Hoppa yfir valmynd

Undirbúningur ferðalags - góð ráð

Gátlisti fyrir utanlandsferðir

Hér er að finna gátlista fyrir ferðalagið sem borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur sett saman.

  • Ef ferðast er út fyrir Evrópu, athugið að vegabréfið gæti þurft að gilda í allt að 6 mánuði fram yfir ferðalok.
  • Hafið nauðsynjar í handfarangri, s.s. lyf, ef farangur glatast. Jafnan má hafa þriggja mánaða skammta meðferðis milli landa.
  • Gott er að afrita vegabréf og senda sér í tölvupósti sem nálgast má á netinu.
  • Láta nákomna fá bókunarnúmer, ferðadagsetningar og dvalarstaði.
  • Kynntu þér siði og venjur áfangastaðar og varúðarreglur sem nýtast á hverjum stað.

1. Ferðaviðvaranir

Kanna ætti hvort utanríkisráðuneytið eða önnur sambærileg erlend stjórnvöld hafi gefið út ferðaviðvaranir þar sem ráðið er frá ferðalögum á það svæði sem heimsækja á. Utanríkisráðuneytið styðst einkum við ferðaviðvaranir Norðurlanda.

2. Hvar er íslenskt sendiráð eða ræðisskrifstofa?

Kynnið ykkur hvar næsta íslenska sendiráð og/eða ræðisskrifstofa erlendis er staðsett og skráið símanúmer þeirra sem og neyðarnúmer borgaraþjónustu: +354 545 0112.

Ef hvorki íslenskt sendiráð eða ræðisskrifstofa er í landi getur norrænt sendiráð veitt íslenskum ríkisborgurum neyðaraðstoð. Nánari upplýsingar eru hjá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins: [email protected].

3. Vegabréf

Íslenskir ríkisborgarar skulu ávallt hafa vegabréf meðferðis þegar ferðast er til og frá Íslandi þar sem vegabréf eru einu gildu íslensku ferðaskilríkin. 

Ísland er aðili að Schengen-samkomulaginu og norræna vegabréfaeftirlitssamningnum um afnám vegabréfaskoðunar við landamæri. Þó geta flugfélög krafist þess að farþegar sýni vegabréf við innskráningu og einstök ríki geta hert reglur um vegabréfaeftirlit tímabundið.

Því er ekki hægt að tryggja að ferðalangar komist á leiðarenda nema með gild vegabréf og er ferðalöngum eindregið ráðið frá því að treysta á önnur skilríki en vegabréf þegar farið er á milli landa.  

Ekki er hægt að tryggja að ferðalangar komist á leiðarenda án vegabréfs og er fólki eindregið ráðið frá að treysta á önnur skilríki þegar farið er á milli landa.

Ýmis ríki gera kröfu um að vegabréf gildi lengur en áætluð ferð, t.d. þrjá eða sex mánuði gildistíma fram yfir áætluð dvöl. Rétt er að kynna sér hverjar kröfur hvers ríkis fyrir sig. 

Allar frekari upplýsingar um íslensk vegabréf er að finna á vegabref.is.

4. Vegabréfsáritanir

Kynnið ykkur tímanlega hvort vegabréfsáritunar (visa) sé krafistá áfangastað. Það er á ábyrgð ferðamanns að tryggja að hann hafi heimildir til inngöngu í landið sem hann hyggst heimsækja. Án gildrar áritunar, má búast við brottvísun úr landinu samstundis og/eða greiðslu sektar.

Vegabréfsáritun þarf oftast að sækja um í sendiráðum og/eða ræðisskrifstofum viðkomandi ríkis, en í sumum tilvikum er hægt að sækja um á netinu. Hafi ríkið hvorki sendiráð né ræðisskrifstofu á Íslandi getur þurft að senda vegabréf eða ljósrit þess til viðkomandi sendiskrifstofu viðkomandi ríkis erlendis.

Afgreiðsla áritana getur tekið tíma og mikilvægt að sækja um tímanlega og hafa í huga hvernig greiða eigi fyrir áritun.

Borgaraþjónustan getur ekki haft milligöngu um að útvega vegabréfsáritanir til erlendra ríkja.

Frekari upplýsingar er að finna á upplýsingasíðu borgaraþjónustunnar um vegabréfsáritanir fyrir íslenska ferðamenn.

5. Ökuskírteini

Kannið hvort íslenskt ökuskírteini sé gilt í landinu sem ferðast á til allan ferðatímann.

Íslensk ökuskírteini sem gefin eru út eftir 15. ágúst 1997 eru viðurkennd innan EES. Utan EES er betra að kanna sérstaklega hjá stjórnvöldum í viðkomandi ríki gildi evrópskra ökuskírteina áður en lagt er af stað.

Hyggi menn dveljast erlendis lengur en 6 mánuði geta aðrar reglur átt við.

Sé ökuskírteini. gefið út fyrir 15. ágúst 1997, geta íslenskir ferðamenn lent í vandræðum þar sem það hefur t ekki sama gildi og nýrri skírteini. Borgaraþjónustan ráðleggur því öllum sem hafa eldri gerðina að endurnýja ökuskírteinið áður en lagt er af stað.

Mælt er með notkun alþjóðlega ökuskírteinisins erlendis sem gilda í eitt ár frá útgáfudegi. Sjá nánar hjá FÍB sem gefur þau út hérlendis.

6. Farareyrir

Hafið meðferðis nægt fé (reiðufé, ferðatékka og/eða kredit- eða debetkort) til að greiða bæði ferðakostnað og ófyrirséð útgjöld s.s. lækniskostnað, neyðarvegabréf o.þ.h.

Vegna kredit- eða debetkort ætti að huga að gildistíma þeirra og örugg PIN-númer.

7. Ferðatryggingar

Kynnið ykkur hvers konar tryggingu þarf fyrir fyrirhugaða ferð og hvort greiðslukortatygging nái til alls þess tjóns sem getur komið upp erlendis, s.s. lækniskostnaðar, sjúkraflutnings, heimferðar vegna alvarlegra veikinda eða dauðsfalls í nánustu fjölskyldu, bóta vegna þjófnaðar og líkamsárásar svo eitthvað sé nefnt.

Athugið hvort tryggingin heldur gildi ef veikindi á ferðalagi stafa af þegar þekktum sjúkdómi. Oft þarf viðbótartryggingu hjá tryggingafélögum ef ætlunin er að taka áhættu á borð við teygjustökk, fljótasiglingar, fjallaklifur o.fl.

8. Sjúkratryggingakort

Ríkisborgarar Íslands og annarra EES landa sem eru búsettir og sjúkratryggðir hér á landi eiga rétt á að fá evrópskt sjúkratryggingakort.  Kortið gildir eingöngu hjá þjónustuaðilum innan hins opinbera sjúkratryggingakerfis.

Það gildir að öllu jöfnu í þrjú ár en fimm ár hjá lífeyrisþegum og endurnýja þarf kortið að þeim tíma liðnum. Sækja má um evrópska sjúkratryggingakortið til Sjúkratrygginga Íslands. Sjá upplýsingar á vefsíðu Sjúkratrygginga eða í síma 515 0000.

9. Bólusetningar

Bólusetningar fara bæði eftir ferðinni, t.d. áfangastað og ástandinu þar, dvalarlengd og tegund ferðar, og ferðamanninum sjálfum, t.d. fyrri bólusetningum, sjúkdómum og ofnæmi. Best er að bóka tíma fyrir bólusetningu að minnsta kosti mánuði fyrir brottför á heilsugæslustöðvum og  á Göngudeild sóttvarna.

Hafið með skírteini um fyrri bólusetningar vegna ferðalaga. Sjá má yfirlit yfir bólusetningar á mínum síðum Heilsuveru.is.

10. Ferðalög með börn

Aukið eftirlit er víða varðandi ferðir með börn án heimildar forsjáraðila. Sá sem ferðast einn með barn ætti að fá undirritaða heimild forsjáraðila þess um að hann megi að ferðast með barnið. Fari foreldrar sameiginlega með forsjá barns er öðru foreldrinu óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins. Til að tryggja formlega staðfestingu á samþykki foreldris, sem ekki fylgir barni úr landi, má ganga frá sérstakri yfirlýsingu um samþykki þess. Ef annar fulltíða einstaklingur fer með barnið úr landi þarf staðfestingu beggja foreldra ef þau fara bæði með forsjá barns.

Eyðublað og nánari upplýsingar eru á Ísland.is.

Borgaraþjónustan mælir með því að undirrituð heimild sé vottuð hjá sýslumanni og síðan staðfest af utanríkisráðuneytinu til að tryggja að skjal verði tekið gilt af erlendu stjórnvaldi.

11. Sinn er siður í landi hverju

Ávallt skal fylgja lögum, reglum og siðvenjum sem gilda í því landi sem þú heimsækir. Þau geta verið verulega frábrugðin því sem þú kannt að venjast er gott að kynna sér þessi atriði sérstaklega áður en lagt er af stað. 

Gagnlegir vefir eru:

Fararheill

Kilroy ferðaráð

Trip Advisor

 

Fyrirvari

Upplýsingarnar á þessari síðu eru eingöngu settar fram í leiðbeiningarskyni og án ábyrgðar af hálfu utanríkisráðuneytisins.
Hafa ber hugfast að reglur geta breyst hratt í einstaka löndum og að staðaryfirvöld eiga ávallt lokaorðið um lagaframkvæmdina.
Ferðafólk ber ætíð sjálft ábyrgð á ferðaundirbúningi og því að kynna sér þær kröfur sem gerðar eru til ferðamanna á sérhverjum áfangastað. 

Síðast uppfært: 2.7.2024 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum