Hoppa yfir valmynd

Úthlutun ársins 2017

Rannsókn á smíðagripum Helga Björnssonar frá Kvískerjum í Öræfum

Anna Ragnarsdóttir Pedersen og Emil Moráverk Jóhannsson hljóta styrk að upphæð 500.000 kr.

Helgi Björnsson hefur skilið eftir sig mikinn fjölda nytjamuna, sem margir eru nýttir enn í dag. Handverk hans bera mörg einkenni þess að Helgi hafi verið mikill hagleikssmiður og útsjónarsamur. Helgi lagði mikla áherslu á að hafa smíðagripina létta og notadrjúga, einnig hefur nýtni og umhverfissjónarmið ráðið nokkru um hvernig gripirnir voru gerðir. Þekktasti smíðagripur Helga er eflaust skírnarfontur sem er í Hofskirkju. Markmið með verkefninu er að skrásetja muni sem Helgi Björnsson smíðaði og safna saman upplýsingum um það hvernig munirnir eru nýttir í dag.

Fræafrán á Skeiðarársandi

Dr. Bryndís Marteinsdóttir, próf. Þóra Ellen Þórhallsdóttir HÍ og Dr. Kristín Svavarsdóttir, Landgræðslu ríkisins hljóta styrk að upphæð 400.000 kr.

Á Skeiðarársandi gefst einstætt tækifæri til að rannsaka náttúrulega þróun vistkerfa frá fyrstu stigum gróðurframvindu og þá þætti sem hafa áhrif á hraða og stefnu hennar. Markmið rannsóknarinnar er að kanna áhrif afráns skordýra á fræframleiðslu tveggja algengra plöntutegunda á Skeiðarársandi, músareyra og móasef.

Viðhald á fiðrildagildrum í Skaftafellssýslum

Náttúrustofa Suðausturlands hlýtur styrk að upphæð 265.000 kr.

Frá árinu 2014 hafa verið starfræktar fiðrildagildrur á vegum Náttúrustofu Suðausturlands í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Tvær gildrur hafa verið í Einarslundi við Hornafjörð frá 2014 og ein í Mörtungu í Skaftárhreppi frá 2015 en áður voru þessar gildrur í notkun á Kvískerjum um nokkurn tíma. Markmið verkefnisins er að halda úti fiðrildagildrum í Skaftafellssýslum á hverju ári og viðhalda þeim rannsóknum sem hófust fyrir nokkru síðan á Kvískerjum. Eins tengja þessar fiðrildaveiðar náttúrustofu traustum böndum við Náttúrufræðistofnun Íslands, en sú tenging er mjög mikilvæg fyrir landsbyggðina. Árangur af verkefninu felst í því að samfella fæst í talningar og mælingar á fiðrildum á Suðausturlandi.

Þróun aðferða til að efla þátttöku almennings í skipulagi og ákvarðanatöku sjálfbærrar ferðamennsku

Prof. Rannveig Ólafsdóttir HÍ og Þorvarður Árnason Rannsóknasetri HÍ á Hornafirði hljóta styrk að upphæð 500.000 kr.

Lífsviðurværi íbúa og landnýting á norðurslóðum er mjög háð náttúruauðlindum. Nýting þeirra einkennist hins vegar oft af hagsmunaárekstrum á milli ólíkra notenda. Til að minnka hagsmunaárekstra í landnýtingu er mikilvægt að raddir allra hagsmunaaðila heyrist og að hagsmunaaðilar vinni saman að ásættanlegum lausnum í ákvarðanatöku. Þátttaka almennings í skipulagi landnýtingar hefur hingað til verið takmörkuð, og leiðir til að efla þátttöku almennings verið fáar. Þetta verkefni er hluti af stærra NPA verkefni sem beinir sjónum að því að þróa aðferðir til að auðvelda og efla þátttöku almennings í ákvarðanatöku varðandi landnotkun. Þessi íslenski hluti verkefnisins beinist að Suður og Vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og sveitarfélögunum Hornafirði og Skaftárhreppi. Meginmarkmið þessa hluta er að þróa aðferðir til að efla þátttöku íbúa í skipulagningu framtíðar ferðamennsku á jökulsvæðum m.t.t. aukins fjölda ferðamanna og breyttra loftlagsaðstæðna og sjálfbærrar ferðamennsku í Vatnajökulsþjóðgarði og nýtingu sjálfbærnivísa í skipulagningu og stjórnun.

GPS mælingar á jarðskorpuhreyfingum við Öræfajökul

Ásta Rut Hjartardóttir, Jarðvísindastofnun HÍ hlýtur styrk að upphæð 500.000 kr.

Nota á GPS mælingar til að athuga hvort kvika sé að safnast fyrir í kvikuhólfi Öræfajökuls. Slíkar mælingar hafa ekki verið gerðar síðastliðin 12 ár og því er orðið brýnt að uppfæra mælingarnar. Ef breytingar mælast, má nota mælingarnar til að meta á hversu miklu dýpi kvikuhólfið er og hversu mikið rúmmál af kviku safnast fyrir. Mælingarnar munu einnig nýtast vel sem bakgrunnsmælingar ef kvikusöfnun á sér stað síðar.

Úr hafi að jökli

Dr. Freydís Vigfúsdóttir, Dr. Olga Kolbrún Vilmundardóttir og Dr. Bryndís Marteinsdóttir HÍ hljóta styrk að upphæð 700.000 kr.

Vegna loftslagsbreytinga hefur Breiðamerkurjökull hopað seinustu 120 árin og undan jöklinum komið nýtt en lífvana land. Landnám lífvera og myndun vistkerfis á slíkum lífvana svæðum takmarkast m.a. af skort á næringarefnum. Á Breiðarmerkursandi verpa talsvert af sjófuglum, skúmar og kjóar og má ætla að varpi þeirra fylgi töluverður næringarefnaflutningur frá hafi til sandsins. Fuglarnir mynda t.d. þúfur og gróin hreiðurstæði sem hugsanlega eru meginafl í framvindu lífs á þessum svæðum. Hlutverk sjófugla í næringarefnaflutningi og gildi hans fyrir landnám lífvera á lífvana svæðum hefur hinsvegar lítið verið rannsakaður. Hnattræn hlýnun og breytingar í umhverfi sjávarins hafa áhrif á sjófuglastofna og eru nú þegar ummerki um fækkun þeirra. Með frekari fækkun sjófugla er líklegt að þessi næringarefnaflutningur breytist bæði vegna fækkun varppara og minni viðveru fuglanna. Aukin skilningur á áhrifum þessa næringarefnaflutnings er því mikilvægur til að geta spáð fyrir um áhrif breytinga í hafi á landvistkerfi. Markmið þessa verkefnis er að nota þverfaglega nálgun til að ákvarða hvaða áhrif næringarefnaflutningur skúms og kjóa úr hafi hefur á uppbyggingu vistkerfa á lífvana landi fyrir framan Breiðamerkurjökul.

Síðast uppfært: 2.6.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum