Hoppa yfir valmynd

Atkvæðagreiðsla á kjördag 27. júní 2020

Hvar á að kjósa?

Kjósandi kýs í því sveitarfélagi þar sem hann á skráð lögheimili 6. júní 2020. Eftir viðmiðunardag kjörskrár, 6. júní 2020, munu kjósendur geta kynnt sér hér á vefnum hvar þeir eru skráðir á kjörskrá.

Sveitarfélög auglýsa kjörstaði og mörg þeirra birta einnig kjörfundarupplýsingar á vefjum sínum.

Hvernig fer atkvæðagreiðslan fram?

Kjósandi mætir á kjörstað, finnur sína kjördeild, framvísar skilríkjum (t.d. ökuskírteini eða vegabréfi), lætur merkja við nafni sitt á kjörskrá og fær kjörseðil. Að því búnu fer hann með kjörseðilinn inn í næsta lausa kjörklefa.

Í kjörklefanum er blýantur sem kjósandi notar til þess að setja kross á kjörseðilinn framan við nafn þess frambjóðanda sem hann vill kjósa. Það er ekki sérstakur reitur til að setja krossinn í en mikilvægt er að krossinn sé settur fyrir framan nafn frambjóðanda. Athugaðu að ekki má rita neitt annað á kjörseðilinn eða gera á honum breytingar. Slíkt getur valdið ógildi atkvæðisins. 

Þegar kjósandi hefur gert kross fyrir framan nafn þess frambjóðanda sem hann vill kjósa brýtur hann seðilinn í sama brot og hann var í þegar kjósandinn tók við honum þannig að letrið snúi inn, gengur út úr kjörklefanum, að atkvæðakassanum og leggur seðilinn í kassann í viðurvist fulltrúa kjörstjórnar. Kjósandi skal gæta þess að enginn geti séð hvernig hann greiddi atkvæði. 

Myndband með leiðbeiningum um atkvæðagreiðslu á kjördag

Hvað ef kjósandi gerir mistök á kjörseðlinum eða einhver sér hvernig hann greiddi atkvæði?

Ef einhver sér hvað er á kjörseðlinum áður en kjósandi setur hann í kassann er seðillinn ónýtur og hann á rétt á að fá nýjan og fara aftur inn í kjörklefa. Hið sama gildir ef kjósandi hefur gert einhver mistök við ritun á kjörseðilinn. Þá þarf kjósandinn að skila fyrri seðlinum til kjörstjórnar.

Ef kjósandi þarf aðstoð við að kjósa?

Í kjörklefanum er spjald með blindraletri með upphleyptu nafni hvers frambjóðanda. Þá eiga þeir sem geta ekki merkt sjálfir við á kjörseðlinum sínum, vegna sjónleysis eða þess að þeir geta ekki notað hönd til að fylla út kjörseðilinn, rétt á aðstoð í kjörklefanum.

Ef kjósandi er ekki fær um að kjósa hjálparlaust vegna sjónleysis eða þess að hann getur ekki ritað á kjörseðilinn með eigin hendi getur hann tilnefnt einn úr kjörstjórninni til að veita sér aðstoð í kjörklefanum. Sá sem aðstoðina veitir er bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem honum og kjósandanum fer þar á milli. Kjörstjórnarmanni er óheimilt að bjóða aðstoð að fyrra bragði en kjósandi getur óskað eftir henni.

Kjósandi getur jafnframt óskað eftir því að fulltrúi sem kjósandi hefur valið aðstoði sig í kjörklefanum og skal kjörstjórnin verða við því ef kjósandi getur með skýrum hætti tjáð þann vilja sinn. Þótt kjósandi geti ekki með skýrum hætti tjáð kjörstjórn þann vilja þinn skal kjörstjórn heimila fulltrúanum að aðstoða kjósanda við atkvæðagreiðsluna. Þá þarf kjósandi að leggja fram vottorð réttindagæslumanns, sem starfar samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, þar sem staðfest er að kjósandi hafir valið þennan tiltekna fulltrúa til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna. Sjá lista yfir réttindagæslumenn fyrir fatlað fólk á eftirfarandi vefslóð: https://www.stjornarradid.is/gaeda-og-eftirlitsstofnun/rettindagaesla-fyrir-fatlad-folk/.

Þessum fulltrúa er óheimilt að aðstoða fleiri en einn kjósanda með þessum hætti við hverjar kosningar. Fulltrúinn er bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem honum og kjósanda fer á milli í kjörklefanum. Í því skyni staðfestir hann heit sitt áður en atkvæði er greitt með undirritun á sérstakt eyðublað.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum