Hoppa yfir valmynd

Búfjárhald

Í lögum um búfjárhald er mælt fyrir um vörslu búfjár, merkingu búfjár og öflun hagtalna. Með búfé er átt við alifugla, geitfé, hross, kanínur, loðdýr, nautgripi, sauðfé og svín. Matvælastofnun sker úr um ef ágreiningur rís um það hvað skuli falla undir hugtakið búfé.

Samþykktir um búfjárhald

Sveitastjórnum er heimilt að setja samþykkt um búfjárhald. Drög að samþykkt sveitarfélags um búfjárhald skal senda til matvælaráðuneytisins til staðfestingar. Ráðuneytið óskar eftir umsögn Bændasamtaka Íslands áður en samþykkt um búfjárhald er staðfest af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og birt í Stjórnartíðindum. Samþykkt sveitarfélags um búfjárhald öðlast því aðeins gildi að ráðherra hafi staðfest hana. Í samþykkt sveitarfélags er unnt að ákveða að tiltekið búfjárhald sé með öllu bannað í viðkomandi sveitarfélagi eða takmarkað á tilteknum svæðum innan sveitarfélagsins. Sveitarfélögum ber einnig að gæta að reglum um velferð dýra við gerð samþykkta um búfjárhald. Verði búfjáreigandi fyrir atvinnutjóni vegna banns eða takmarkana á búfjárhaldi skal greiða honum bætur úr sveitasjóði. Um mat bóta skal farið að hætti mats á eignarnámsbótum og sér matsnefnd eignarnámsbóta um framkvæmd matsins.

Varsla búfjár

Í lögum um búfjárhald er kveðið á um vörslu búfjár. Sveitarstjórnum er heimilt til að koma í veg fyrir ágang búfjár að ákvaða að umráðamönnum búfjár sé skylt að hafa búfé í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta ársins. Þá getur sveitarstjórn gert umráðamanni búfjár skylt að hafa búfé í vörslu í gripheldri girðingu og ber umráðamaður á að svo sé. Um uppsetningu girðinga og viðhald þeirra er kveðið á um í ákvæðum laga um girðingar. Umráðamanni búfjár er skylt að halda graðpening í vörslu sem hér segir:

  • Naut, 6 mánaða og eldri, allt árið.
  • Hrútar og hafrar, á tímabilinu frá 1. nóvember til 1. maí ár hvert.
  • Graðhestar eða laungraðir hestar, 10 mánaða og eldri, allt árið. Veturgamlir folar skulu þó ætíð vera komnir í vörslu eigi síðar en 1. júní þó að þeir séu ekki orðnir fullra 10 mánaða.
  • Aðrar búfjártegundir en framan greinir, allt árið.

Umráðamenn loðdýra skulu ávallt halda loðdýr í tryggri vörslu.

Friðuð svæði fyrir búfjárbeit

Umráðamanni lands er heimilt að ákveða að tiltekið og afmarkað landsvæði sé friðað svæði og er þá umgangur og beit búfjár þar bönnuð. Slík ákvörðun skal tilkynna til viðkomandi sveitarfélags og skal liggja fyrir umsögn búnaðarsambands um að vörslulínur séu fullnægjandi og uppfylli ákvæði laga um búfjárhald. Ákvörðun sveitarfélags um friðað svæði skal auglýsa í Stjórnartíðindum. Umráðamaður lands skal fyrir 15. júní á hverju vori framvísa til sveitarstjórnar umsögn búnaðarsambands um að vörslulína sé fullnægjandi. Um skiptingu kostnaðar við vörslulínu á landamerkjum fer eftir ákvæðum girðingar- og vegalaga. Komist búfé inn á friðað svæði ábyrgist umráðamaður lands handsömun þess
og að koma því í örugga vörslu. Umráðamaður skal einnig kanna hver sé réttur eigandi að hinu handsamaða búfé og tilkynna honum þegar í stað hvar búféð er. Hafi umráðamaður búfjár ekki fundist eða sinnt fyrirmælum um að sækja búféð innan tveggja sólarhringa frá tilkynningu er umráðamanni lands heimilt að afhenda viðkomandi sveitarstjórn búféð. Umráðamaður lands ber ábyrgð á því að búfé hafi nægilegt fóður og vatn á meðan það er í vörslu hans.

Hagtölur um búfjárhald

Í lögum um búfjárhald er kveðið á um svokallaða haustskýrslu en á hverju hausti og eigi síðar en 1. nóvember ár hvert sendir Matvælastofnun öllum umráðamönnum búfjár haustskýrslu til útfyllingar. Upplýsingarnar eru skráðar í gagnagrunninn Bústofn, en í skýrslunni skal koma fram fjöldi ásetts búfjár af hverri tegund og allt búfé í hagagöngu og á hvaða jörð eða landspildu það er. Einnig skal koma fram gróffóðuruppskera af hefðbundnum nytjatúnum og leigutúnum og fyrningar auk upplýsinga um aðra fóðuröflun. Þá skulu koma fram upplýsingar um landstærðir nytjalands. Matvælastofnun og Hagstofu Íslands er heimilt að nota upplýsingar úr skýrslunum ásamt öðrum opinberum aðilum en þá að fengnu leyfi Matvælastofnunar. Skil á haustskýrslu er einnig eitt skilyrða þess að framleiðandi samkvæmt ákvæðum búvörulaga og búnaðarlaga getur átt rétt á stuðningsgreiðslum vegna búvörusamninga.

Merkingar búfjár

Umráðamönnum búfjár er skylt að merkja búfé sitt samkvæmt viðurkenndu merkingar- og skráningarkerfi en Matvælastofnun hefur eftirlit með merkingum og skráningum búfjár. Nár er kveðið á um merkingar búfjár í reglugerð en þar er kveðið á um merkingu einstakra tegunda búfjár. Búfé er skráð í miðlægt tölvukerfi Matvælastofnunar sem heitir MARK. Merkingar búfjár eru mikilvægar til að tryggja rekjanleika búfjárafurða frá upprunahjörð og/eða fæðingu viðkomandi dýrs til sölu afurða og skapa með því grundvöll að markvissu matvæla- og búfjáreftirliti, eftirliti með flutningum búfjár, skráningu búfjársjúkdóma og meðhöndlun þeirra.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 17.4.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum