Hoppa yfir valmynd

Aðgerðir gegn ofbeldi

Unnið er að margvíslegum aðgerðum gegn ofbeldi í íslensku samfélagi í samvinnu ráðuneyta, stofnana, sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka. Stefnumótun í málaflokknum byggist á vandaðri áætlanagerð og unnið er að viðeigandi lagabreytingum, fullgildingu alþjóðlegra samninga og samráði innanlands til að ná enn betri árangri.

Samstarf ráðuneyta

Dómsmálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og félags- og jafnréttismálaráðherra hafa skrifað undir sameiginlega yfirlýsingu um að vinna gegn ofbeldi og afleiðingum þess í íslensku samfélagi. Stýrihópur um aðgerðir gegn ofbeldi, sem skipaður er fulltrúum ráðuneytanna undir forystu velferðarráðuneytis, hefur síðustu misseri unnið að landssamráði, svæðisbundnu samráði og aðgerðaáætlun samkvæmt yfirlýsingu frá 2014. Áætlunin tekur til þeirra þátta sem samstarfsyfirlýsingin kveður á um: Vakningu, sem felur í sér forvarnir og fræðslu; viðbrögðum, sem eru verklag og málsmeðferð, og valdeflingu, sem er styrking í kjölfar ofbeldis. 

Samstarfinu er einkum ætlað að ná til ofbeldis gegn börnum, ofbeldis í nánum samböndum, kynferðislegs, andlegs og líkamlegs ofbeldis og ofbeldis gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Einnig telst hatursfull orðræða, sem hvetur til ofbeldis eða annarrar refsiverðrar háttsemi sem er lítillækkandi eða ógnandi í garð einstaklinga eða hópa fólks, til ofbeldis sem yfirlýsing þessi tekur til.

Meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins

Unnið er að aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins. Samráðshópur hefur skilað drögum að áætlun þar sem fram kemur að meginmarkmiðið er að tryggja réttaröryggi og vandaða, skilvirka og réttláta málsmeðferð, auka traust til réttarvörslukerfisins og stytta málsmeðferðartíma. Þá skal skýra verkferla innan réttarvörslukerfisins og á milli ólíkra hluta þess.

Istanbúl-samningurinn

Samningur um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi var samþykktur á vettvangi Evrópuráðsins 11. maí 2011 og undirritaður af íslenskum stjórnvöldum sama dag. 

Í mars 2016 náðist fyrsti áfangi í fullgildingu Istanbúlsamningsins  hér á landi með gildistöku breytinga á almennum hegningarlögum. Þar eru m.a. var sett í lög ákvæði um heimilisofbeldi, nauðungarhjónabönd og þvingaðar ófrjósemisaðgerðir auk breytinga er lúta að lögsögu og fyrningarreglum. Þær aðgerðir sem stjórnvöld þurfa að ráðast í til að fullgilda samninginn lúta einnig að ýmsum skyldum sem hvíla á ríkinu og þarf að formfesta. Unnið er að því að klára að kortleggja þær skyldur sem ríkið þarf að formfesta svo unnt sé að ljúka fullgildingarferlinu.

Samstarf lögreglu og sveitarfélaga

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborg vinna í sameiningu að verkefninu Saman gegn ofbeldi. Verkefnið miðar að því að vinna gegn heimilisofbeldi með því að samþætta og bæta verklag lögreglu, félagsþjónustu og barnaverndar í slíkum málum og stuðla að aukinni þekkingarmiðlun í málaflokknum. Aðrir samstarfsaðilar eru Kvennaathvarfið, Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu og Bjarkarhlíð, ný þjónustumiðstöð í Reykjavík fyrir þolendur ofbeldis. Markmið verkefnisins er m.a. að tryggja öryggi borgarbúa á heimilum sínum, veita þolendum og gerendum betri þjónustu og bæta stöðu barna og annarra í viðkvæmri stöðu sem búa við heimilisofbeldi. Í lok árs 2015 var svipuðu samstarfi í heimilisofbeldismálum komið á milli LRH og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Skilaboð lögreglu og samstarfssveitarfélaganna eru skýr: Heimilisofbeldi er ekki einkamál heldur lýðheilsuvandi og verður ekki liðið. 

Lögreglan og félagsþjónusta sveitarfélaga á Suðurnesjum hófu samstarf í febrúar 2013 um tilraunaverkefni til eins árs um nýtt verklag í heimilisofbeldismálum. Verkefnið fékk nafnið „Að halda glugganum opnum“ og hefur þetta verklag nú verið tekið upp hjá öðrum lögregluembættum hér á landi auk þess að vekja athygli út fyrir landsteinana.

 

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 4.4.2023 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum