Hoppa yfir valmynd

Mannúðarmál

Alþjóðlegur mannúðarréttur fjallar um reglur sem miða að því, af mannúðarástæðum, að takmarka afleiðingar vopnaðra átaka. Hann verndar einstaklinga sem eru ekki aðilar að, eða taka ekki lengur þátt í, átökunum og takmarkar aðferðir við og tilhögun hernaðar. Alþjóðlegur mannúðarréttur er einnig nefndur stríðsréttur eða lög um vopnuð átök.

Alþjóðlegur mannúðarréttur á við um vopnuð átök. Hann fjallar ekki um hvort ríki megi beita vopnavaldi, en slíkt stjórnast af öðrum hluta þjóðaréttarins sem fjallað er um í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Alþjóðlegur mannúðarréttur er hluti þjóðaréttar, sem fjallar um samskipti ríkja. Þjóðaréttur samanstendur af alþjóðasamningum, venjurétti, sem eru framferðirreglur sem ríki telja bindandi, og af almennum grundvallarreglum.

Alþjóðasamningar sem banna gereyðingarvopn og viss hefðbundin vopn, þar með talið jarðsprengjur gegn liðsafla og klasasprengjur, eru hluti mannúðarréttar.

Efst á baugi

Utanríkisráðuneytið fer með formennsku í landsnefnd um mannúðarrétt sem stofnuð var í samræmi við heit stjórnvalda og Rauða krossins á alþjóðaráðstefnu Rauða krossins árið 2007. Hlutverk nefndarinnar, sem skipuð er fulltrúum dómsmálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis, auk fulltrúa utanríkisráðuneytis og Rauða kross Íslands, er að breiða út þekkingu á alþjóðlegum mannúðarrétti, vera vettvangur umræðna um alþjóðlegan mannúðarrétt og veita stjórnvöldum ráðgjöf varðandi túlkun og framkvæmd mannúðarréttar. Nefndin á fundi að jafnaði fjórum til fimm sinnum á ári og fjallar hverju sinni um ýmis málefni á sviði mannúðarréttar.

Frá árinu 2016 hefur verið unnið að framkvæmd fjögurra sameiginlegra heita sem stjórnvöld og Rauði krossinn á Íslandi settu sér fyrir tímabilið 2016–2019. Heitin varða meðal annars vernd flóttafólks frá átakasvæðum, aukna aðstoð við fórnarlömb mansals og ráðstafanir gegn fordómum gagnvart útlendingum, og til að auðvelda þeim að laga sig að samfélaginu. Vinna við ný heiti fyrir tímabilið 2020–2023 er þegar hafin í samstarfi stjórnvalda og Rauða krossins á Íslandi, meðal annars á vettvangi landsnefndarinnar. Í lok árs 2018 tóku gildi lög um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði, nr. 144/2018, en sú lagasetning hefur meðal annars það markmið að innleiða refsiákvæði Genfarsáttmálanna og Kampala-breytingarnar á stofnsamþykktum Alþjóðlega sakamáladómstólsins um brot gegn friði og var í samræmi við eitt heitanna fyrir tímabilið 2016–2019.

Samningurinn um tiltekin hefðbundin vopn (CCW)

Samningurinn um ómannúðleg vopn

Ísland er aðili að Samningnum um tiltekin hefðbundin vopn (Samningnum um bann við eða takmarkanir á notkun tiltekinna hefðbundinna vopna sem eru mjög skaðleg eða geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar frá 1980 (e. Certain Conventional Weapons Convention - CCW), eins og honum var breytt 2001, ásamt bókunum I-V (stundum nefndur samningurinn um ómannúðleg vopn):

 • Bókun I um ógeinanlegar agnir (1980)
 • Bókun II um bann við eða takmarkanir á notkun jarðsprengna, sprengigildra og annars útbúnaðar (frá 1980 með áorðnum breytingum frá 3. maí 1996)
 • Bókun III um bann eða takmarkanir á notkun íkveikjuvopna (1980)
 • Bókun IV um leysivopn sem valda blindu (1995)
 • Bókun V um sprengileifar frá stríðsátökum (2003)

Jarðsprengjusamningurinn (APLC)

Viðræður fara fram í Genf innan vébanda Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd samningsins og frekari þróun hans.

Ísland fullgilti samninginn um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn liðsafla og um eyðingu þeirra (e. Convention on the Prohibition of the Use, Stockpiling, Production and Transfer of Anti Personnel Mines and on Their Destruction), hinn 5. maí 1999 og öðlaðist hann gildi gagnvart Íslandi 1. nóvember 1999. Hann er stundum nefndur Ottawa-samningurinn. Alls eru 162 ríki aðilar.

Í samningnum eru ákvæði um að samningsaðilar skuli veita meðal annars aðstoð við að fjarlæga jarðsprengjur, þjálfun við jarðsprengjuhreinsun og aðstoð við fórnarlömb jarðsprengja.

Ísland styður takmarkanir á þróun, framleiðslu, sölu og notkun á jarðsprengjum á grundvelli jarðsprengjusamningsins frá 1997 og samningsins um viss hefðbundin vopn frá 1980. Ísland styður ennfremur:

 • Að öll ríki gerist aðilar að ofangreindum samningum.
 • Að unnið verði að því að þróa samningana frekar til þess að lágmarka mannúðarskaða af völdum jarðsprengja.
 • Aðstoð við fórnarlömb jarðsprengja.
 • Aðstoð við jarðsprengjuleit og hreinsun.

Tenglar

APLC

Klasasprengjusamningurinn (CCM)

Ísland fullgilti klasasprengjusamninginn (e. Convention on Cluster Munitions - CCM), sem var gerður í Osló 2008, hinn 15. ágúst 2015 í kjölfar þess að Alþingi heimilað fullgildingu hans með lögum nr. 83 frá 10. júlí 2015. Samningurinn gekk í gildi gagnvart Íslandi hinn 1. febrúar 2016. Klasasprengjusamningurinn hefur mikla þýðingu til þess að vernda saklausa borgara, einkum konur og börn. Klasasprengjur innihalda smásprengur sem dreifast á stór svæði og geta valdið skaða mörgum árum eftir að þeim er dreift. Fyrsta endurskoðunar ráðstefna samningsins var haldin í Króatíu í september 2015 sem var sótt af hálfu Íslands. Stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á gerð þessa samnings og framkvæmd hans. Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar hefur meðal annars tekið þátt í hreinsun klasasprengjusvæða.

Ísland studdi gerð klasasprengjusamningsins og tók þátt í samningaferlinu. Ísland hvetur önnur ríki að gerast aðilar að samningnum.

Sjá einnig Bókun V um sprengileifar frá stríðsátökum við samninginn um tiltekin hefðbundin vopn (CCW).

Gögn

Fréttir

Tenglar

CCM | CCW

Samningar o.fl. um mannúðarmál

Fórnarlömb vopnaðra átaka

 • Gen­far­samn­ing­ur um bætta með­ferð særðra og sjúkra her­manna á víg­velli, að­ild og full­gilt­ur 10. ágúst 1965, öðlaðist gildi 10. febr­úar 1966, C 16/1965
 • Gen­far­samn­ing­ur um bætta með­ferð særðra, sjúkra og skip­reika sjóliða á hafi, að­ild og full­gilt­ur 10. ágúst 1965, öðlaðist gildi 10. febr­úar 1966, C 16/1965
 • Gen­far­samn­ing­ur um með­ferð stríðs­fanga, að­ild og full­gilt­ur 10. ágúst 1965, öðlaðist gildi 10. febr­úar 1966, C 16/1965
 • Gen­far­samn­ing­ur um vernd al­mennra borg­ara á stríðs­tím­um, að­ild og full­gilt­ur 10. ágúst 1965, öðlaðist gildi 10. febr­úar 1966, C 16/1965

Aðferðir og leiðir við hernað 

 • Sátt­máli um regl­ur og venj­ur stríðs á landi, að­ild 27. nóv­em­ber 1909, stað­fest 8. des­em­ber 1955, SÍ 14
 • Gen­far­samn­ing­ur um bann við notk­un eit­ur­efna, gass og sýkla í hern­aði, full­gilt­ur 19. des­em­ber 1966, öðlaðist gildi sama dag, C 19/1966

Sjó- og lofthernaður

 • Sátt­máli um hverja deild skal gera kaup­skip­um óvina­rík­is er stríð hefst, að­ild 27. nóv­em­ber 1909, stað­fest 8. desem­ber 1955, SÍ 16
 • Sátt­máli varð­andi breyt­ingu á kaup­skip­um í her­skip, að­ild 27. nóv­em­ber 1909, stað­fest 8. des­em­ber 1955, SÍ 17
18.10.1907
 • Sátt­máli um lagn­ingu neð­an­sjáv­ar­dufla er springa við árekst­ur, að­ild 27. nóv­em­ber 1909, stað­fest 8. des­em­ber 1955, SÍ 18
18.10.1907
 • Sátt­máli um stór­skota­árás frá her­skip­um í stríði, að­ild 27. nóv­em­ber 1909, stað­fest 8. des­em­ber 1955, SÍ 19
 • Sátt­máli um viss­ar tak­mark­an­ir á fram­kvæmd her­töku­rétt­ar­ins í sjó­hern­aði, að­ild 27. nóv­em­ber 1909, stað­fest 8. des­em­ber 1955, SÍ 21

Menningarverðmæti

Saknæm undirokun

Aðrir samningar varðandi alþjóðlegan mannúðarrétt

 • Sátt­máli um upp­haf stríðs, að­ild 27. nóv­em­ber 1909, stað­fest 8. des­em­ber 1955, SÍ 13
 • Sátt­máli um ráð­staf­an­ir gegn og refs­ing­ar fyr­ir hóp­morð, stað­fest­ur 29. ágúst 1949, öðlaðist gildi 12. jan­úar 1951, SÍ 72
 
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira