Hoppa yfir valmynd

Neyðarástand erlendis - góð ráð

Neyðarástand erlendis | Náttúruhamfarir | Borgarastyrjaldir | Hryðjuverk | Ferðaviðvaranir

Áður en haldið er af stað erlendis er mælt með því að einstaklingar kynni sér ástand á viðkomandi svæði og hvort ástæða sé til að óttast um öryggi sitt þar. Eitt af hlutverkum utanríkisráðuneytisins er að leitast við að tryggja öryggi íslenskra ríkisborgara erlendis. Með það að leiðarljósi er fylgst grannt með ástandi mála þar sem hættuástand ríkir og ástæða er til að óttast um öryggi þeirra íslensku ríkisborgara sem þar dveljast. Er hér átt við ógnir á borð við stríðsátök, borgarastyrjaldir, náttúruhamfarir, hryðjuverk eða annað álíka, sem þegar eiga sér stað eða verulegar líkur séu á að muni eiga sér stað.

Þegar ástæða er til að óttast verulega um öryggi á tilteknu svæði gefur utanríkisráðuneytið út ferðaviðvörun. Í henni er að finna ráð og upplýsingar borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins um ferðalög til svæðisins sem um ræðir.

Rétt er að taka fram að utanríkisráðuneytið gefur eingöngu út ferðaviðvaranir þegar veruleg ástæða er til að óttast um öryggi íslenskra ríkisborgara á tilteknu svæði. Utanríkisráðuneyti annarra ríkja gefa reglulega út leiðbeiningar og ráð í tengslum við ferðalög til einstakra landa og hvernig best er að tryggja öryggi sitt hverju sinni. Í þeim leiðbeiningum er iðulega að finna ítarlegri upplýsingar og ráð en í ferðaviðvörunum utanríkisráðuneytisins. Ráðuneytið mælir því með því að íslenskir ferðamenn sem hyggjast ferðast til landa þar sem öryggi þeirra kann að vera ógnað, kynni sér upplýsingar og ferðaviðvaranir sem gefnar eru út á neðangreindum vefsetrum:

Af gefnu tilefni vill borgaraþjónustan taka fram að ferðalög eru ávallt á eigin ábyrgð. Íslenskir ríkisborgarar ferðast því á eigin ábyrgð en mælt er með að þeir geri það í samræmi við útgefnar ferðaviðvaranir utanríkisráðuneytisins og annarra sem gefa út ýmis konar ferðaleiðbeininingar (þar á meðal utanríkisráðuneyta annarra landa).

Neyðaráætlun þegar upp kemur neyðarástand / neyðarástand vofir yfir

Ef upp kemur neyðarástand erlendis starfar borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins samkvæmt neyðaráætlun. Með neyðarástandi er til dæmis átt við styrjaldir, náttúruhamfarir og hryðjuverkaárásir. Með áætluninni eru verklagsreglur samræmdar og leitast er við að tryggja skjót viðbrögð sérþjálfaðra starfsmanna ráðuneytisins, sendiskrifstofa og ræðismanna. Með þessu er leitast við að staðsetja íslenska ríkisborgara erlendis, tryggja öryggi þeirra þar og eftir atvikum koma þeim á öruggan stað. 

Ef öryggi íslenskra ríkisborgara á tilteknu svæði er verulega ógnað og um alvarlegri tilfelli er að ræða, getur komið til þess að hugað verði að brottflutningi þeirra þaðan. Er slíkt unnið í samstarfi við Norður­lönd­in á grundvelli gagnkvæms samnings um aðstoð í borgara­­þjónustumálum.  

Síðast uppfært: 30.6.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum