Hoppa yfir valmynd

Úthlutun ársins 2023

Söguslóðir úr alfaraleið á 20. öld. Lífið til sveita í Austur-Skaftafellssýslu fyrir komu hringvegarins

Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir hlýtur styrk að upphæð 800.000 kr.

Verkefnið er sagnfræðirannsókn þar sem sjónum verður beint að því hvernig landfræðileg einangrun setti svip sinn á líf og tilveru sveitafólksins á svæðinu fram eftir 20. öldinni. Verkefnið byggir fyrst og fremst á viðtölum við fólk úr Austur-Skaftafellssýslu sem upplifði á eigin skinni einangrun vegna skorts á vegasamgöngum við önnur svæði. Markmiðið er að varðveita viðtölin hjá Miðstöð munnlegrar sögu, sem hefur það hlutverk að safna munnlegum heimildum um sögu íslensku þjóðarinnar.

Breiðamörk hin forna-sjónræn endurgerð

Sjónhending ehf. hlýtur styrk að upphæð 1.000.000 kr.

Verkefnið snýr að gerð um 30 mínútna heimildamyndar um fornan skóg á Breiðumörk. Fundist hafa trjábolir í setlögum austan og vestan megin við Breiðamerkurjökul á undanförnum árum. Aldursgreining á bolunum bendir til þess að þeir séu um 3.100-3.400 ára gamlir. Tekin verða viðtöl við fræðimenn og íbúa svæðisins. Fornleifafræðingurinn Dr. Alice Watterson sjónrænn hönnuður hjá Rannsóknarsetri H.Í. á Hornafirði hefur með höndum myndgervinguna.

Kvísker – landslag og óbyggð víðerni

Þorvarður Árnason hlýtur styrk að upphæð 950.000 kr.

„Verkefnið felst í rannsókn á landslagi í landi Kvískerja, þar sem beitt verður ólíkum aðferðum til þess að leiða fram heildstæða mynd af einkennum og gildi landslags á vestasta hluta Breiðamerkursands. Jafnframt verður horft til þeirra óbyggðu víðerna sem kunna að finnast innan landareignarinnar og hvað einkennir þau.“ eins og segir í umsókninni. Rannsóknin verður unnin með vettvangsferðum, ljósmyndun, einnig úr lofti með flygildi og rýnt í stafræn gögn, gömul og ný, sem síðan verða settt fram með kortum og myndum.

Menningarsaga Breiðamerkursands

Menningarmiðstöð Hornafjarðar hlýtur styrk að upphæð 800.000 kr.

„Markmið verkefnisins er að taka saman í heildarskrá menningarminjar á Breiðamerkursandi, með fullgildri fornleifaskráningu, frá Stigá í vestri að Fellsá í austri.“ eins og segir í umsókn. Menningarminjar á Breiðamerkursandi eru m.a. litlar vörður sem hlaðnar voru til að skrá jöklabreytingar á 20.öld, vörður sem hlaðnar voru sem vegvísar, grunnar sæluhúsa og tóftir skepnuhúsa. Hnitsetning og uppmæling verður gerð með GPS gagnastöð og menningarminjarnar ljósmyndaðar.

LA PIETA

AXfilms ehf. hlýtur styrk að upphæð 1.500.000 kr.

Heimildamynd um Kvísker, mannlífið þar og rannsóknastörf bræðranna á náttúrunni, fuglalífi, skordýrum, jöklum og sögu. Ljósmynd af verki Michelangelo La pietá, þar sem María guðsmóðir heldur á syni sínum látnum fléttast inn í heimildarmyndina, en sú ljósmynd hékk á vegg í eldhúsinu á Kvískerjum þegar kvikmyndagerðarmenn heimsóttu Kvísker.

Búsetuskilyrði á Kvískerjum frá 1700-2000

Fanney Ósk Gísladóttir og Ingibjörg Jónsdóttir hljóta styrk að upphæð 800.000 kr.

„Markmið verkefnisins er að kanna hvernig landkostir bújarðarinnar hafa nýst til að framfleyta bændafjölskyldu og öðru heimilisfólki á hverjum tíma.“ eins og segir í umsókninni. Gagna verður aflað úr skjölum og samtímaheimildum. Myndir teknar og loftmyndir nýttar til greiningar. Flokkunarkerfi útbúið með tilliti til landgæða og kort unnin. Sérstaklega verður leitað eftir mannvirkjum fyrri tíma, eins og seljum, beitarhúsum og gerðum.

Aldursgreining gróðurleifa

Náttúrustofa Suðausturlands hlýtur styrk að upphæð 800.000 kr.

Verkefnið felst í því að aldursgreina fornar gróðurleifar sem fundist hafa á Breiðamerkursandi eftir 2017. Um er að ræða birkilurka og trjágreinar sem komið hafa í ljós undan sporði Breiðamerkurjökuls er hann hefur hopað. Einnig hafa fundist sjávarkuðungar í setlögum undan Jökulsárlóni. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu og skilja myndun Breiðamerkursands eftir að síðasta ísaldarskeiði lauk og framvindu gróðurfars áður en Breiðamerkurjökull gekk yfir svæðið á litlu ísöld.

Lífsferill klettafrúr á Íslandi

Náttúrustofa Suðausturlands hlýtur styrk að upphæð. 850.000 kr.

Verkefnið gengur út á að afla gagna um klettafrú (Saxifraga cotyledon) á Íslandi til að geta borið saman fleiri stofna og fá nákvæmara mat á lífssögu plöntunnar á vaxtarstöðum hennar, en hefur verið gert. Klettafrú finnst einungis á Suðaustur- og Austurlandi, en vestasti fundarstaður hennar er í Skaftártungu og sá nyrsti í Loðmundarfirði. Klettafrú er sígræn og fjölær planta. Hún vex einnig í Noregi, Svíþjóð, Ölpunum og Pýreneafjöllum. Hún hefur ekki áður verið rannsökuð á Íslandi.

Síðast uppfært: 5.7.2023 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum