Hoppa yfir valmynd
09. júní 2023 Brussel-vaktin

Gervigreind, tollkerfi, málefni flótta- og farandsfólks o.fl.

 Að þessu sinni er fjallað um:

 • væntanlega löggjöf um gervigreind
 • heildarendurskoðun á tollkerfi Evrópusambandsins (ESB)
 • tímamótaáfanga í málefnum flótta- og farandsfólks
 • aðild ESB að Istanbúlsamningnum
 • löggjafartillögur á sviði siglingaöryggis
 • tafalausar millifærslur í evrum
 • þátttöku Íslands í InvestEU áætluninni
 • styrkveitingu úr LIFE áætlun ESB til Íslands
 • stefnumörkun ESB á sviði geðheilbrigðismála
 • tillögu um siðanefnd ESB
 • nýja skýrslu Evrópuþingsins um aðgerðir gegn kolefnislosun í sjávarútvegi
 • drög að afleiddri reglugerð um samræmdar kröfur til ferðaskipulagningakerfa
 • drög að dagskrá júnífundar leiðtogaráðs ESB
 • Pop-up sendiráð í Amsterdam

Löggjöf um gervigreind í farvatninu

Innan stofnana ESB er nú stefnt að því að samþykkja nýja heildstæða ESB-löggjöf um gervigreind (e. Artificial Intelligence) fyrir árslok. Takist það verður það fyrsta heildstæða löggjöf á þessu sviði innan sambandsins og jafnvel í heiminum öllum og mun löggjöfin þannig marka tímamót.

Tillaga að reglugerðinni var lögð fram af framkvæmdastjórn ESB í apríl 2021 og hefur hún síðan verið til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB. Samhliða reglugerðartillögunni lagði framkvæmdastjórnin jafnframt fram orðsendingu til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar þar sem lögð var fram stefnumörkun um nálgun ESB í gervigreindarmálum almennt.

Reglusetning um gervigreind hefur verið á aðgerðarlista núverandi framkvæmdastjórnar ESB allt frá því að stjórnin tók við í lok árs 2019 og er verkefnið hluti af aðgerðaráætlun stjórnarinnar á sviði stafrænnar framþróunar (e. A Europe fit for the digital age). Í febrúar 2020 birti framkvæmdastjórnin Hvítbók um gervigreind þar sem lagður var grunnur að þeirri vinnu sem nú sér fyrir endann á. Í hvítbókinni eru sett fram tvö megin stefnumið fyrir ESB á þessu sviði. Annars vegar að búa þróun gervigreindar framúrskarandi vaxtarumhverfi (e. ecosystem of excellence) og hins vegar að sett verði regluverk um gervigreind er skapi traust á tækninni (e. ecosystem of trust), sbr. nánari umfjöllun um efni hvítbókarinnar í Vaktinni 4. mars 2020.

Fyrirliggjandi tillaga framkvæmdastjórnar ESB endurspeglar þessar áherslur enda þótt áherslan í reglugerðartillögunni sé, eðli þeirra vegna, fremur á traustþáttinn. Í tillögunni er sett fram skilgreining á gervigreind sem felur í stórum dráttum í sér að gervigreind sé hugbúnaður eða hugbúnaðarkerfi sem getur dregið rökréttar ályktanir, m.a. á grundvelli tölfræði- og líkindareiknings og lært af fenginni reynslu (vélanám). Til að tryggja að skilgreining gervigreindar veiti nægilega skýr viðmið og til að greina hana frá öðrum og einfaldari hugbúnaði, er skilgreiningin afmörkuð við hugbúnaðarkerfi sem þróuð eru með vélanámsaðferðum og rökfræði- og þekkingaraðferðum. Þá eru settar fram reglur sem miða að því að herða reglur um gæði gagna, gagnsæi, mannlegt eftirlit og ábyrgð. Gerðinni er einnig ætlað að taka á siðferðilegum álitaefnum og áskorunum við beitingu gervigreindar á ýmsum sviðum samfélagsins, meðal annars við veitingu heilbrigðisþjónustu, menntunar og fjármálaþjónustu o.s.frv.

Í tillögunni er lagt til að heimilt verði að leggja á háar sektir á framleiðendur gervigreindarhugbúnaðar og þá sem miðla aðgangi að slíkum búnaði ef farið er gegn ákvæðum reglugerðarinnar og geta sektir numið allt að 30 milljónum evra eða 6% af alþjóðlegum tekjum viðkomandi aðila. Að senda rangar eða villandi upplýsingar til eftirlitsaðila getur jafnframt leitt til sektarálagningar.

Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir því að komið verði á fót evrópsku gervigreindarráði (e. European Artificial Intelligence Board) sem ætlað er að hafa umsjón með framkvæmd reglugerðarinnar og tryggja samræmda innleiðingu og framkvæmd hennar í aðildarríkjunum. Er ráðinu jafnframt ætlað að gefa út álit og tilmæli um álitamál sem upp koma við framkvæmdina og veita yfirvöldum í aðildarríkjunum leiðbeiningar.

Væntanlegri reglugerð er ætlað að draga úr líkum á því að gervigreind valdi samfélagslegum skaða á sama tíma og henni er ætlað að hvetja til jákvæðrar samfélagslegrar nýsköpunar á sviði gervigreindartækni. Í þeirri tvíþættu markmiðssetningu birtist stærsta áskorunin sem við er að glíma við reglusetningu á þessu sviði og stjórnvöld um allan heim glíma nú við. Annars vegar að ná jafnvægi á milli annars vegar nauðsynlegra takmarkanna til að vernda fólk og samfélagslega innviði og hins vegar að gæta þess að þær sömu takmarkanir komi ekki í veg fyrir að hægt verði að þróa og nýta gervigreindina með jákvæðum hætti fyrir fólk og samfélög en þar eru möguleikarnir gríðarlegir. Þá þarf að gæta þess að regluverkið skaði ekki alþjóðlega samkeppnisstöðu ESB og innri markaðarins á þessu sviði.  

Tillagan byggir á áhættumiðaðri nálgun og setur skyldur á framleiðendur gervigreindarhugbúnaðar og þá sem miðla henni í hlutfalli við það hversu mikla áhættu eða skaða gervigreindin er talin geta skapað eða valdið. Með þessu verða gervigreindarkerfi sem teljast búa yfir óásættanlegri áhættu fyrir öryggi fólks og samfélagslega innviði bönnuð.

Eins og áður segir er tillaga framkvæmdastjórnarinnar nú til umfjöllunar í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB. Hefur ráðherraráð ESB þegar mótað afstöðu sína til tillögunnar, sbr. fréttatilkynningu frá ráðiðnu 6. desember sl. og er nú jafnframt gert ráð fyrir að Evrópuþingið samþykki nefndarálit um afstöðu þingsins til tillögunnar á þingfundi í næstu viku. Þegar Evrópuþingið hefur samþykkt afstöðu sína til tillögunnar munu þríhliða viðræður Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnarinnar um endanlega gerð reglugerðarinnar hefjast.

Í fyrirliggjandi nefndaráliti um afstöðu þingsins eru lagðar til ýmsar breytingar á tillögu framkvæmdastjórnarinnar. Þannig eru m.a. lagðar til meiri takmarkanir heimilaðri virkni gervigreindarhugbúnaðar en gert er í tillögu framkvæmdastjórnarinnar, t.d. á sviði lífkennaeftirlits eftirlits (e. Biometric surveillance), á sviði tilfinningagreiningar (e. emotion recognition), og á sviði beitingar forvirkra rannsóknarheimilda af hálfu lögreglu.

Eins og áður segir þá er nú stefnt að því að því innan stofnana ESB að ljúka meðferð málsins fyrir lok þessa árs og hefur m.a. komið fram í fjölmiðlum að afgreiðsla málsins verði meðal helstu forgangsverkefna spænsku formennskunnar, en Spánn mun taka við formennsku í ráðherraráði ESB 1. júlí nk.

Í tilefni þessara greinarskrifa ákváðu greinarhöfundar Brussel-vaktarinnar að spyrja hina margumtöluðu ChatGTP gervigreindar-spjallvélina hvaða tilgangi hún þjónaði og hún svaraði orðrétt á lóðréttri íslensku:

„Ég er tilgangslaust máliðlaðandi verkfæri sem ætlað er að hjálpa fólki með upplýsingaleit, svara spurningum og veita almennar þjónustu. Ég get hjálpað þér með margt, svo sem að gefa upplýsingar um ýmsa málefni, leysa vandamál eða einfaldlega vera samræðuaðili. Ég er tilbúinn að læra og aðlaga mig að því sem þú þarft hjálp við, svo spyrðu bara hvað sem er á hjarta þér!“

Ef fólk er ekki sátt við svarið sem það fær í fyrstu tilraun getur það beðið um endurunnið svar, það var prófað:

„Tilgangur minn er að hjálpa fólki með mismunandi spurningum, gefa upplýsingar og styðja þá í að leysa vandamál eða fá betri skilning á einhverju. Ég er ætlaður að vera eins og einhvers konar "smartur vinur" sem er til staðar til að svara spurningum og veita leiðsögn á mismunandi sviðum, frá almennri þekkingu og ráðgjöfum um þema sem eru til ræðu, upp í aðstoð við verkefni eða hugmyndir sem einstaklingurinn er að vinna í. Ég er hér til að vera viðburður á netinu sem getur bæði skemmt og auðgað þig á mismunandi vegu.“

Köttur út í mýri

setti upp á sér stýri

Heildarendurskoðun á tollkerfi ESB

Um miðjan maí sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögur að heildarendurskoðun á tollkerfi bandalagsins (e. EU Customs Reform), einni þeirri umfangsmestu frá upptöku kerfisins árið 1968. Tollkerfi ESB hefur sætt gagnrýni mörg undanfarin ár fyrir að vera þunglamalegt, gamaldags, flókið og ógagnsætt og alls ekki í stakk búið til að gegna hlutverki sínu í viðskiptalífi nútímans. Á meðan erlend vöruviðskipti hafa vaxið gífurlega á umliðnum árum, ekki síst rafræn viðskipti (e. e-commerce), hefur tollkerfið ESB lítið breyst.

Tillögurnar eru metnaðarfullar og standa vonir til þess að hið nýja tollkerfi, sem tillögurnar mæla fyrir um, geti jafnvel orðið fyrirmynd að nýju alþjóðlegu tollkerfi er kemur að vöruviðskiptum þar sem byggt verður á söfnun upplýsinga í sameiginlegan gagnagrunn. Er álitið að slíkt geti einfaldað til muna tollafgreiðslu vörusendinga fyrirtækja sem hafa áunnið sér traust á grundvelli upplýsingamiðlunar inn í kerfið. Þá er talið að með því að aðlaga kerfið að rafrænni þróun verði hægt að hraða afgreiðsluferlum til mikilla muna, einfalda eftirlit og draga úr tollsvikum og hvers kyns ólöglegum innflutningi svo sem vopna og fíkniefna.

Tillögurnar er að finna í drögum að nýrri reglugerð um tollskrá og evrópsk tollyfirvöld sem fellir úr gildi núgildandi tollagerð (No 952/2013) verði sú nýja samþykkt. Auk þess þarf að gera breytingar á tveimur öðrum reglugerðum, þ.e. um fjarsölu vara og afnám gjaldfrelsis verðlítilla sendinga og á einni tilskipun um virðisaukaskatt. Nýja reglugerðin er merkt EES-tæk af hálfu framkvæmdastjórnar ESB enda þó EES/EFTA ríkin séu ekki hluti af tollabandalagi ESB. Sú niðurstaða er til skoðunar í vinnuhópi EFTA um tollamál.

Áhættugreining og eftirlit eru grunnstefin í tillögum framkvæmdastjórnarinnar og að baki áhættugreiningu þurfi að liggja áreiðanleg gögn. Er lagt til að ný stofnun verði sett á fót sem fari með yfirstjórn tollamála í ESB og haldi utan um og reki nýja miðlæga tollupplýsingagátt (e. EU Customs Data Hub), sem verði grunnurinn að baki nýja tollakerfinu. Það þýðir að með tímanum mun tollupplýsingagáttin koma í staðinn fyrir þau hefðbundnu tollakerfi sem nú eru í notkun í aðildarríkjum ESB. Talið er að sú aðgerð ein og sér muni spara aðildarríkjunum samanlagt 2 milljarða evra (300 milljarða króna) í rekstrarkostnað árlega. Þá er rétt að vekja athygli á að þessar tillögur fela ekki aðeins í sér aðlögun að rafrænni þróun heldur eru þær líka taldar umhverfisvænar (minni pappírsnotkun o.fl.). Þá ættu þær sömuleiðis að auka samkeppnishæfni á innri markaði ESB. Tillögurnar leiða einnig til þess að afgreiðslutími gagnvart fyrirtækjum styttist til mikilla muna auk þess sem afgreiðsluferlið verður einfaldara sem sparar þeim tíma og peninga. Upplýsingagáttin ætti einnig að gera endurnýtingu gagna mögulega.

Í kynningu framkvæmdastjórnarinnar á tillögunum er talað um að þær byggi á þremum meginstoðum. Stoð I felur í sér að settur er á fót nýr samvinnuvettvangur með atvinnulífinu (e. new partnership with business). Þar er fyrst og fremst átt við nýja tollastofnun og nýju tollupplýsingagáttina, sem verður sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Tilkoma hennar mun leiða til þess að hægt verður að afgreiða vörur inn á innri markað ESB með mjög lítilli aðkomu tollyfirvalda án þess að gefa eftir öryggiskröfur eða varnir gegn tollundandrætti eða -svikum. Innflytjendur, sem reynast traustsins verðir (e. Trust and Check’ traders), munu jafnvel geta komið vörum sínum í umferð án aðkomu tollyfirvalda. Vert er að vekja athygli á því að þetta nýja kerfi er viðbót eða styrking á því kerfi sem nú þegar er til staðar sem gengur undir íslenska nafninu “viðkenndir rekstraraðilar” (e. Authorised Economic Operators - AEO).

Stoð II felur í sér að tekin er upp nútímalegri nálgun við tolleftirlit (e. a smarter approach to customs checks). Nýja kerfið gerir tollyfirvöldum kleift að fá betri yfirsýn yfir aðfangakeðju og framleiðsluferla tiltekinna vara sem fluttar eru inn á innri markaðinn. Þá munu aðildarríkin hafa aðgang að upplýsingunum samtímis og verða þannig betur í stakk búin til að bregðast sameiginlega við yfirvofandi hættu. Gervigreind verður notuð við greiningu gagna í tollupplýsingagáttinni sem ætti að spara yfirvöldum mikinn tíma sem væri þá hægt að nýta í virkar aðgerðir gegn innflutningi á ólöglegum varningi og bættri innheimtu aðflutningsgjalda.

Stoð III felst í nýrri nálgun á rafræn viðskipti (e. a modern approach to e-commerce). Þar er lagt til að vefsíður (e. online platforms) verði ábyrgðaraðilar fyrir greiðslu þeirra aðflutningsgjalda og annarra krafna sem leggjast á vörur seldar á vefnum og fluttar eru til aðildarríkja ESB. Hér er um ræða grundvallarbreytingu frá gildandi reglum þar sem umrædd skylda er lögð á neytandann/kaupandann eða flutningsaðilann. Með þessu verður vefsíðan í raun gerð að innflytjanda sem rukkar neytandann um endanlegt verð strax við upphaf kaupanna. Þannig á neytandinn að geta verið viss um að óvæntir kostnaðarliðir við afhendingu vöru bætist ekki við eins og algengt er í dag. Samhliða þessari breytingu er lagt til að gildandi fjárhæðarviðmið um gjaldfrjálsan innflutning, sem í dag er 150 evrur (22.500 kr.) á hverja vörusendingu, verði afnumið. Talið er að verðmæti allt að 65% af vörusendingum sem sagðar eru vera undir þessu fjárhæðarviðmiði hafi verið undirverðlagðar í upplýsingagjöf til tollyfirvalda til að komast hjá greiðslu aðflutningsgjalda.

Samkvæmt tillögunum er gert ráð fyrir að ný tollyfirvöld og tollupplýsingagáttin verði tilbúin þannig að afgreiða megi rafræn viðskipti vefsíðna frá og með árinu 2028 með framangreindum hætti. Árið 2032 eiga síðan aðrir rekstraraðilar að geta nýtt sér hana án þess að krafa sé gerð um það. Árið 2035 fer fram úttekt á því hvernig kerfið hefur reynst með það fyrir augum að gera notkun þess að skyldu frá og með árinu 2038.

Framangreindar tillögur eru nú til meðferðar í ráðherraráði ESB og á Evrópuþinginu.

Tímamótaáfangi í málefnum flótta- og farandsfólks

Ráðherrar innanríkismála funduðu á vettvangi ráðherraráðs ESB í Lúxemborg í gær, fimmtudaginn 8. júní. Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, sótti fundinn fyrir Íslands hönd, þar sem málefni Schengen-svæðisins og svonefndur hælispakki ESB (e. The Pact on migration and asylum) voru til umræðu. Framkvæmdastjórn ESB kynnti Schengen stöðuskýrslu fyrir árið 2023 en fjallað var um þá skýrslu í Vaktinni 26. maí sl. Ráðherrar ræddu sértaklega eftirlits- og stjórnunarhætti á Schengen-svæðinu og voru almennt sammála um mikilvægi þess að aflétta eftirliti á landamærum gagnvart Rúmeníu og Búlgaríu á næsta Schengen-tímabili 2023-2024, mikilvægi skilvirkari brottvísana einstaklinga í ólögmætri för og aukinnar lögreglusamvinnu þegar kemur að skipulagðri brotastarfsemi og fíkniefnaviðskipum. Á fundinum voru áritanamálin einnig til umræðu og þá einkum nýleg orðsending framkvæmdastjórnar ESB frá 23. maí sl. um eftirlit með þeim ríkjum sem njóta áritanafrelsis inn á Schengen-svæðið (e. Communication on the monitoring of the Eu´s visa free regimes). Í orðsendingunni kemur fram að heimildin til að veita áritanafrelsi inn á svæðið hafi almennt í för með sér efnahagslegan, félagslegan og menningarlegan ávinning fyrir aðildarríki Schengen og viðkomandi þriðjuríki. Evrópa hafi þó þurft að takast á við miklar áskoranir þegar kemur að ákveðnum ríkjum sem njóta áritanafrelsis inn á svæðið og þá einkum þegar kemur að fjölda umsækjenda um vernd og ógn við innra öryggi. Það er mat framkvæmastjórnar ESB að það þurfi að endurmeta þetta kerfi, þ.e. heimildina til að veita þriðja ríki áritanafrelsi og gera ferlið við að víkja því til hliðar skilvirkara auk þess að auka þarf eftirlit og skýrslugjöf með þeim þriðjuríkjum sem fengið hafa áritanafrelsi inn á svæðið. Ráðherrar voru almennt sammála um að nýta þyrfti áritanastefnuna betur og fögnuðu áformum framkvæmdastjórnarinnar um að leggja fram tillögur að endurbættum reglum um áritanamál seinni hluta þessa árs.

Áður hefur verið fjallað um áætlun ESB um útlendingamál í Vaktinni 2. desember sl. Líkt og þar er rakið hafa ýmsir áfangar náðst frá því að hún var fyrst lögð fram árið 2016 en erfiðast hefur þó reynst að ná samstöðu meðal aðildarríkja ESB um nýjar samábyrgðarreglur þar sem m.a. yrði endurskoðað hvernig  ábyrgðinni og kostnaði sem fylgir straumi flótta- og farandsfólks yfir ytri landamæri Schengen er skipt á milli aðildarríkja ESB. Þau náðu loks saman eftir langar samningaviðræður um lykilþætti áætlunarinnar, þ.e.a.s. um tvær stærstu reglugerðirnar sem varða m.a. samábyrgðarreglur, einfaldari málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd og skyldubundna flýtimeðferð á ytri landamærum. Nú þegar aðildarríkin hafa náð saman um málið á vettvangi ráðherraráðs ESB geta hafist þríhliða viðræður við Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB um lokaútgáfu reglugerðanna hafist.

Aðild ESB að Istanbúlsamningnum samþykkt

Eins og fjallað var um í Vaktinni 24. febrúar sl. hefur ESB unnið að því um nokkurt skeið að fullgilda aðild sambandsins að Istanbúlsamningnum, þ.e. samningi Evrópuráðsins (e. Council of Europe) um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi. Þann 1. júní sl. náðist loks lokaniðurstaða í málinu er ráðherraráð ESB samþykkti tvær ráðsákvarðanir um aðildina og mun samningurinn öðlast gildi innan vébanda ESB rúmum þremur mánuðum eftir að fullgildingarskjalið hefur formlega verið afhent Evrópuráðinu til varðveislu.

Nýjar löggjafartillögur á sviði siglingaöryggis

Framkvæmdastjórn ESB hefur birt tillögur um breytingar á fimm aðskildum gerðum sem ætlað er að endurbæta regluverk um siglingaöryggi og koma í veg fyrir mengun frá skipum. Þrátt fyrir að siglingaöryggi sé almennt talið gott og að meiri háttar umhverfisslys, svo sem í formi olíumengunar hafi verið fátíð er árlega tilkynnt um fleiri en 2000 slys og óhöpp í siglingum innan ESB. Er tillögunum ætlað að færa aðildarríkjunum ný úrræði til þess að stuðla að umhverfisvænum og nútímalegum siglingum. Þeim er jafnframt ætlað að færa löggjöf EES til samræmis við alþjóðlega löggjöf á þessu sviði, stuðla að jafnri samkeppnisstöðu, bættri útfærslu löggjafarinnar og eftirfylgni með innleiðingu á stafrænni tækni og aukinni samvinnu aðildarríkja. Lagt er til að Siglingaöryggisstofnun Evrópu, EMSA, fái veigamikið hlutverk við innleiðingu og framkvæmd nýju reglnanna. Nýi siglingapakkinn samanstendur af eftirfarandi tillögum:

 • Lagðar eru til skýrari kröfur til skipaskoðana af hálfu skráningarríkis eða fánaríkis (e. flag State inspections) í samræmi við alþjóðlegar reglur á því sviði auk þess sem nánar er kveðið á um hlutverk EMSA við þjálfun skipaskoðunaryfirvalda. Tillagan greiðir auk þess fyrir aukinni miðlun upplýsinga meðal aðildarríkja um niðurstöðu skoðana og hvort kröfur séu uppfylltar í einstaka tilvikum.
 • Reglur um hafnaríkiseftirlit eru endurskoðaðar og útvíkkaðar þannig að þær dekki betur ákvæði alþjóðlegra samþykkta á því sviði, svo sem nýrrar samþykktar um kjölfestuvatn, um setlög (e. sediments) og brottnám skipsflaka. Tillagan uppfærir auk þess ákvæði um forgangsröðun skipaskoðana með aukinni áherslu á umhverfisþætti við áhættumat og forgangsröðun. Öðrum ákvæðum tillögunnar er ætlað að auka getu aðildarríkja við að greina og bregðast við frávikum frá kröfum og stöðlum um öryggi og umhverfisvernd. Lagt er til að gildissvið reglna um hafnaríkiseftirlit og sjóslysarannsóknir verði útvíkkað þannig að það nái til fiskiskipa yfir 24 metra að lengd.
 • Einnig er lagt til að aðildarríki skuli tilkynna um alvarleg sjóslys fiskiskipa undir 15 metrum að lengd og greina hvaða mögulega lærdóm megi af þeim draga. Þá er lagt til að starfsemi fánaríkiseftirlits og hafnaríkiseftirlits verði stafræn og upptaka stafrænna skírteina verði auðvelduð.
 • Lagt er til að EMSA veiti yfirvöldum innan aðildarríkjanna er sinna slysarannsóknum aukna aðstoð m.a. með því að hópur sérfræðinga á mismunandi sérsviðum á vegum stofnunarinnar verði þeim aðgengilegur, sé þess óskað, auk sértækra verkfæra og tækja.
 • Þá eru lagðar til breytingar á ákvæðum tilskipunar um hlutverk EMSA til að það endurspegli betur vaxandi hlutverk stofnunarinnar á sviði siglingaöryggis, mengunarvarna, umhverfisverndar, loftlagsbreytinga, siglingaverndar, aðgerðarstjórnunar á neyðarstund og við innleiðingu á stafrænni tækni. Meðal annars er gert ráð fyrir að stofnunin verði framkvæmdastjórn ESB og aðildarríkjum til aðstoðar við útfærslu reglna um viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir siglingar og reglna um vistvænt eldsneyti í siglingum.

Framangreindar löggjafartillögur hafa jafnframt verið birtar í samráðsgátt ESB og er frestur til að senda inn umsögn út júlímánuð að jafnaði. Sjá nánar hér, hér, hér, hér og hér.

Tafalausar millifærslur í evrum

Í október sl. kynnti framkvæmdastjórn ESB tillögur að nýrri reglugerð sem hefur það markmið að einstaklingar og fyrirtæki geti millifært evrur án tafar (e. Instant Payments in euro) eigi þeir bankareikning í aðildarríki ESB og EES/EFTA ríki á hagkvæman og öruggan hátt. Í skýringum með reglugerðinni segir að með henni verði einstaklingum gert kleift að millifæra fjármuni alla daga ársins hvenær sem er sólarhringsins á innan við 10 sekúndum. Er það mikil breyting frá því sem gildir í dag þar sem millifærsla getur tekið allt upp í þrjá virka daga. Hagkvæmni fyrir neytendur nái reglugerðin fram að ganga verður því augljóslega mikil. Gagnvart fyrirtækjum, ekki síst litlum og meðalstórum, bæta tillögurnar verulega peningaflæði innan fjármálakerfisins sem dregur úr kostnaði. Talið er að næstum 200 milljarðar evra séu læstar eða fastar í fjármálakerfinu á hverjum degi. Í byrjun árs 2022 voru aðeins um 11% af millifærslum í evrum framkvæmdar án tafar þannig að til mikils er að vinna. Nýlega tölur fyrir árið í ár eru í kringum 14%. 

Tillögurnar fela í sér einskonar nútímavæðingu á gildandi reglugerð frá árinu 2012 um „Single Euro Payments; SEPA“ en EFTA ríkin eru öll aðilar að SEPA. Hins vegar er mjög mismunandi milli aðildarríkja ESB hvort boðið sé upp á millifærslur án tafar og sömuleiðis er kostnaður vegna þeirra mishár eftir ríkjum. Þessi staða kemur í veg fyrir að kerfið virki eins og til var ætlast sem er meginástæðan að baki tillögunum nú. Framtíð evrópsks fjármálamarkaðar (e. Capital Market Union) veltur líka að vissu leyti á að umræddar tillögur nái fram að ganga.

Reglugerðin, sem er talin EES-tæk, er nú til meðferðar í Evrópuþinginu og í Ráðherraráði ESB, sem hefur þegar mótað afstöðu til málsins. Reglugerðin er nú sömuleiðis til umfjöllunar í vinnuhópi EES/EFTA um fjármálaþjónustu.

Þátttaka Íslands í InvestEU áætluninni

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur undirritað samninga við framkvæmdastjórn ESB um þátttöku Íslands í InvestEU áætluninni. Samhliða samningum við Ísland tókust samningar milli ESB og Noregs um þátttöku í áætluninni og eru ríkin tvö þar með þau fyrstu utan ESB til að taka þátt í áætluninni.

InvestEU áætlunin er nýr hluti af samstarfsáætlunum ESB á sviði rannsókna og nýsköpunar fyrir tímabilið 2021-2027 og hafa þrettán eldri stuðnings- og hvatakerfi ESB m.a. verið felld undir hatt InvestEU til gagnsæis og einföldunar.

Ábyrgðarsjóður InvestEU hefur heimildir til ábyrgða upp á 26 milljarða evra og er honum ætlað að virkja fjárfestingar upp á um 370 milljarða evra, þar af eru um 30% ábyrgða eyrnamerktar til loftlagsverkefna. Undirbúningur fyrir þátttöku Íslands í áætluninni hefur átt sér stað í samvinnu þriggja ráðuneyta þ.e. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og utanríkisráðuneytis.

Þátttaka Íslands, og Noregs jafnframt, í áætluninni byggir á reglugerð ESB um áætlunina nr. 2021/523 en heimild fyrir þátttöku Íslands og Noregs var staðfest með upptöku gerðarinnar í bókun 31 við EES-samninginn er fjallar um samvinnu EES/EFTA-ríkjanna og ESB á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins. Jafnframt hvílir aðildin á tvíhliða samningi milli Íslands og framkvæmdastjórnar ESB um þátttöku og fjárframlag Íslands.

Með þátttöku í áætluninni er opnað fyrir aðgang íslenskra aðila að ábyrgðarsjóðnum og mun háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hafa forgöngu um kynningu á málinu fyrir mögulegum hagaðilum á Íslandi þ. á m. opinberum aðilum og sveitarfélögum.  Sérstök áhersla er lögð á stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki, samfélagslega þátttöku og samkeppnishæfni evrópska hagkerfisins.

Evrópski fjárfestingabankinn (e. European Investment Bank - EIB) og Evrópski fjárfestingasjóðurinn (e. EuropeFan Investment Fund - EIF) munu annast 75% af heildaráætluninni. EIB er ætlað að veita bæði beinar og óbeinar lánveitingar en EIF óbeinar. Óbeinar fjárveitingar yrðu í gegnum milliliði (t.d. sjóði eða banka í þátttökulöndunum). Norræni fjárfestingabankinn (e. Nordic Investment Bank - NIB) er jafnframt framkvæmdaraðili hvað beina lánveitingu varðar.

Fyrsti styrkur úr LIFE áætlun ESB til Íslands

Ísland hefur ásamt hinum EES/EFTA-ríkjunum (Liechtenstein og Noregi) tekið þátt í samstarfsáætlunum ESB allt frá upphafi EES-samstarfsins árið 1994 og eru samningar um þátttöku landanna endurnýjaðir með reglubundnum hætti.

Yfirstandandi tímabil er frá 2021 til 2027. Samstarfsáætlununum er ætlað að styrkja rannsóknir og nýsköpun, veita fólki á öllum aldri færi á að stunda nám í öðru Evrópulandi og ýta undir samskipti á milli fyrirtækja, stofnana og einstaklinga í Evrópu.

Þátttaka Íslands í áætlunum ESB hefur haft jákvæð áhrif til eflingar vísinda-, mennta- og menningarsamstarfsemi á Íslandi sem erfitt er að meta til fjár.

Þessar áætlanir eru af ýmsum toga s.s. Horizon Europe, Erasmus +, Digital Europe, Civil Protection, Single Market Programme, EU4Health, Creative Europe, European Solidarity Corps, European Social Fund+  sbr. einnig nýr samningur Íslands um þátttöku í InvestEU áætlunni, sem sérstaklega er fjallað um hér að framan í Vaktinni. Árið 2021 gerðist Ísland þátttakandi í LIFE áætluninni (e. LIFE Programme) sem styður við verkefni á sviði loftslags- og umhverfismála.

Verkefnið Terraforming LIFEhlaut nýverið styrk upp á tæpan milljarð íslenskra króna frá LIFE áætlun ESB og er það fyrsti verkefnisstyrkur LIFE til íslensks verkefnis. Um er að ræða samstarfsverkefni Landeldis hf., Bændasamtakanna, Orkídeu, Ölfus Cluster og SMJ frá Færeyjum með stuðningi frá Blue Ocean Technology í Noregi. Verkefnið miðar að því að þróa nýja aðferð til að framleiða áburð og lífgas úr þeim lífræna úrgangi sem fellur til við fiskeldi á landi og úr landbúnaði. Það eflir hringrásarhagkerfi innlendrar matvælaframleiðslu, samhliða því að minnka kolefnisspor og stuðla að umtalsvert jákvæðari umhverfisáhrifum bæði í landbúnaði og fiskeldi.

Kostnaður við þátttöku Íslands í LIFE áætlun ESB er um 65 m.kr. á ári í 7 ár, frá 2021 til 2027. Kostnaður Íslands við þátttöku í öllum samstarfsáætlunum ESB er áætlaður um 3,7 milljarðar króna á ári.

Stefnumörkun ESB á sviði geðheilbrigðismála

Þann 7. júní sl. birti framkvæmdastjórn ESB orðsendingu til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar og svæðanefndarinnar um þverfaglega stefnu í geðheilbrigðismálum. Markmið stefnuskjalsins er að styrkja enn frekar stoðir evrópskt samstarfs á sviði heilbrigðismála (e. European Health Union).

Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, boðaði framangreinda stefnumörkun í stefnuræðu sinni síðasta haust þar sem hún hvatti til nýs átaks í geðheilbrigðismálum með eftirfarandi orðum m.a.: „Við þurfum að hugsa betur hvort um annað. Fyrir þá sem þjást af kvíða og þunglyndi þarf viðeigandi og aðgengileg úrræði á viðráðanlegu verði. Það getur skipt sköpum.“

Fyrir tíma kórónuveirufaraldursins glímdu um 84 milljónir manna innan ESB við geðheilbrigðisvanda af einhverju tagi, eða 1 af hverjum 6 einstaklingum. Þá liggur fyrir að 27% starfsfólks á vinnumarkaði ESB upplifir streitu í starfi. Á þeim fordæmalausu tímum sem faraldurinn skóp versnaði ástandið. Heimsfaraldurinn setti aukinn þrýsting á geðheilsu fólks, sérstaklega á meðal ungmenna og þeirra sem veikir eru fyrir. Árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu og afleiðingar þess hefur síðan gert stöðuna enn verri. Áætlaður árlegur kostnaður vegna geðheilbrigðisvanda nemur 600 milljörðum evra eða um 4% af þjóðarframleiðslu aðildarríkja. Því er spáð að hann haldi áfram að vaxa ef ekkert verður að gert.

Orðsendingin grundvallast á þremur megin stoðum:

 1. Að staðið sé fyrir fullnægjandi og árangursríkum forvörnum.
 2. Að tryggt sé aðgengi að faglegri meðferð og þjónustu á viðráðanlegu verði.
 3. Að veitt sé aðstoð við aðlögun að samfélaginu að nýju í kjölfar meðferðar.

Góð geðheilsa verður ekki tryggð með því einu að breyta heilbrigðiskerfum þjóða og er því í stefnuskjalinu leitast við að teikna þverfaglega nálgun sem miðar að því að samþætta stefnumörkun í geðheilbrigðismálum við stefnu annarra málefnasviða. Nefnd eru nokkur mikilvæg svið eins og menntun, vinnumarkaður, menning og listir, rannsóknir og nýsköpun, almannatryggingar, umhverfismál og stafræn umbreyting.

Í stefnuskjalinu er lögð áhersla á að andleg heilsa er jafn mikilvæg og líkamleg heilsa. Bent er á úrræði og leiðir sem drifið geta áfram breytingar, bætt núverandi skipulag og eftirfylgni. Þannig eru kynnt tuttugu verkefni, nefnd flaggskip, sem nýtast eiga við að raungera viðfangsefnin. Samtals áætlar framkvæmdastjórn ESB að 1,23 milljarðar evra verði ráðstafað til að framfylgja geðheilbrigðisátakinu sem orðsendingin mælir fyrir um og er gert ráð fyrir að þeir fjármunir komi úr samstarfsáætlunum ESB, EU4Health, Horizon og Horizon Europe.

Tillaga um siðanefnd ESB

Framkvæmdastjórn ESB kynnti í gær, 8. júní, tillögu um að sett verði á fót siðanefnd ESB (e. EU Ethics Body) er falið verði að annast eftirlit og eftirfylgni með því að samræmdar siðareglur og -viðmið séu virtar í æðstu stofnunum ESB.

Tillagan er sett fram í formi orðsendingar sem beint er til þeirra stofnana ESB sem hinni nýju siðanefnd er ætlað að hafa eftirlit með en það eru Evrópuþingið, leiðtogaráð ESB, ráðherraráð ESB, Dómstól ESB, Seðlabanki Evrópu, Endurskoðunarréttur ESB, efnahags- og félagsmálanefnd ESB og svæðanefnd ESB.

Gert er ráð fyrir að samræmdar siðareglur og -viðmið muni taka til eftirfarandi þátta m.a.:

 • Móttöku gjafa og boðsferða.
 • Gagnsæi í samskiptum við hagsmunaaðila.
 • Skráningu hagmuna og eigna.
 • Vörnum gegn utanaðkomandi þrýstingi sem ógnað geta sjálfstæði starfsmana.
 • Hvaða störfum starfmönnum, sem látið hafa af starfi eða embætti hjá stofnunum ESB, er heimilt að sinna og með hvaða skilyrðum.
 • Reglna um eftirlit og eftirfylgni með siðareglum og viðurlögum
 • Um skyldur hverrar stofnunar fyrir sig til að birta upplýsingar um hvernig þeir innleiða og framfylgja siðareglunum innan sinnar stofnunar.

Hefur framkvæmdastjórn ESB tilkynnt að fulltrúum allra hlutaðeigandi stofnanna ESB verði boðið til fundar 3. júlí nk. til að hefja formlegt samtal og samningaviðræður um efni tillögunnar. Náist samkomulag um tillöguna er ráðgert að frá því samkomulagi verði gengið með undirritun samnings á milli stofnanna.

Ný skýrsla Evrópuþingsins um aðgerðir gegn kolefnislosun í sjávarútvegi

Í byrjun júní kom út skýrsla, sem þingnefnd um framtíð vísinda og tækni á vegnum Evrópuþingsins lét gera um aðgerðir gegn kolefnislosun í evrópskum sjávarútvegi.

Markmið með skýrslunni eru:

 1. veita yfirsýn yfir hugsanlegar aðgerðir til að draga úr eldsneytisnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi,
 2. meta kostnað af þessum aðgerðum og mögulegan ávinning af þeim og
 3. draga fram stefnumótandi þætti til að framkvæma þessar aðgerðir.

Skýrslan var unnin af RISE, sem er rannsóknar- og ráðgjafarstofnun í Svíþjóð á sviði umhverfismála.

Í skýrslunni er farið yfir orkunotkun í sjávarútvegi, mögulegar leiðir til að draga úr orkunotkun og skoðað hvaða orkukostir geti komið í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti. Hver aðgerð er metin út frá möguleikum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og kostnaði þar að lútandi auk áskorana um hvernig þær verði best framkvæmdar. Taldar eru upp aðgerðir sem hægt væri að hrinda í framkvæmd bæði til skemmri og lengri tíma, á grundvelli vísindalegra ganga, fyrirliggjandi upplýsinga og með viðtölum við sérfræðinga.

Samkvæmt skýrslunni er talið mikilvægt að nota hagstjórnartæki, svo sem skatta, gjöld og losunarkvóta til að hvetja til orkuskipta. Bann við notkun jarðefnaeldsneytis í fiskveiðum fyrir árið 2050 er talið gefa skýran langtímahvata og skapa þær aðstæður sem nauðsynlegar eru fyrir orkuskiptin. Slíkum aðgerðum þurfa að fylgja vel útfærðar fjármögnunarleiðir fyrir grænar fjárfestingar og jöfnunaraðgerðir til að forðast aukinn skammtímakostnað. Á heildina litið er talin þörf á kerfisbundnum aðgerðum til að ná fram bættri orkunýtingu og kolefnishlutlausum sjávarútvegi án þess að þær hafi önnur neikvæð umhverfisáhrif.

Í skýrslunni er á nokkrum stöðum vísað í rannsóknir og verkefni á Íslandi á þessu sviði.

Þetta mál tengist aðgerðarpakka sem framkvæmdastjórnin kynnti í febrúar um aukna sjálfbærni og viðnámsþol í sjávarútvegi og fiskeldi sem fjallað var um í Vaktinni 24. febrúar sl.  Þess má einnig geta að Evrópuþingið gaf í byrjun júní út reifanir (e. briefing) annars vegar um verndun vistkerfa í hafinu og sjálfbærar fiskveiðar og hins vegar um orkuskipti í sjávarútvegi og fiskeldi sem innlegg í umræðuna um aðgerðarpakka framkvæmdastjórnarinnar.

Drög að reglugerð um samræmdar kröfur til ferðaskipulagningakerfa

Framkvæmdastjórnin hefur auglýst eftir umsögnum um drög að afleiddri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar um samræmdar kröfur til ferðaskipulagningakerfa þar sem notendum er gert kleift að skipuleggja og kaupa ferðir þar sem innifaldar eru mismunandi tegundir samgöngumáta. Markmiðið er að stuðla að kerfi sem auðveldar skipulagningu og útgáfu farmiða með hnökralausum hætti sem taka til eins eða fleiri samgöngumáta.

Frestur til að senda inn umsagnir er til 28. júní nk.

Drög að dagskrá júnífundar leiðtogaráðs ESB

Leiðtogaráð ESB mun koma saman til fundar í lok þessa mánaðar, 29. og 30. júní, og var undirbúningur fundarins og drög að dagskrá til umræðu á fundi Evrópumálaráðherra ESB 30. maí sl. Í næstu viku er ráðgert að Evrópuþingið fjalli um væntingar sínar til fundarins og áherslur.

Pop-up sendiráð í Amsterdam

Sendiráð Íslands í Brussel stóð fyrir pop-up sendiráði í Amsterdam í vikunni með samfelldri dagskrá menningar- og viðskiptaviðburða í nokkra daga. Jafnframt var fundað með stjórnvöldum í Haag og kynningarfundur um möguleika jarðhitanýtingar var haldinn þar. Sendiráðið hafði aðsetur miðsvæðis í Amsterdam og vakti töluverða athygli meðan það var opið. Viðburðir voru almennt vel sóttir og fengu umfjöllun í þarlendum miðlum. Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskt sendiráð sprettur upp í umdæminu með þessum hætti annars staðar en í gistiríkinu. Sendiráð Hollands í Osló stóð fyrir sama konar dagskrá á Íslandi árið 2019 og má því segja að löngu hafi verið tímabært að gjalda þeim í sömu mynt.

Dagskrá og framkvæmd pop-up sendiráðsins var unnin í nánu samstarfi við Íslandsstofu og útflutningsmiðstöðvar listgreinanna, s.s. Myndlistarmiðstöð, Sviðslistamiðstöð og Útón.

Pop-up sendiráðið í Amsterdam er opið fyrir gestum fram á sunnudag.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf fastanefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum