Hoppa yfir valmynd

Um borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins

Hvað er borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins?

Mikilvægur þáttur í starfsemi utanríkisþjónustunnar er að veita íslenskum ríkisborgurum vernd og aðstoð gagnvart erlendum stjórnvöldum, stofnunum og einstaklingum, sbr. ákvæði laga um utanríkisþjónustu Íslands nr. 39/1971. Í þessu felst einkum að þjónustan fer með mál er varða réttindi Íslendinga og íslenska hagsmuni erlendis, samanber reglugerð nr. 177/2007 um Stjórnarráð Íslands.

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins leitast daglega við að gæta hagsmuna íslenskra ríkisborgara erlendis svo að þeir verði ekki fyrir borð bornir. Daglegum verkefnum borgaraþjónustu er sinnt af laga- og stjórnsýsluskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Í raun er borgaraþjónustan þó samstarfsverkefni skrifstofunnar, sendiráða og ræðismanna Íslands erlendis. Sem dæmi um aðstoð sem veitt er íslenskum ríkisborgurum má nefna hvers konar fyrirgreiðslu til Íslendinga og íslenskra lögaðila, t.d. útgáfa ferðaskilríkja, vottun opinberra skjala, aðstoð við Íslendinga sem lenda í vanda á erlendri grund, fyrirgreiðsla gagnvart erlendum stjórnvöldum o.s.frv.

Sendiskrifstofur Íslands sem eru 26 í 21 landi og um 220 kjörræðismenn í 90 löndum og sjálfstjórnarsvæðum ganga erinda Íslands á erlendri grund og aðstoða íslenska ríkisborgara ef nauðsyn krefur. Jafnframt hafa Norðurlöndin gert með sér samkomulag um gagnkvæma aðstoð til ríkisborgara þeirra í borgaraþjónustumálum. Á grundvelli þess geta íslenskir ríkisborgarar leitað aðstoðar norrænna sendi- og ræðisskrifstofa á stöðum þar sem Ísland hefur hvorki sendiskrifstofu né ræðismann. Með þessu leitast utanríkisráðuneytið við að tryggja íslenskum ríkisborgurum aðgang að nauðsynlegri aðstoð bjáti eitthvað á og aðstoðar er þörf.

Hvað gerir borgaraþjónustan?

Verkefni borgaraþjónustunnar eru margvísleg og felast einna helst í því að aðstoða íslenska ríkisborgara erlendis. Þessu er m.a. sinnt með ýmiss konar upplýsingagjöf áður en haldið er af stað erlendis, t.d. með upplýsingum um áritanaskyldu, gátlista fyrir ferðalagið og útgáfu ferðaviðvarana. Á meðan dvalist er erlendis er ýmiss konar tilfallandi aðstoð veitt af sendiráðum og ræðismönnum Íslands. Sem dæmi um einstök verkefni má nefna:

 • Útgáfa neyðarvegabréfa hjá sendiráðum og ræðismönnum Íslands.
 • Ýmiss konar aðstoð og milliganga við úrlausn mála í tengslum við slys, veikindi eða dauðsföll erlendis.
 • Aðstoð við að komast í samband við ættingja og vini þegar eitthvað bjátar á.
 • Aðstoð við val á læknum og heilbrigðisstofnunum erlendis.
 • Aðstoð við að komast í samband við lögfræðing og túlk erlendis.
 • Aðstoð við fanga og fjölskyldur þeirra.
 • Aðstoð og leiðbeiningar vegna millifærslu fjármuna frá Íslandi vegna einstakra neyðartilvika.
 • Ýmiss konar neyðaraðstoð og fyrirgreiðsla.

Eftirfarandi sendiskrifstofur taka við umsóknum um almenn vegabréf:

3 aðalræðisskrifstofur

Borgaraþjónustan veitir einnig ýmiss konar aðstoð og leiðbeiningar í einkaréttarlegum málum. Hér er til dæmis átt við mál er varða brottnám barna, deilur um forsjá og umgengni og staðfestingar íslenskra skjala svo þau séu tæk til notkunar erlendis.

Ef upp kemur neyðarástand erlendis starfar borgaraþjónustan samkvæmt viðbragðsáætlun. Með neyðarástandi er til dæmis átt við styrjaldir, náttúruhamfarir og hryðjuverkaárásir. Með áætluninni eru verklagsreglur samræmdar og leitast við að tryggja skjót viðbrögð sérþjálfaðra starfsmanna ráðuneytisins, sendiskrifstofa og ræðismanna. Þannig er leitast við að staðsetja íslenska ríkisborgara erlendis, tryggja öryggi þeirra þar og eftir atvikum koma þeim á öruggan stað. Sé um alvarlegri tilfelli að ræða getur komið til greina að standa að neyðarflutningi þeirra frá umræddu svæði.

Hverjum veitir borgaraþjónustan aðstoð?

Aðstoð borgaraþjónustu stendur öllum íslenskum ríkisborgurum til boða.

Hafa ber þó í huga að veitt aðstoð getur takmarkast þegar einstaklingur er með tvöfalt ríkisfang og lendir í vandræðum innan þess ríkis sem hann er jafnframt ríkisborgari í. Óski viðkomandi aðstoðar íslenskra stjórnvalda getur verið að stjórnvöld þess ríkis setji afskiptum íslenskra stjórnvalda ákveðin takmörk.

Hvað gerir borgaraþjónustan ekki?

Verkefni borgaraþjónustu eru eins misjöfn og þau eru mörg og verða ekki talin upp með tæmandi hætti. Aðstoðin felst gjarna í því að leiðbeina íslenskum borgurum erlendis þannig að þeir geti leyst mál sín sjálfir. Hér að neðan er að finna dæmi um það sem borgaraþjónustan getur ekki gert:

 • Borgaraþjónustan greiðir ekki kostnað vegna einstakra neyðartilvika íslenskra ríkisborgara erlendis. 
 • Borgaraþjónustan getur hvorki veitt lögfræðilega ráðgjöf né sinnt hlutverki lögmanns. Þó er eftir atvikum mögulegt að veita grundvallarupplýsingar um réttarkerfi og stjórnfyrirkomulag einstakra ríkja.
 • Borgaraþjónustan greiðir ekki kostnað vegna þjónustu lögfræðinga og túlka erlendis eða annan kostnað sem hlýst af málarekstri.
 • Borgaraþjónustan getur ekki haft afskipti af ákvarðanatöku og afgreiðslu einstakra mála hjá erlendum stjórnvöldum.
 • Borgaraþjónustan þýðir ekki erlend skjöl.
 • Borgaraþjónustan getur ekki veitt óviðkomandi aðilum upplýsingar um afgreiðslu einkamála sem til meðferðar eru hverju sinni. 
 • Borgaraþjónustan sér ekki um gjaldmiðlaskipti og önnur bankamál, þ.m.t. bankalán.
 • Borgaraþjónustan sér ekki um farmiða- og hótelbókanir eða um útvegun vegabréfsáritana og dvalar- og atvinnuleyfa.
 • Borgaraþjónustan sér ekki um útvegun húsnæðis og atvinnu.

Gjaldtaka vegna aðstoðar sem veitt er af borgaraþjónustu

Borgaraþjónusta innheimtir gjald vegna tiltekinnar þjónustu sem veitt er, sbr. lög nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs, einkum 14. og 15. gr.

Til að fá nánari upplýsingar um helstu verkefni borgaraþjónustu þarf að smella á hlekkina hér að neðan.

 

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira