Hoppa yfir valmynd

Auðlinda- og umhverfismál

Í utanríkisstefnu sinni leggur Ísland ríka áherslu á auðlinda- og umhverfismál og er aukin áhersla lögð á þátttöku á alþjóðavettvangi í þeim málaflokkum. Þátttaka og framlag til umræðunnar er forsenda þess að hlustað sé á sjónarmið og hagsmuni Íslands. Í stefnu stjórnvalda er sérstök áhersla lögð á málefni hafsins, aðgerðir í loftslagsmálum, grænar lausnir, endurnýjanlega orku, matvælaframleiðslu, heilnæmt umhverfi og baráttuna við jarðvegseyðingu.

Nýting náttúruauðlinda hefur lagt grunninn að hagsæld Íslands. Íslendingar hafa tækifæri til þess að koma reynslu sinni og sérþekkingu á sviði sjávarútvegs og endurnýjanlegrar orku á framfæri á alþjóðavettvangi, og leggja þannig sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar.

Umfang auðlinda- og umhverfismála í starfi íslenskra stjórnvalda hefur aukist mjög á síðustu árum og eru þau orðin einn viðamesti málaflokkur alþjóðastjórnmála. Skilningur á tengslum umhverfismála við öryggismál, þróun og efnahagsbyggingu fer ört vaxandi. Jafnframt eru gerðar auknar kröfur til ríkja heims um samræmda stefnu og aðgerðir í þessum málaflokki. Alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda er því orðið eitt mikilvægasta viðfangsefni alþjóðasamfélagsins í dag. Slíkt samstarf er sérstaklega mikilvægt fyrir Ísland sem byggir efnahag sinn að stórum hluta á hreinni náttúru og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.

Íslendingar búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á öllum þessum sviðum og geta lagt mikið af mörkum til úrlausnar viðfangsefna þeim tengdum á alþjóðavísu. Það er hlutverk utanríkisráðuneytisins og auðlinda- og umhverfisskrifstofu, að taka virkan þátt í alþjóðlegu starfi og samningum á breiðu sviði er tekur til sjálfbærrar þróunar, málefna hafsins, fiskveiðisamninga, hvalamála, orkumála, loftslagsmála, jarðvegsverndar og baráttunnar gegn eyðimerkurmyndun, sjálfbærrar nýtingar, verndar líffræðilegs fjölbreytileika og Norðurslóðamálefna.

Þáttur loftslagsmála hefur vaxið sérstaklega hratt. Loftslagsmálin hafa beint athygli alþjóðasamfélagsins að því hvernig umsvif mannsins hafa gjörbreytt ásýnd jarðarinnar. Skilningur alþjóðasamfélagsins á málefnum hafsins hefur sömuleiðis aukist mjög enda dylst engum mikilvægi sjávarins fyrir lífríki jarðar og loftslag. Árangur fiskveiðistefnu Íslendinga þar sem aflaheimildir byggjast á vísindaráðgjöf hefur vakið eftirtekt á alþjóðavettvangi og er gjarnan litið til Íslands sem fyrirmyndar á því sviði.

Efst á baugi

Hnignun umhverfisins, mengun og ósjálfbær nýting náttúruauðlinda eru meðal helstu ógna sem mannkynið stendur frammi fyrir. Tengsl auðlinda- og öryggismála hafa alltaf verið til staðar og verða á næstu árum og áratugum enn mikilvægari í þróun alþjóðamála. Loftslagsbreytingar með tilheyrandi breytingum á sjávarstöðu og eyðimerkurmyndun valda nú þegar mestu fólksflutningum í mannkynssögunni. Áhrif orkuskipta, frá jarðefnaeldsneyti til endurnýjanlegra orkugjafa, eru þegar merkjanleg og koma til með að breyta valdastöðu ríkja í mjög náinni framtíð. Orskuskiptin auka einnig frelsi og aðgengi einstaklinga og samfélaga að orku. 

Umhverfis- og auðlindamál eru utanríkismál því samvinna og samstarf ríkja á alþjóðavettvangi er forsenda þess að það takist að snúa frá þeirri braut sem mannkynið er á í umgengni við náttúruna, neysluvenjum og nýtingu auðlinda. Ríkjum heims er þetta ljóst enda hefur alþjóðlegum samningum, aðgerðaáætlunum, yfirlýsingum, ráðstefnum og fundum um umhverfis- og auðlindamál fjölgað jafnt og þétt á síðustu tveimur áratugum. Á alþjóðavettvangi er unnið að ýmsum lausnum og fer viðræðum og samningaumleitunum fjölgandi ár frá ári. 

Sjálfbær nýting náttúruauðlinda og heilnæmt umhverfi er stærsta hagsmunamál Íslands og forsenda sjálfstæðis í nútíð og framtíð. Í fjölbreyttum heimi er ekki einboðið að þær lausnir sem lagðar eru til á alþjóðavettvangi, hvað varðar umhverfi, auðlindir, samfélög og hagkerfi, henti allar hagsmunum Íslands. Gott dæmi er hvernig Ísland stýrir auðlindanýtingu sinni í efnahagslögsögunni, en þar hefur Ísland sérstöðu sem ekki er sjálfgefið að aðrar þjóðir hafi tök á að fylgja eftir. Það eru því miklir hagsmunir í húfi þegar rætt er um umhverfis- og auðlindamál á alþjóðavettvangi og mikilvægt að rödd Íslands heyrist.

 

Svæðisbundið samstarf á sviði umhverfismála

Ísland leggur áherslu á svæðisbundið samstarf í umhverfismálum við nágrannaríki beggja vegna Atlantshafs og í norðri. Markmið þessa samstarfs er að tryggja stöðugleika á svæðinu og efla samvinnu um sameiginleg viðfangsefni á norðurslóðum, ekki síst í umhverfis- og auðlindamálum. Starf Norðurskautsráðsins er einkar mikilvægt í þessu sambandi og er ráðið einn helsti vettvangur aðildarríkjanna til að vinna að sjálfbærri þróun og umhverfisvernd á norðurslóðum. Ríki Norðurskautsráðsins skiptast á að fara með formennskuhlutverk í tvö ár í senn. Einnig má nefna mikilvægt starf Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar, Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar (UN ECE) og Efnahags og framfarastofnunarinnar (OECD) á sviði umhverfismála.

Svæðisbundið samstarf á sviði auðlindamála

Svæðisbundnar fiskveiðistjórnunarstofnanir gegna lykilhlutverki við að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu deilistofna og víðförulla fiskistofna. Í þessu tilliti hefur Ísland virkt samstarf við nágrannalöndin til að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda nærliggjandi hafsvæða. Þetta samstarf fer fram í svæðisbundnum stofnunum.

Íslensk stjórnvöld styðja við átak Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra orku fyrir alla (Sustainable Energy for All, SE4All) og eru með aðild að Alþjóðastofnuninni um endurnýjanlega orku (International Renewable Energy Agency, IRENA), sem er með höfuðstöðvar í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Samstarf við orkugeirann á Íslandi hefur verið aukið með það að markmiði að koma íslenskri þekkingu á endurnýjanlegri orku betur á framfæri í þróunarríkjunum.

Efst á baugi

 Í október 2018 var undirritaður tímamótasamningur um stjórn fiskveiða utan lögsögu ríkja og samstarf um fiskirannsóknir og vöktun fiskstofna í Norður-Íshafi. Þar með lauk meira en tveggja ára samningaviðræðum um þennan mikilvæga samning. Að samkomulaginu standa tíu þjóðir og ríkjabandalög, þ.e. Bandaríkin, Danmörk (fyrir hönd Færeyja og Grænlands), Ísland, Japan, Kanada, Kína, Noregur, Rússland, Suður-Kórea og Evrópusambandið. 

Samningurinn nær til úthafsins og felur í sér að aðilar hans skuldbinda sig til að heimila ekki veiðar á samningssvæðinu fyrr en vísindarannsóknir hafa lagt grunn að sjálfbærum fiskveiðum hopi ísinn þar enn frekar og möguleikar til fiskveiða skapast. Stofnað var til samnings á grundvelli varúðarnálgunar til að fyrirbyggja stjórnlausar veiðar á þessu viðkæma hafsvæði á komandi árum þar sem hraðar breytingar eiga sér stað vegna hlýnunar og bráðnunar íss. Í samningnum eru ákvæði um vísindasamstarf, fyrirkomulag tilraunaveiða, vöktun fiskstofna og umhverfis, upplýsingaskipti og ákvarðanatöku varðandi hvort og hvenær koma skal á fót svæðisbundinni stofnun um stjórn fiskveiða. 

Fiskinefnd FAO (Committee on Fisheries, COFI), sem kemur saman til fundar á tveggja ára fresti á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), átti fund í júlí 2018. Fundinn sækja ávallt, auk fulltrúa utanríkisráðuneytisins, fulltrúar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Nefndin er eini alheimsvettvangurinn, fyrir utan allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York, þar sem fjallað er um málefni fiskveiða og fiskeldis. Á fundinum lagði Ísland áherslu á mikilvægi FAO í samstarfi ríkja, stofnunin væri best til þess fallin að aðstoða aðrar stofnanir og verkefni Sameinuðu þjóðanna í umhverfis- og auðlindamálum hafsins. Stofnunin gegnir mikilvægu hlutverki í að aðstoða ríki við uppbyggingu svæðisbundinna stofnana fiskveiðistjórnar. Á fundinum var Ísland kosið í framkvæmdaráð nefndarinnar sem starfar milli funda og situr fastafulltrúi Íslands hjá FAO í Róm í ráðinu.

Árið 2018 var áfram unnið að því að efla samstarf við FAO á sviði þróunarsamvinnu með sérstaka áherslu á að aðstoða þróunarstrandríki og smáeyríki við innleiðingu alþjóðasamnings hafnríkja um aðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar. Skrifað var undir samning við FAO um fjárstuðning til verkefnisins fyrr á þessu ári.

Hvalveiðar

Hvalveiðar Íslendinga byggja á meginreglunni um sjálfbæra nýtingu á lifandi auðlindum í hafi. Hvalveiðum Íslendinga er einungis beint að stórum hvalastofnum í góðu ástandi þ.e. hrefnu og langreyði. Veiðarnar byggjast á vísindarannsóknum, þær eru sjálfbærar, undir ströngu eftirliti og í samræmi við alþjóðalög. Nánar um hvalveiðar.

Aðalfundur Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem haldinn er annað hvert ár, var haldinn í Florianopolis í Brasilíu í september 2018. Á fundinum voru samþykktar veiðiheimildir til hvalveiða, svokallaðar frumbyggjaveiðar, fyrir Bandaríkin, Rússland, Grænland og St. Vincent og Grenadíneyjar. Samþykkt var einnig að við endurnýjun veiðiheimilda, eftir að sjö ára tímabili lýkur, skyldi eingöngu byggjast á vísindalegu mati á stöðu viðkomandi hvalastofna. Evrópusambandið, Ástralía og fleiri ríki féllu frá þeirri stefnu að mat á sjálfsþurftarþörf þeirra samfélaga sem stunda hvalveiðar sé forsenda þess að hægt sé að samþykkja veiðiheimildir. Hópur ríkja í Rómönsku-Ameríku gat ekki samþykkt breytinguna, en hún var samþykkt í atkvæðagreiðslu. Tillaga Japans um breytingar á Alþjóðahvalveiðiráðinu, til að leysa úr þeirri pattstöðu sem lengi hefur einkennt ráðið, var felld í atkvæðagreiðslu. Þá var tillaga Brasilíu og fleiri ríkja um sérstakt griðasvæði hvala í Suður-Atlantshafi einnig felld. Stjórnvöld í Japan tilkynntu snemma árs 2019 að þau hefðu tekið ákvörðun um að segja sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu.

Íslensk stjórnvöld styðja við átak Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra orku fyrir alla (Sustainable Energy for All, SE4All) og eru með aðild að Alþjóðastofnuninni um endurnýjanlega orku (International Renewable Energy Agency, IRENA), sem er með höfuðstöðvar í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Samstarf við orkugeirann á Íslandi hefur verið aukið með það að markmiði að koma íslenskri þekkingu á endurnýjanlegri orku betur á framfæri í þróunarríkjunum.
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira