Hoppa yfir valmynd

Auðlinda- og umhverfismál

Í utanríkisstefnu sinni leggur Ísland ríka áherslu á auðlinda- og umhverfismál. Loftslagsmál, endurnýjanleg orka, auðlindanýting, málefni hafsins og landgræðsla eru málaflokkar sem fá sífellt meira vægi og brýnt er að tryggja um þá heildstæða stefnumörkun og samræmdan málflutning. 

Nýting náttúruauðlinda hefur lagt grunninn að hagsæld Íslands. Íslendingar hafa tækifæri til þess að koma reynslu sinni og sérþekkingu á sviði sjávarútvegs og endurnýjanlegrar orku á framfæri á alþjóðavettvangi, og leggja þannig sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar.

Umfang auðlinda- og umhverfismála í starfi íslenskra stjórnvalda hefur aukist mjög á síðustu árum og eru þau orðin einn viðamesti málaflokkur alþjóðastjórnmála. Skilningur á tengslum umhverfismála við öryggismál, þróun og efnahagsbyggingu fer ört vaxandi. Jafnframt eru gerðar auknar kröfur til ríkja heims um samræmda stefnu og aðgerðir í þessum málaflokki. Alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda er því orðið eitt mikilvægasta viðfangsefni alþjóða samfélagsins í dag. Slíkt samstarf er sérstaklega mikilvægt fyrir Ísland sem byggir efnahag sinn að stórum hluta á hreinni náttúru og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.

Íslendingar búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á öllum þessum sviðum og geta lagt mikið af mörkum til úrlausnar viðfangsefna þeim tengdum á alþjóðavísu. Það er hlutverk utanríkisráðuneytisins og auðlinda- og umhverfisskrifstofu, að taka virkan þátt í alþjóðlegu starfi og samningum á breiðu sviði er tekur til sjálfbærrar þróunar, málefna hafsins, fiskveiðisamninga, hvalamála, orkumála, loftslagsmála, jarðvegsverndar og baráttunnar gegn eyðimerkurmyndun, sjálfbærrar nýtingar, verndar líffræðilegs fjölbreytileika og Norðurslóðamálefna.

Þáttur loftslagsmála hefur vaxið sérstaklega hratt. Loftslagsmálin hafa beint athygli alþjóðasamfélagsins að því hvernig umsvif mannsins hafa gjörbreytt ásýnd jarðarinnar. Skilningur alþjóðasamfélagsins á málefnum hafsins hefur sömuleiðis aukist mjög enda dylst engum mikilvægi sjávarins fyrir lífríki jarðar og loftslag. Árangur fiskveiðistefnu Íslendinga þar sem aflaheimildir byggjast á vísindaráðgjöf hefur vakið eftirtekt á alþjóðavettvangi og er gjarnan litið til Íslands sem fyrirmyndar á því sviði.

Efst á baugi

Hnignun umhverfisins, mengun og ósjálfbær nýting náttúruauðlinda eru meðal helstu ógna sem mannkynið stendur frammi fyrir. Tengsl auðlinda- og öryggismála hafa alltaf verið til staðar og verða á næstu árum og áratugum enn mikilvægari í þróun alþjóðamála. Loftslagsbreytingar með tilheyrandi breytingum á sjávarstöðu og eyðimerkurmyndun valda nú þegar mestu fólksflutningum í mannkynssögunni. Áhrif orkuskipta, frá jarðefnaeldsneyti til endurnýjanlegra orkugjafa, eru þegar merkjanleg og koma til með að breyta valdastöðu ríkja í mjög náinni framtíð. Orskuskiptin auka einnig frelsi og aðgengi einstaklinga og samfélaga að orku. 

Umhverfis- og auðlindamál eru utanríkismál því samvinna og samstarf ríkja á alþjóðavettvangi er forsenda þess að það takist að snúa frá þeirri braut sem mannkynið er á í umgengni við náttúruna, neysluvenjum og nýtingu auðlinda. Ríkjum heims er þetta ljóst enda hefur alþjóðlegum samningum, aðgerðaáætlunum, yfirlýsingum, ráðstefnum og fundum um umhverfis- og auðlindamál fjölgað jafnt og þétt á síðustu tveimur áratugum. Á alþjóðavettvangi er unnið að ýmsum lausnum og fer viðræðum og samningaumleitunum fjölgandi ár frá ári. 

Sjálfbær nýting náttúruauðlinda og heilnæmt umhverfi er stærsta hagsmunamál Íslands og forsenda sjálfstæðis í nútíð og framtíð. Í fjölbreyttum heimi er ekki einboðið að þær lausnir sem lagðar eru til á alþjóðavettvangi, hvað varðar umhverfi, auðlindir, samfélög og hagkerfi, henti allar hagsmunum Íslands. Gott dæmi er hvernig Ísland stýrir auðlindanýtingu sinni í efnahagslögsögunni, en þar hefur Ísland sérstöðu sem ekki er sjálfgefið að aðrar þjóðir hafi tök á að fylgja eftir. Það eru því miklir hagsmunir í húfi þegar rætt er um umhverfis- og auðlindamál á alþjóðavettvangi og mikilvægt að rödd Íslands heyrist.

 

Svæðisbundið samstarf á sviði umhverfismála

Ísland leggur áherslu á svæðisbundið samstarf í umhverfismálum við nágrannaríki beggja vegna Atlantshafs og í norðri. Markmið þessa samstarfs er að tryggja stöðugleika á svæðinu og efla samvinnu um sameiginleg viðfangsefni á norðurslóðum, ekki síst í umhverfis- og auðlindamálum. Starf Norðurskautsráðsins er einkar mikilvægt í þessu sambandi og er ráðið einn helsti vettvangur aðildarríkjanna til að vinna að sjálfbærri þróun og umhverfisvernd á norðurslóðum. Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu í maí 2019 og sinnir til ársins 2021. Einnig má nefna mikilvægt starf Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar, Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar (UN ECE) og Efnahags og framfarastofnunarinnar (OECD) á sviði umhverfismála.

Svæðisbundið samstarf á sviði auðlindamála

Svæðisbundnar fiskveiðistjórnunarstofnanir gegna lykilhlutverki við að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu deilistofna og víðförulla fiskistofna. Í þessu tilliti hefur Ísland virkt samstarf við nágrannalöndin til að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda nærliggjandi hafsvæða. Þetta samstarf fer fram í svæðisbundnum stofnunum.

Efst á baugi

Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi um loftslagsmál er afar mikilvæg. Málefni hafsins fengu sérstaka athygli á 23. aðildarríkjafundi loftslagssamnings SÞ (e. UN Framework Convention on Climate Change, UNFCCC) sem var haldinn í Bonn í nóvember 2017. Fiji, sem fór með formennsku á fundinum, beitti sér fyrir átakinu Ocean Pathway Partnership. Fagnaði Ísland frumkvæðinu og sagði súrnun hafsins eina helstu ógn sem tengdist loftslagsbreytingum. Eitt helsta verkefni Bonn-fundarins var að vinna að útfærslu Parísarsamningsins um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Meðal annars þarf að ganga frá reglum um bókhald og gagnsæi, svo að unnt sé að meta framlög ríkja og árangur á hlutlægan hátt. Stefnt er að því að ná niðurstöðu í þessum efnum á næsta ári en flest ríki heims hafa skilað markmiðum um það hvernig þau hyggjast takmarka losun fram til 2030. Ísland sagði í ræðu sinni að afleiðingar loftslagsbreytinga væru vel sýnilegar á Íslandi, m.a. í hopandi jöklum. Eina raunhæfa lausnin til lengdar til að takast á við súrnun hafsins og aðrar birtingarmyndir breytts loftslags væri að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hvað Ísland snerti væri forgangsmál að draga úr losun frá bifreiðum og skipum. Skógrækt, landgræðsla og önnur loftslagsvæn landnotkun væri mikilvægt tæki til ná markmiðum.

Parísarsamningurinn 

Hlýnun jarðar er ein mesta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir. Viðbrögð við loftslagsbreytingum eru því einn af meginþáttum í málflutningi Íslands á alþjóðavettvangi. Sérstök áhersla er lögð á áhrif loftslagsbreytinga á hafið og lífríki þess og á lífsafkomu á norðurslóðum.

Ísland var í september 2016 á meðal fyrstu ríkja til að fullgilda Parísarsamninginn en gildistaka samningsins verður að teljast mikilvægur áfangi fyrir heiminn. Parísarsamningurinn er stefnumörkun til framtíðar í loftslagsmálum og fyrsti lagalega bindandi samningur um loftslagsmál sem skuldbindur öll 197 aðildarríki loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (e. UN Framework Convention on Climate Change, UNFCCC). Hann nær til aðgerða ríkja eftir árið 2020, skyldar þau til þess að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga, tryggir fjármagn til loftslagsvænna lausna og aðstoð við ríki sem verða verst úti vegna áhrifa loftslagsbreytinga.

Leiðtogafundur um Parísarsamkomulagið um loftslagsbreytingar var haldinn í París í desember 2017 undir yfirskriftinni One Planet Summit og sótti forsætisráðherra hann fyrir Íslands hönd. Megintilgangur hans var vekja athygli á markmiðum samkomulagsins og átaksverkefnum sem unnið er að undir merkjum þess. Einnig er hvatt til framkvæmdar á ákvæðum samkomulagsins og hertra skuldbindinga, auk þess sem fjármögnun loftslagsverkefna var til umræðu á fundinum. Í ávarpi sínu nefndi forsætisráðherra sérstaklega markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040, nýtingu grænnar orku í samgöngum og fiskveiðum. Ísland tók undir tvær yfirlýsingar í þessu sambandi. Annars vegar skuldbindingu um að vinna að kolefnishlutleysi og að gera langtímaáætlun um róttæka minnkun losunar. Hins vegar yfirlýsingu um áætlun um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá skipum sem unnið er að á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnuninnar (e. International Maritime Organization, IMO).

Endurnýjanleg orka 

Í málflutningi á alþjóðavettvangi hafa íslensk stjórnvöld lagt mikla áherslu á mikilvægi nýtingar jarðvarma til orkuframleiðslu og aukningu á hlut endurnýjanlegrar orku í orkusamsetningu heimsins, ekki síst í ljósi þess að Íslendingar hafa til að bera sérþekkingu á þessu sviði. Leiðarljós í þessu er 7. heimsmarkmiðið um að tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði.

Sumarið 2018 fjallaði háttsettur vettvangur (e. High Level Political Forum, HLPF) um sjálfbæra þróun, innan ramma Efnahags- og félagsmálaráðs SÞ (e. Economic and Social Council, ECOSOC) um 7. heimsmarkmiðið sem er að tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði. Þema fundahaldanna er umbreyting í átt að sjálfbærum samfélögum með viðnámsþrótt. Auk 7. markmiðsins verður einnig fjallað um 6., 11., 12. og 15. heimsmarkmiðið. Undirbúningsfundur um HLPF-fundinn var haldinn í Bangkok í febrúar 2018. Á þessum vettvangi er mikilvægt að veita upplýsingar um það hvað Ísland hefur fram að færa í sérþekkingu og reynslu í þeim efnum, svo að nýtast megi í baráttunni gegn neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga, fyrir aukinni hlutdeild jarðvarma í orkunýtingu heimsbyggðarinnar og framgangi heimsmarkmiðanna.

Íslensk stjórnvöld hafa eflt samstarf sitt við fjölþjóðastofnanir sem sinna sérstaklega endurnýjanlegum orkugjöfum, einkanlega jarðvarma. Annars vegar er um að ræða Alþjóðastofnun fyrir endurnýjanlega orku (e. International Renewable Energy Agency, IRENA) með höfuðstöðvar í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Stofnunin hefur það að markmiði að flest ríki heims nýti betur endurnýjanlegra orkugjafa. Í þessu skyni var síðastliðið haust skipaður fyrsti íslenski fastafulltrúinn gagnvart IRENA. Fyrrverandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir stofnunina. Hann var einnig aðalhvatamaður að Alþjóðlega jarðvarmabandalaginu (e. Global Geothermal Alliance, GGA) sem telur 43 aðildarríki og 31 samstarfsaðila og er starfrækt á vegum IRENA.

Jarðvarmabandalagið hélt aðalfund haustið 2017 í Flórens á Ítalíu þar sem megin umfjöllunarefnið var aukin jarðvarmanýting í orkunotkun heimsins. Fyrrverandi forseti var einn aðalræðumaður fundarins. Aðalfundur IRENA var haldin í Abu Dhabi í janúar 2018 og var nýting jarðvarma meginefni á dagskrá stofnunarinnar. Fjölmargir fulltrúar á þinginu þökkuðu íslenskum stjórnvöldum fyrir aðkomu þeirra að jarðvarmanýtingu og menntun sérfræðinga frá heimalöndum þeirra. Á fundinum var m.a. rætt um jarðvarmaverkefni Íslendinga í Austur-Afríku og alþjóðlega fjármögnun þeirra.

Hins vegar er um að ræða Átak SÞ um sjálfbæra orku fyrir alla (e. Sustainable Energy for All, SE4All) í Vínarborg. Sú stofnun verður æ virkari í umræðunni um endurnýjanlega orku, og er stofnunin áhugaverður samstarfsaðili. Stofnunin hefur skapað sérstakan vettvang fyrir konur og orkumál undir yfirskriftinni People-Centered Accelerator. Íslensk stjórnvöld studdu fund vettvangsins á loftslagsráðstefnunni í Bonn í nóvember 2017, sem m.a. var haldinn í samvinnu við Landsvirkjun. Framundan er meira samstarf við SE4All um þetta.

Utanríkisráðuneytið hefur einnig stutt við ráðstefnur jarðvarmaklasans á Íslandi og var sú síðasta, Iceland Geothermal Conference, haldin í Reykjavík 24.-26. apríl 2018.

Jarðvegsmál

Ísland hefur lagt áherslu á að landgræðsla og sjálfbær nýting lands sé mikilvæg aðferð til kolefnisbindingar og þar með til að draga úr gróðurhúsalofttegundum. Helsti vettvangur til þess að auka vægi sjálfbærrar landnýtingar í heiminum er eyðimerkursamningur Sameinuðu þjóðanna (e. UN Convention to Combat Desertification, UNCCD). Reynsla og þekking Íslendinga í landgræðslu hefur nýst vel í baráttunni gegn jarðvegseyðingu og var Ísland á meðal stofnenda vinahóps eyðimerkursamningsins. Landgræðsluskóli Háskóla SÞ á Íslandi vinnur að markmiðum eyðimerkursamningsins, auk þess sem hann hefur sterk tengsl við loftslagsmálin.

Hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (e. Food and Agriculture Organization of the UN, FAO) er vistað hnattrænt samstarf um jarðvegsmál í þágu fæðuöryggis (e. Global Soil Partnership for Food Security) sem íslenskir sérfræðingar hafa tekið þátt í. Á vettvangi FAO hefur verið stuðlað að auknu samstarfi milli fastanefndanna um landgræðslumál og sjónum beint að mikilvægi jarðvegs fyrir fæðuöryggi. Ísland hefur unnið að því að auka samvinnu milli þeirra sem vinna að jarðvegsmálum hjá stofnuninni og þeirra sem vinna að framkvæmd eyðimerkursamnings SÞ. Einnig hafa samskipti við skrifstofu jarðvegsdeildar FAO verið aukin með það fyrir augum að efla samstarf við sérfræðinga á Íslandi, m.a. við Landgræðsluskólann.

Fiskveiðar og sjálfbær nýting auðlinda hafsins 

Vegna hinna miklu hagsmuna Íslendinga af sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins hefur Ísland um árabil verið leiðandi í alþjóðlegu samstarfi um málefni hafsins og fiskveiðar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ (e. Food and Agriculture Organization of the United Nations, FAO) og innan svæðisbundinnar fiskveiðistjórnunar, s.s. á vettvangi Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar (e. North East Atlantic Fisheries Commission, NEAFC) sem annast stjórn veiða úr deili- og flökkustofnum á norðaustanverðu Atlantshafi.

Málefni hafsins eru þannig orðin mun fjölþættari og víðtækari en áður. Ísland hefur undanfarið tekið þátt í reglulegum fundum um ýmis málefni hafsins, s.s. fundi fiskinefndar FAO (Committee on Fisheries, COFI), óformlegum samráðsvettvangi um málefni hafsins, aðildarríkjafundi hafréttarsamningsins, samningaviðræðum um hafréttarályktun og fiskveiðiályktun allsherjarþings SÞ, reglulegri endurskoðun á úthafsveiðisamningnum og úttekt á aðgerðum ríkja til að vernda viðkvæm botnsvæði í hafi fyrir skaðvænlegum veiðum. Þá var haldin ráðstefna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York í júní 2017 um 14. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er lýtur að hafinu.

Starfandi er samráðshópur ráðuneyta undir forystu utanríkisráðuneytisins sem sinnir stefnumótun, forgangsröðun verkefna, samræmingu fundasóknar ráðuneyta á erlendum vettvangi og samvinnu þeirra varðandi mismunandi viðfangsefni á sviði hafmála. Hópurinn vinnur nú að samræmdri stefnumörkun um málefni hafsins, m.a. varðandi mengun og umhverfisbreytingar, lífríki hafsins og sjálfbæra nýtingu, hafsbotninn, siglingar og ferðaþjónustu, sem og málefni hafsins á vettvangi þróunarsamvinnu.

Í lok árs 2017 náðist tímamótasamkomulag ríkja um stjórnun fiskveiða í Norður-Íshafi utan lögsögu ríkja, en viðræður höfðu staðið yfir í sex lotum frá því í desember 2015. Að samkomulaginu standa 10 aðilar, þ.e. Bandaríkin, Danmörk f.h. Færeyja og Grænlands, Ísland, Japan, Kanada, Kína, Noregur, Rússland, Suður-Kórea, ásamt Evrópusambandinu (ESB) og er gert ráð fyrir formlegri undirritun bindandi samnings um mitt ár 2018. Með aðild Íslands að samningnum verður í framtíðinni tryggð aðkoma Íslands að ákvarðanatöku og rannsóknasamstarfi á þessu mikilvæga hafsvæði.

Samningurinn um stjórnun fiskveiða í Norður-Íshafi nær til úthafsins og felur í sér að aðilar hans munu skuldbinda sig til að heimila ekki veiðar á samningssvæðinu fyrr en vísindarannsóknir hafa lagt grunn að sjálfbærum fiskveiðum. Einnig eru ákvæði um vísindasamstarf, vöktun fiskistofna og lífríkis í Norður-Íshafi og ákvarðanatöku um að koma á fót svæðisbundinni fiskveiðistjórnunarstofnun þegar slíkt er tímabært. Ekki er fyrirsjáanlegt að mögulegt verði að stunda fiskveiðar á samningssvæðinu á allra næstu árum en á grundvelli varúðarnálgunar er stofnað til þessa samnings nú til að fyrirbyggja stjórnlausar veiðar á þessu viðkvæma hafsvæði á komandi árum þar sem hraðar breytingar eiga sér nú stað vegna hlýnunar og bráðnunar íss. Að þessu leyti er um að ræða tímamótasamning. Með aðild Íslands að samningnum verður í framtíðinni tryggð aðkoma Íslands að ákvarðanatöku og rannsóknasamstarfi á þessu mikilvæga hafsvæði.

Ísland tekur virkan þátt í aðildarfundum Samningsins um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu (e. Convention on International Trade in Endangered Spieces of Wild Flora and Fauna, CITES). Á vettvangi samningsins hefur Ísland almennt lagst gegn listunartillögum á nytjastofnum sjávar á þeim forsendum að fiskveiðistjórnun sé ekki á valdsviði CITES-samningsins heldur sé það á ábyrgð einstakra ríkja og fiskveiðistofnana að koma á betri stjórnun og tryggja sjálfbæra nýtingu. Þessi sjónarmið voru undirstrikuð í málflutningi Íslands á 17. aðildarríkjaþingi samningsins í Jóhannesarborg í Suður-Afríku.

Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndin (NEAFC)

Tæpur þriðjungur verðmæta íslensks sjávarútvegs á rætur að rekja til fiskistofna sem semja þarf um nýtingu á við aðrar þjóðir á grundvelli úthafsveiðisamningsins (e. „UN Fish Stocks Agreement“). Nú er svo komið að engir samningar eru í gildi milli þjóða á norðaustanverðu Atlantshafi um heildarstjórn veiða úr mikilvægustu deilistofnunum, þ.e. makríl, norsk-íslenskri síld og kolmunna. Viðræður strandríkja hafa um árabil ekki skilað samkomulagi milli þjóðanna um stjórn veiðanna. Það helgast m.a. af miklum umhverfisbreytingum í hafinu, sem leitt hafa til breyttrar útbreiðslu og göngumynsturs þessara mikilvægu fiskistofna, en einnig skortir skýr viðmið um skiptingu aflaheimilda. Afleiðingin er sú að ríkin hafa sett sér einhliða aflaheimildir sem í heild nema tugum prósenta umfram vísindaráðgjöf. Ljóst er að þessi ofveiði getur stórlega skert afrakstur þessara fiskistofna, ef fram heldur sem horfir. Ísland hefur tekið umtalsvert frumkvæði í því að þoka viðræðum strandríkjanna í samkomulagsátt og mun halda áfram þeirri viðleitni.

Á ársfundi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (e. North East Atlantic Fisheries Commission, NEAFC) í nóvember 2017 lagði Ísland enn sem fyrr áherslu á að stöðva veiðar á karfa á Reykjaneshrygg en fyrir fundinum lá ráðgjöf frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (e. International Council for the Exploration of the Sea, ICES) um að engar veiðar skyldu stundaðar næstu tvö árin. Um er að ræða tvo aðskilda karfastofna sem báðir hafa verið ofveiddir um árabil og eru í verulegri hættu ef ekkert er að gert. Rússland hefur ekki viljað viðurkenna stofnmat ráðsins og hefur undanfarin ár sett sér einhliða kvóta sem er tvisvar til þrisvar sinnum meiri en samanlögð veiði hinna veiðiþjóðanna. Ekki náðist samkomulag um að stöðva karfaveiðarnar og var sett 6.500 tonna heildaraflamark fyrir 2018. Ljóst er að Rússar munu mótmæla þeirri stjórnun og raunverulegar heildarveiðar verða því líklega nálægt 30,000 tonnum.

Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin er áfram leiðandi meðal svæðisbundinna fiskveiðistjórnunar-stofnana að því er varðar vernd viðkvæmra vistkerfa hafsins, s.s. kóralla. Á ársfundi nefndarinnar í nóvember 2017 var m.a. framlengd svæðalokun fyrir botnveiðarfæri á stórum svæðum á úthafinu. Sem fyrr er það stefna Íslands að ná samningum við hluteigandi þjóðir um heildarstjórn og skiptingu á hverjum og einum deilistofni sem Íslendingar eiga réttmæta kröfu á að nýta í samvinnu við aðrar þjóðir. Þar skulu höfð að leiðarljósi sanngjörn sjónarmið Íslands sem strandríkis og þjóðar með mikla sjávarútvegshagsmuni, auk sjálfbærni- og varúðarsjónarmiða.

Fiskimál á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofununar SÞ (FAO)

Ísland lauk þriggja ára setu í stjórn Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ (e. Food and Agriculture Organization of the UN, FAO) á miðju ári 2017. Samvinna milli Íslands og fiski- og fiskeldisdeildar stofnunarinnar jókst verulega á því tímabili en það er mikilvægt þegar kemur að því að gæta hagsmuna Íslands og vinna að framgangi málefna hafsins. Einkum á þetta við þegar kemur að framkvæmd 14. heimsmarkmiðsins um verndun og sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins. Deildin sinnir einnig fiskeldi á heimsvísu en hlutur þess í fiskframleiðslu fer ört vaxandi og er nú orðinn um 45% á móti 56% frá fiskveiðum.

Hlutverk FAO er tvíþætt, annars vegar er stofnunin alþjóðlegur vettvangur fyrir stefnumörkun í sjálfbærri nýtingu auðlinda og hins vegar vinnur hún með og veitir aðildarríkjum sérfræðiaðstoð. Ísland hefur gjarnan lagt meiri áherslu á fyrri þáttinn, enda varða ákvarðanir ríkja á vettvangi FAO hagsmuni Íslands. Í málefnum hafsins er FAO einn mikilvægasti vettvangurinn en þar getur Ísland beitt sér fyrir bættri umgengni og sjálfbærari nýtingu auðlinda hafsins. Seinni þátturinn er verulega stór hluti verkefna fiskimáladeildarinnar og fær deildin til þess umtalsverð frjáls framlög frá aðildarríkjunum. Evrópusambandið veitir stór framlög, auk þess sem Svíþjóð, Holland og Ítalía veita fjármunum beint til verkefna. Japan er einnig mikilvægur samstarfsaðili, auk Noregs, sem hefur kostað rekstur rannsóknaskipsins Fridtjof Nansen síðan 1975 og stundað rannsóknir í lögsögum þróunarríkja undir stjórn FAO. Norsk stjórnvöld hleyptu af stokkunum nýju rannsóknarskipi til verkefnisins á síðasta ári.

Fiskinefnd FAO (e. Committee on Fisheries, COFI) er helsti alþjóðlegi vettvangurinn fyrir stefnumörkun en þar eru áherslur deildarinnar ákveðnar til tveggja ára í senn. Nefndin kemur saman á tveggja ára fresti og er næsti fundur í júlí nk. Frá síðasta fundi, árið 2016, hafa aðildarríkin náð nokkrum mikilvægum áföngum í viðleitni sinni til að bæta umgengi og nýtingu hafsins. Á aðalráðstefnu stofnunarinnar 2017 voru endanlega samþykktar leiðbeiningar um gerð veiðivottorðakerfa en samningaviðræðum lauk árið 2016. Í febrúar 2018 lauk síðan samningaviðræðum um leiðbeiningar fyrir merkingar veiðarfæra. Báðar þessar leiðbeiningar eru mikilvægar í baráttunni gegn ólöglegum fiskveiðum og munu nýtast samningnum um aðgerðir hafnríkja til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar (e. Agreement on Port State Measures to Prevent, Deter and Eliminate Illegal, Unreported and Unregulated Fishing, PSMA). Á síðasta ári var haldin fyrsta aðildarríkjaráðstefna þess samnings. Áfram var unnið að þróun alheimsskrár fiskiskipa, verkefni sem fengið hefur stuðning frá Íslandi, og hefur frumgerð þeirrar skrár verið opnuð á netinu. Áfram hefur verið unnið að því að efla samstarf við FAO á sviði þróunarsamvinnu en þar kemur helst til greina samvinna á milli Sjávarútvegsskólans og fiskideildar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ.

Líffræðileg fjölbreytni í hafinu utan lögsögu ríkja

Sameinuðu þjóðirnar hafa boðað til alþjóðlegrar ráðstefnu í september 2018 um gerð nýs framkvæmdasamnings undir hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni í hafinu utan lögsögu ríkja (e. Conservation and Sustainable Use of Biodiversity of Areas Beyond National Jurisdiction, BBNJ). Um er að ræða mjög víðtækt efnissvið því framtíðarsamningur um BBNJ mun snerta hafrétt, allar gerðir hafrannsókna, umhverfismál, líffræðilega fjölbreytni, líftækni og erfðaefni í lífrænum auðlindum, einkaleyfarétt, o. m. fl. Ísland tók virkan þátt í starfi undirbúningsnefndar um þetta málefni sem lauk störfum í júlí 2017 og mun leggja mikla áherslu á fulla og virka þátttöku í ráðstefnunni.

Bláa hagkerfið

„World Seafood Congress“ (WSC) fór fram í Reykjavík 11. – 13. september 2017. „Nýtt tækifæri fyrir höfin“ var yfirskrift fundar innan ramma WSC hinn 12. september sem haldinn var í boði utanríkisráðuneytisins, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, FAO og Matís. Þetta var í fyrsta sinn sem ráðstefnan var haldin á Norðurlöndum. Meginefni fundarins var 14. heimsmarkmiðið um hafið. Utanríkisráðherra flutti inngangsorð og sagði sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins vera meginatriði í utanríkisstefnunni. Einnig tók hann þátt í ráðherrafundi að lokinni WSC-ráðstefnunni með sendinefndum frá Bangladess, Grænhöfðaeyjum, Costa Rica, Nígeríu, Malasíu, Kanada, Nova Scotia, Nýfundnalandi og Labrador, Prince Edwardeyju í Kanada, framkvæmdastjórn ESB, FAO, Alþjóðabankanum, Norrænu ráðherranefndinni, Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Iðnþróunarstofnun SÞ (UNIDO). Meginumræðuefni fundarins var hvernig vinna megi að framgangi bláa hagkerfisins og nýta á bestan hátt möguleika hafsins, auk þess að leiða saman sjávarútvegsráðherra frá ólíkum löndum.

Utanríkisráðherra lagði áherslu á tryggja sjálfbæra þróun efnahags- og viðskiptalífs á norðurslóðum í sátt við umhverfið á svæðinu í ávarpi á Hringborði norðurslóða (e. Arctic Circle Assembly) í Reykjavík í október 2017. Utanríkisráðherra lagði höfuðáherslu á að tryggja sjálfbæra og friðsamlega þróun á norðurslóðum á sama tíma og augu beindust í æ ríkari mæli að svæðinu. Gæta yrði að umhverfinu, óvíða væru áhrif loftslagsbreytinga sýnilegri en þar og að breytingarnar hefðu svo aftur áhrif um allan heim. Alþjóðleg samvinna ríkja væri lykillinn að því að takast á við þær.

Hvalveiðar

Hvalveiðar Íslendinga byggja á meginreglunni um sjálfbæra nýtingu á lifandi auðlindum í hafi. Hvalveiðum Íslendinga er einungis beint að stórum hvalastofnum í góðu ástandi þ.e. hrefnu og langreyði. Veiðarnar byggjast á vísindarannsóknum, þær eru sjálfbærar, undir ströngu eftirliti og í samræmi við alþjóðalög. Nánar um hvalveiðar.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira