Hoppa yfir valmynd

UN Women

Almennt 

UN Women tók formlega til starfa 1. janúar 2011, en stofnunin varð til við samruna fjögurra fjögurra stofnana sem unnu að kynjajafnréttismálum innan SÞ, þar á meðal UNIFEM. Stofnunin er í fararbroddi í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna á heimsvísu og er eina stofnun SÞ sem vinnur eingöngu að jafnrétti kynjanna, en stofnunin hefur þríþætt hlutverk.Hún starfar á vettvangi, sinnir samræmingarhlutverki meðal stofnana SÞ og er leiðandi í stefnumótun SÞ á alþjóðavettvangi um málaflokkinn. Ísland leggur mikla áherslu á jafnrétti kynjanna á heimsvísu og ráðuneytið telur í því samhengi mikilvægt að styðja við þessa áherslustofnun. Ísland var fjórða stærsta gjafaríki stofnunarinnar árið 2015 þegar kjarnaframlögin voru skoðuð miðað við höfðatölu, en framlög Íslands til UN Women jukust um helming frá stofnun þess árið 2011 til ársins 2016.

Efst á baugi

Í gildi er rammasamningur milli íslenskra stjórnvalda og UN Women, stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna. Ísland hefur lagt áherslu á að auka vægi kjarnaframlaga sem svar við beiðni UN Women um að framlagsríki dragi úr eyrnamerkingum framlaga en með því getur stofnunin brugðist hraðar við breyttum aðstæðum og forgangsraðað verkefnum betur. Á þeim forsendum er framlögum Íslands til UN Women í Afganistan og Palestínu beint í almenna framkvæmd ársáætlana skrifstofanna tveggja. Ísland hefur stutt við Eid bi Eid-verkefni UN Women í Jórdaníu frá árinu 2015 þar sem konur á flótta frá Sýrlandi fá atvinnutækifæri, menntun og daggæslu fyrir börn sín á svokölluðum griðarstöðum í Zaatari- og Azraq-flóttamannabúðunum. Verkefnið felur meðal annars í sér rekstur lítillar miðstöðvar þar sem konur koma saman og vinna til dæmis handverksvinnu. Afraksturinn er síðan seldur til efnahagslegrar valdeflingar kvennanna. Þá fjármagnaði Ísland stöðu sérfræðings sem vinnur að málefnum flóttamanna á skrifstofu UN Women í Tyrklandi á árunum 2017–2019. Einnig er stutt við verkefni fyrir sýrlenskar flóttakonur sem hafa flúið til Tyrklands og beinist að því að framfylgja jafnréttisskuldbindingum í mannúðarstarfi, þar á meðal á grundvelli heimsmarkmiðanna og ályktunar nr. 1325 um konur, frið og öryggi.

UN Women í Mósambík vinnur að framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi með stuðningi frá Íslandi og Noregi, en samningur er í gildi árin 2017–2020. UN Women vinnur með þarlendum stjórnvöldum að því að tryggja að hugað sé að jafnrétti og valdeflingu kvenna og stúlkna í ferlum og áætlunum sem stuðla að friði, öryggi og endurreisn í Mósambík. Þá styður Ísland fjárhagslega við verkefni UN Women sem snúa að pólitískri valdeflingu kvenna í þróunarríkjum með fjölbreyttum aðgerðum. Samstarfssamningur milli utanríkisráðuneytisins og landsnefndar UN Women á Íslandi gildir út árið 2019 en auk kynningar- og fræðslumála veitir landsnefndin samkvæmt samningnum almenna ráðgjöf og umsögn vegna málefna á alþjóðavettvangi og fræðir útsenda sérfræðinga á vegum Íslensku friðargæslunnar og mannúðaraðstoðar um jafnréttismál og framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum