanna og setflutningur frá þeim blasir við hvert sem litið er um landið og landgrunnið. Saga jökla, plöntu- og dýralífs ísaldar er skráð í setlögum á landi og sjávarbotni, og geymd milli hraunlaga. Um þetta fjallar jarðsagan í myndinni og verður gluggað í hana. Við kynnumst nábýli fólks við jökla og skynjum lífsbaráttu þess í glímunni við jökla sem skriðu fram, eyðingarmátt jökulhlaupa og eldgosa. Leitast verður við að skilja æðruleysi þess, sem mætir örlögum sínum í fullri sátt við náttúruöflin. Meðframleiðandi er Profilm ehf.

Síðast uppfært: 2.6.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum