Hoppa yfir valmynd

Bann við mismunun

Lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar

Með lögum um jafna meðferð utan vinnumarkaðar er kveðið á um meginregluna um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar.

Lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna nr. 85/2018 voru sett árið 2018. Höfð var hliðsjón af efni tilskipunar Evrópuráðsins 2000/43/EB um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna við gerð þeirra laga. Með breytingarlögum nr. 63/2022 var þeim lögum breytt og mismununarþáttum bætt við, m. a. til samræmis við lög um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018. Með breytingarlögunum var heiti laganna breytt í lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar.

Með skýru banni við mismunun er horft til þess að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi óháð framangreindum mismununarþáttum og koma í veg fyrir félagslega einangrun einstaklinga af sömu ástæðum.

Með jafnri meðferð utan vinnumarkaðar er meðal annars átt við félagslega vernd, þar á meðal í tengslum við almannatryggingar og heilbrigðisþjónustu, félagsleg gæði, menntun, aðgengi að vörukaupum og þjónustu. Með félagslegum gæðum er meðal annars átt við tækifæri til að njóta tiltekinna gæða á vegum opinberra aðila eða einkaaðila, svo sem aðgangs að stöðum sem ætlaðir eru almenningi þar sem unnt er að njóta frístunda t.d. sundstöðum, fjölskyldugörðum, bókasöfnum og leikhúsum. Stundum er talað um almannarými í þessu samhengi.

Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði

Með lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018 er skýrt kveðið á um bann við allri mismunun fólks á vinnumarkaði, hvort heldur beina eða óbeina, á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar. Þetta þykir mikilvægt til að stuðla að virkri þátttöku sem flestra á vinnumarkaði en atvinnuþátttaka er talin ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og fátækt. Við lagasetninguna var höfð hliðsjón af tilskipun Evrópuráðsins 2000/78/EB um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífinu.

Með skýru banni við mismunun á vinnumarkaði er horft til þess að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku atvinnulífi og koma í veg fyrir félagslega einangrun einstaklinga.

Kærunefnd jafnréttismála 

Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir eða félagasamtök sem telja að ákvæði laga þessara hafi verið brotin gagnvart sér geta í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna sinna, eftir því sem við á, leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 1.3.2024 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum