Hoppa yfir valmynd

Ráðgjöf í alþjóðlegri þróunarsamvinnu

Í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands er lögð áhersla á að nýta íslenska sérþekkingu í þágu uppbyggingar í þróunarríkjum. Hluti af því felst í stuðningi við alþjóðastofnanir í formi faglegrar ráðgjafar íslenskra sérfræðinga.

Hvað er tæknileg aðstoð í þróunarsamvinnu?

Utanríkisráðuneytið heldur utan um lista sérfræðinga og ráðgjafa á skilgreindum áherslusviðum Íslands í þeim tilgangi að leggja til stuðning þegar eftir honum er óskað. Unnið er í samræmi við stefnu Íslands um alþjóðlega þróunarsamvinnu og fer fjöldi, eðli og  umfang verkefna að fullu eftir þörf og eftirspurn samstarfsaðila hverju sinni.

Áherslusviðin eru eftirfarandi:

  • Vatnsafl ásamt jarðhita og öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum (heimsmarkmið nr. 7)
  • Sjálfbær nýting og verndun hafs og vatna (heimsmarkmið nr. 14)
  • Landgræðsla, sjálfbær nýtingu og takmörkun landhnignunar (heimsmarkmið 15)
  • Jafnréttismál og valdefling kvenna (heimsmarkmið 5)

Gerðir hafa verið samstarfssamningar við nokkrar alþjóðastofnanir um aðgang að íslenskri sérfræðiþekkingu á framangreindum sviðum og geta þær leitað eftir sérfræðiráðgjöf í gegnum lista ráðuneytisins.

Stofnanirnar eru: Alþjóðabankinn (World Bank Group - WBG), Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (Food and Agriculture Organization of the United Nations - FAO), Alþjóðasjóður um þróun landbúnaðar (International Fund for Agricultural Development - IFAD), Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (United Nations Environment Programme - UNEP) og alþjóðastofnun um sjálfbæra orku fyrir alla (Sustainable Energy For All -SE4All).

Hvernig er ferlið?

Verkefnin eru unnin samkvæmt skilgreindum verklýsingum (e. Terms of Reference) frá samstarfsaðilum, t.d. verkefnateymum á vegum Alþjóðabankans. Þegar beiðni berst ráðuneytinu er hún send á þá ráðgjafa sem hafa skráð sig á viðkomandi áherslusviði og þeim gefinn kostur á að lýsa yfir áhuga á viðkomandi verkefni telji þeir sig uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram í verklýsingu.

Ferilskrár áhugasamra ráðgjafa eru sendar á samstarfsaðila og er það í höndum samstarfsaðila að meta þekkingu og reynslu ráðgjafa og ákveða hvaða ráðgjafi eða ráðgjafateymi henti í verkefnið.

Verk geta verið af mismunandi stærðargráðum. Sum er hægt að vinna frá Íslandi en önnur krefjast ferða á vettvang. Flest verkefni til þessa hafa verið á vegum Alþjóðabankans.

Gerður er staðlaður samningur um fasta ráðgjafataxta (dagtaxta) við fyrirtæki/ráðgjafa sem taka að sér verkefni. Taxtar eru uppfærðir árlega.

Hverjir geta skráð sig?

Öllum aðilum sem uppfylla tiltekin skilyrði er gefinn kostur á að skrá sig á ráðgjafalistann.

Í samstarfi við samstarfsstofnanir hafa verið skilgreind sérfræðisvið innan áherslusviðanna fimm sem leitað er eftir sérþekkingu og hæfni á.

Skilyrði fyrir skráningu á listann er að hafa háskólapróf á viðkomandi sviði og tiltekna praktíska og viðeigandi reynslu í faginu.

Hæfnikröfur eru flokkaðar eftir starfsreynslu í hæfnisflokka A og B.

  • Til að flokkast í hæfnisflokk A skal ráðgjafi vera með háskólapróf í viðeigandi grein og meira en 20 ára reynslu af verkefnum á viðkomandi sviði.
  • Til að flokkast í hæfnisflokk B skal ráðgjafi vera með háskólapróf í viðeigandi grein og meira en 10 ára reynslu af verkefnum á viðkomandi sviði.

Staðfestingu á hæfniskröfum skal skila til utanríkisráðuneytisins samhliða skráningu á ráðgjafalistann.

Sérfræðisviðin sem óskað er eftir hæfni á eru:

Vatnsafl

  1. Fjármögnun vatnsaflsverkefna.
  2. Forhönnun og hönnun vatnsaflsvirkjana.
  3. Gerð hagkvæmniathugana fyrir vatnsaflsvirkjanir.
  4. Gerð útboðsgagna, mati tilboða og aðstoð við framkvæmd útboða.
  5. Jarðfræði og jarðtækni tengd undirbúningsrannsóknum fyrir vatnsaflsvirkjanir.
  6. Umhverfis- og samfélagsmá í tengslum við vatnsaflsvirkjanir.
  7. Vatnafræði, rennslismælingar, aflsetning og orkugetureikningar.
  8. Aðgerðaáætlanir um búferlaflutninga (RAP), úttektir Reynsla af notkun viðmiða fjölþjóðlegra stofnana (s.s. Alþjóðabankans) um umhverfis- og félagslega áhættustjórnun
  9. Verkfæri tengd umhverfis- og félagslegri áhættustjórn, ekki síst RAP, ESIA, et

Jarðhiti

  1. Aðstoð við framkvæmd útboða í jarðhitaverkefnum (gerð útboðsgagna, mat á tilboðum o.fl.).
  2. Forhönnun og hönnun jarðhitavirkjana.
  3. Framkvæmd og túlkun yfirborðsrannsókna, m.t.t. staðsetningu rannsóknarborholna.
  4. Fjármögnun jarðhitaverkefna.
  5. Sérfræðiþekking á sviði jarðhitaborana.
  6. Umhverfismál tengd jarðhitavirkjunum og borunum.
  7. Fjölnýting í jarðvarma.
  8. Aðgerðaáætlanir um búferlaflutninga (RAP), úttektir Reynsla af notkun viðmiða fjölþjóðlegra stofnana (s.s. Alþjóðabankans) um umhverfis- og félagslega áhættustjórnun.
  9. Verkfæri tengd umhverfis- og félagslegri áhættustjórn, ekki síst RAP, ESIA, etc.

Sjálfbær nýting sjávarauðlinda, verndun hafs og vatna

  1. Bláa lífhagkerfið.
  2. Fiskeldi og innviðir.
  3. Fiskihagfræði og fjármögnun.
  4. Fiskveiðistjórnun og -eftirlit.
  5. Hafnir, stjórnun, skipulagsmál og vistvæn hönnun hafnarmannvirkja. 21927
  6. Jafnréttismál í virðiskeðju fiskveiða.
  7. Mengun hafs og strandsvæða, sérstaklega plastmengun og meðferð úrgangs.
  8. Nýsköpun í vinnslu og nýtingu sjávarafurða.
  9. Stefnumótun, regluverk, lagaumhverfi og hafréttarmál.
  10. Stjórnun og skipulag strandsvæða. Stuðningur við samvinnu og þekkingarmyndum í kringum nýsköpun og viðskiptahraðla í tengslum við nýtingu sjávarafurða og uppbyggingu fyrirtækja.
  11. Virðiskeðja sjávarútvegs, veiðar, vinnsla, virðisaukning, markaðs- og gæðamál.
  12. Öryggismál á sviði sjálfbærrar nýtingu/verndun hafs og vatna.
  13. Þjálfun og menntun mannauðs í sjávarútvegi.
  14. Fiskifræði og mat á ástandi fiskistofna.
  15. Félagsauður sjávarútvegs og þróun sjávarbyggða.
  16. Gæðastjórnun og meðferð hráefnis.
  17. Virðiskeðja fiskveiða, veiðar, vinnsla, markaðs- og gæðamál

Landgræðsla

  1. Endurheimt vistkerfa og sjálfbær nýting landvistkerfa, t.d. votlendis, graslendis og skóglendis.
  2. Gagnameðhöndlun og úrvinnsla.
  3. Jafnréttismál í tengslum við landgræðslu.
  4. Jarðvegur og landeyðing.
  5. Kolefnisbókhald.
  6. Landupplýsingafræði og fjarkönnun.
  7. Líffræðileg fjölbreytni og framandi ágengar tegundir.
  8. Líkanagerð til að meta áhættu af völdum loftslagsbreytinga á landvistkerfi og vatnafar.
  9. Loftslagsmál og landnýting.
  10. Náttúruvá og ástand vistkerfa.
  11. Stjórnun á nýtingu náttúruauðlinda.
  12. Stjórnun og skipulagsmál á strandsvæðum.
  13. Undirbúningur, vöktun og árangursmat verkefna.
  14. Umsóknarskrif í erlenda samkeppnissjóði .
  15. Vatnafræði landvistkerfa - áhrif endurheimtar á rennsli straumvatna og magnsstöðu grunnvatns

Jafnréttismál

  1. Jafnrétti og mál barna og ungmenna.
  2. Jafnrétti og menntun.
  3. Hnattvæðing og jafnrétti.
  4. Karlar og karlmennska.
  5. Kynbundið ofbeldi og aðgerðir gegn því. Kynjafræði og mannréttindi, þ.m.t. fötlunarfræði, málefni frumbyggja, fjölmenning, fólksflutningar og flóttamenn.
  6. Kynjuð fjárlagastjórnun.
  7. Stjórnun, mannauðsstjórnun, atvinnulöggjöf og vinnumarkaðurinn út frá jafnréttissjónarhorni.
  8. Umhverfismál, auðlindir og loftslagsbreytingar út frá kynjafræðilegu og jafnréttissjónarhorni

Hvernig fer skráning fram?

Um er að ræða opinn lista sem allir sérfræðingar er uppfylla kröfur um menntun og reynslu geta skráð sig á.

Ósk um skráningu á listann skal senda á utanríkisráðuneytið á netfangið [email protected]. Taka skal fram við hver af áherslusviðunum fimm skráningin eigi við (endurnýjanleg orka, jafnréttismál etc.). Með skráningarbeiðni þarf að fylgja ítarlega útfyllt ferilskrá á formi Alþjóðabankans (Word-skjal) og listi yfir reynslu af verkefnum á viðkomandi sviði síðastliðin tíu ár.

Ef um er að ræða fyrirtæki ber jafnframt að skila inn vottorði úr fyrirtækjaskrá og vottorði um skráð virðisaukaskattsnúmer.

Utanríkisráðuneytið áskilur sér allan rétt til að kalla eftir frekari gögnum um menntun og reynslu sérfræðinga, s.s. prófskírteinum eða eftir upplýsingum um fyrirtæki er óska skráningar.

Uppfylli skráningarbeiðni kröfur er viðkomandi skráður á listann og fær sendar upplýsingar um verkbeiðnir á sérsviði viðkomandi sem berast frá alþjóðastofnunum.

Skráning á listann tryggir ekki að viðkomandi fyrirtæki/ráðgjafi fái verkefni.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum