Hoppa yfir valmynd

Umsóknir um styrki til þróunarsamvinnuverkefna íslenskra félagasamtaka

Utanríkisráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki vegna þróunarsamvinnuverkefna félagasamtaka sem veittir eru á grundvelli reglna um styrkveitingar ráðuneytisins til félagasamtaka og fyrirtækja í þróunarsamvinnu nr. 1035/2020. Athygli er vakin á því að félagasamtök sem gert hafa rammasamning við ráðuneytið eru ekki gjaldgeng til styrkja til samskonar verkefna og samningar ná til.

Félagasamtök geta sótt um fjórar tegundir styrkja til þróunarsamvinnuverkefna:

a.    Nýliðaverkefni

b.    Styttri þróunarsamvinnuverkefni.  

c.    Langtímaþróunarsamvinnuverkefni.

e.   Kynningar- og fræðsluverkefni

Allt að 96 milljónir eru til úthlutunar til nýrra verkefna, þar af allt að 15 milljónir til kynningar- og fræðsluverkefna.

Um framlögin

Markmið með styrkveitingum til félagasamtaka á Íslandi er að hvetja til aukinnar þátttöku þeirra í þróunarsamvinnu og samstarfs um framgang heimsmarkmiðanna sem hafa það að markmiði að draga úr fátækt og styðja við sjálfbæran vöxt í efnaminni ríkjum. Sérstök áhersla er lögð á mannréttindi, jafnrétti kynjanna og umhverfis- og loftlagsmál skv. stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2024-2028.

Veittir verða styrkir til þróunarsamvinnuverkefna sem koma til framkvæmda í lágtekjuríkjum og lágmillitekjuríkjum sbr. lista Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (DAC) yfir viðtakendur opinberrar þróunaraðstoðar. Lista yfir gjaldgeng samstarfslönd er að finna á síðu OECD DAC. Sérstök áhersla er lögð á verkefni og samstarf í tvíhliða samstarfslöndum Íslands, Malaví, Úganda og Síerra Leóne. Styrkir til kynningar- og fræðsluverkefna skulu koma til framkvæmda á Íslandi og hafa alþjóðlega þróunarsamvinnu og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi.

Við mat á umsóknum verður stuðst við viðeigandi úthlutunarreglur nr. 1035/2020, verklagsreglur um styrki til þróunarsamvinnuverkefna og tiltekin gæðaviðmið sem er að finna á www.utn.is/felagasamtok.

Styrkhæfir aðilar

Til að teljast styrkhæf þurfa samtök að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Vera skráð í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra sem félagasamtök, skv. rekstrarformi eða atvinnugreina­flokkun, eða vera skráð sem félag til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri skv. lögum nr. 119/2019,
  2. Ekki vera rekin í hagnaðarskyni (e. non-profit),
  3. Hafa sett sér lög og starfandi stjórn,
  4. Félagsmenn, styrktaraðilar eða stuðningsaðilar séu minnst 30 talsins,
  5. Hafa lagt fram staðfestan ársreikning.

Umsækjendur þurfa að uppfylla kröfur Ríkisendurskoðunar um meðferð og vörslu fjármuna á sviði þróunarsamvinnu.

Styrkfjárhæðir

Allt að 96 m.kr. eru til úthlutunar til nýrra verkefna félagasamtaka að þessu sinni, þar af allt að 15 m.kr. til kynningar- og fræðsluverkefna.

Styrkupphæð verkefna getur numið allt að 80% af heildarkostnaði verkefnis og skulu samtökin leggja til mótframlag sem nemur a.m.k. 20% af heildarkostnaði verkefnis. Opið er fyrir umsóknir til almennra þróunarsamvinnuverkefna (styttri og langtímaverkefni), nýliðaverkefna og kynningar- og fræðsluverkefna. Heimilt er að veita styrk til sama þróunarsamvinnuverkefnis til allt að fjögurra ára, með fyrirvara um fjárheimildir fjárlaga hvers árs. Nýliðastyrkir eru ætlaðir félagasamtökum sem ekki hafa áður hlotið styrk frá ráðuneytinu. Geta þeir hæst numið 4 m.kr. og eru veittir til eins árs. Styrkir til kynningar- og fræðsluverkefna eru veittir til afmarkaðra og tímabundinna verkefna, ekki lengur en til eins árs í senn og geta hæst numið 2 m.kr.

Atriði sem þurfa að koma fram í umsókn

Vísað er í reglur utanríkisráðuneytisins um styrkveitingar utanríkisráðuneytisins til félagasamtaka og fyrirtækja í þróunarsamvinnu nr. 1035/2020 og þar til gerðar verklagsreglur vegna styrkja til þróunarsamvinnuverkefna og aðrar leiðbeiningar sem eru að finna á www.utn.is/felagasamtok.

Umsókn og öllum fylgiskjölum skal senda til utanríkisráðuneytisins á netfangið felagasamtö[email protected] Nota skal umsóknareyðublöð sem finna má á vef ráðuneytisins. Í umsókn skal umsækjandi lýsa með greinargóðum hætti markmiðum verkefnis sem liggur til grundvallar umsókn, áætlun um framkvæmd þess og tíma- og kostnaðaráætlun. Þá skal koma fram mat á áhrifum verkefnisins. Njóti umsækjandi annarra styrkja eða framlaga vegna verkefnisins skal gera grein fyrir slíkum framlögum eða styrkjum.

Úthlutun styrkja fer eftir þeim skilmálum sem fram koma í reglum ráðuneytisins og leiðbeiningum Ríkisendurskoðunar. Einungis umsóknir sem uppfylla skilyrði auglýsingar og úthlutunarskilmála verða teknar til greina. Um styrkveitingar til verkefna félagasamtaka í málaflokknum gilda lög um opinber fjármál nr. 123/2015 og reglugerð nr. 642/2018 um styrkveitingar ráðherra.

Matshópur, tímafrestur og áætlaður afgreiðslutími

Utanríkisráðherra úthlutar styrkjum að fengnu áliti þriggja manna matshóps.

Opið er fyrir umsóknir um styrki til þróunarsamvinnuverkefna í sex vikur, frá 18. mars til og með 29. apríl 2025. Umsóknir skulu berast beint til ráðuneytisins á [email protected]

Leiðbeiningar og nánari upplýsingar varðandi umsóknir er að finna á www.utn.is/felagasamtok.

Áætlað er að niðurstöður úthlutunar liggi fyrir í lok júní 2025. Fyrirspurnir skal senda á netfangið [email protected].

Síðast uppfært: 18.3.2025
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta