Hoppa yfir valmynd

Um borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins

Hvert leita ég eftir aðstoð?

Þegar um neyðartilvik erlendis er að ræða er borgaraþjónusta tiltæk allan sólarhringinn í síma +354 545-0112. Á skrifstofutíma má hafa samband í síma (+354) 545 9900 eða með tölvupósti, [email protected].

Auk ráðuneytisins geta íslenskir ríkisborgarar haft samband beint við sendiráð, ræðisskrifstofur og ólaunaða kjörræðismenn. Upplýsingar um staðsetningu og símanúmer íslenskra sendiskrifstofa er að finna á vef ráðuneytisins. Á sömu síðu undir Ísland erlendis er hægt að fletta upp kjörræðismönnum Íslands eftir löndum og hvaða skrifstofur fara með fyrirsvar gagnvart ríkjum þar sem engin íslensk sendiskrifstofa er staðsett.

 

Hvað er borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins?

Mikilvægur þáttur í starfsemi utanríkisþjónustunnar er að veita íslenskum ríkisborgurum vernd og aðstoð gagnvart erlendum stjórnvöldum, stofnunum og einstaklingum, sbr. ákvæði laga um utanríkisþjónustu Íslands nr. 39/1971. Í þessu felst einkum að þjónustan fer með mál er varða réttindi Íslendinga og íslenska hagsmuni erlendis, samanber reglugerð nr. 177/2007 um Stjórnarráð Íslands.

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins leitast daglega við að gæta hagsmuna íslenskra ríkisborgara erlendis svo að þeir verði ekki fyrir borð bornir. Daglegum verkefnum borgaraþjónustu er sinnt af þjónustukrifstofu utanríkisráðuneytisins. Í raun er borgaraþjónustan þó samstarfsverkefni skrifstofunnar, sendiráða og ræðismanna Íslands erlendis. Sem dæmi um aðstoð sem veitt er íslenskum ríkisborgurum má nefna hvers konar fyrirgreiðslu til Íslendinga og íslenskra lögaðila, t.d. útgáfa ferðaskilríkja, vottun opinberra skjala, aðstoð við Íslendinga sem lenda í vanda á erlendri grund, fyrirgreiðsla gagnvart erlendum stjórnvöldum o.s.frv.

Sendiskrifstofur Íslands sem eru 26 í 21 ríki og um 200 kjörræðismenn í 90 löndum og sjálfstjórnarsvæðum ganga erinda Íslands á erlendri grund og aðstoða íslenska ríkisborgara ef nauðsyn krefur. Jafnframt hafa Norðurlöndin gert með sér samkomulag um gagnkvæma aðstoð til ríkisborgara þeirra í borgaraþjónustumálum. Á grundvelli þess geta íslenskir ríkisborgarar leitað aðstoðar norrænna sendi- og ræðisskrifstofa á stöðum þar sem Ísland hefur hvorki sendiskrifstofu né ræðismann. Með þessu leitast utanríkisráðuneytið við að tryggja íslenskum ríkisborgurum aðgang að nauðsynlegri aðstoð bjáti eitthvað á og aðstoðar er þörf.

Hverjum veitir borgaraþjónustan aðstoð?

Aðstoð borgaraþjónustu stendur öllum íslenskum ríkisborgurum til boða.

Hafa ber þó í huga að veitt aðstoð getur takmarkast þegar einstaklingur er með tvöfalt ríkisfang og lendir í vandræðum innan þess ríkis sem hann er jafnframt ríkisborgari í. Óski viðkomandi aðstoðar íslenskra stjórnvalda getur verið að stjórnvöld þess ríkis setji afskiptum íslenskra stjórnvalda ákveðin takmörk.

Gjaldtaka vegna aðstoðar sem veitt er af borgaraþjónustu

Borgaraþjónusta innheimtir gjald vegna tiltekinnar þjónustu sem veitt er, sbr. lög nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs, einkum 14. og 15. gr.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum