Hoppa yfir valmynd

Alþjóðabankinn (The World Bank Group)

Almennt 

Hlutverk Alþjóðabankans er að stuðla að efnahagslegri og félagslegri uppbyggingu þróunarlanda. Bankinn starfar með stjórnvöldum hlutaðeigandi ríkja og veitir þeim aðstoð í formi lána, styrkja og ráðgjafar. Ísland á víðtækt samráð við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin um stefnumótun innan Alþjóðabankans, en þessi lönd mynda eitt kjördæmi bankans. Alþjóðabankinn samanstendur af fimm stofnunum:

  • Alþjóðabanki til enduruppbyggingar og framþróunar (International Bank for Reconstruction and Development - IBRD) sem veitir lán með niðurgreiddum markaðsvöxtum til millitekjulanda.
  • Alþjóðaframfarastofnunin (International Development Association - IDA) sem aðstoðar fátækustu þróunarríkin með styrkjum, vaxtalausum lánum og ábyrgðum til þróunarverkefna.
  • Alþjóðalánastofnunin (International Finance Corporation - IFC) sem styður við framþróun einkageirans í þróunarlöndum með lánveitingum til fjárfesta og með hlutafjárkaupum.
  • Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin (Multilateral Investment Guarantee Agency - MIGA) sem veitir ábyrgðir vegna fjárfestinga einkaaðila í þróunarlöndum gegn áföllum sem ekki eru viðskiptalegs eðlis, t.d. vegna ófriðar, eignaupptöku eða gjaldeyristakmarkana.
  • Alþjóðastofnunin um lausn fjárfestingardeilna (International Center for Settlement of Investment Disputes - ICSID) sem hvetur til erlendra fjárfestinga með því að vera óháð alþjóðastofnun sem veitir aðstoð til sáttagerðar og gerðardóma í lausnum fjárfestingardeilna.

Yfirlit yfir framlög Íslands til Alþjóðabankans (2017)

 Efst á baugi

Ísland tekur virkan þátt í fjölþjóðastarfi Alþjóðabankans í gegnum kjördæmi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna en ríkin átta deila stjórnarsæti í bankanum og samræma því málflutning og afstöðu til málefna. Á árunum 2019–2021 leiðir Ísland kjördæmisstarfið. Í því felst annars vegar að Ísland á aðalfulltrúa í stjórn Alþjóðabankans sem gegnir starfinu fyrir hönd kjördæmisins, og hins vegar leiðir sérstök deild innan þróunarsamvinnuskrifstofu samræmingu á málefnastarfi kjördæmisins í höfuðborgum kjördæmislanda. Utanríkisráðherra tekur einnig sæti í þróunarsamvinnunefnd Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir hönd kjördæmisins árið 2019. Undirbúningur fyrir þessi umfangsmiklu verkefni hefur staðið yfir innan ráðuneytisins síðustu misseri.

Stór hluti framlaga Íslands til Alþjóðabankasamsteypunnar (World Bank Group) fer til Alþjóðaframfarastofnunarinnar (International Development Association, IDA) sem er sú stofnun bankans sem veitir fátækustu löndum heims styrki og lán á hagstæðum kjörum, auk ráðgjafar. Þá veita íslensk stjórnvöld stuðning til sömu ríkja í gegnum áætlun Alþjóðaframfarastofnunarinnar um niðurfellingu skulda fátækustu ríkjanna. Í nóvember hófust samningaviðræður aðildarríkja um 19. endurfjármögnun stofnunarinnar sem Ísland tekur virkan þátt í.

Tvíhliða samstarf Íslands við bankann hefur aukist talsvert á síðustu árum þar sem sérstök áhersla er lögð á samstarf á sviði jarðhita, fiskimála, jafnréttis- og mannréttindamála. Sjóðurinn Profish sem Ísland hefur stutt til margra ára verður lagður niður í núverandi mynd og verða fiskimál þess í stað sérstök áherslusvið í nýjum ProBlue-sjóði bankans sem fjallar um málefni hafsins í víðu samhengi. Mengunarmál í hafi verða einnig sérstök áherslusvið í þessum sjóði. Sjóðurinn er talinn falla mjög vel að áherslum Íslands um verndun sjávar og sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins innanlands, á alþjóðavettvangi og í verkefnum á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Ísland skrifaði á árinu undir samning vegna framlaga til ProBlue-sjóðsins og leggur Ísland til fjármagn í verkefni sem snúa að fiskimálum og plastmengun í hafi. Öflug þátttaka Íslands í ProBlue-sjóðnum styrkir almennt samstarf við bankann á sviði fiskimála og skapar fleiri tækifæri til að miðla íslenskri þekkingu á þessu sviði. Þessu samhliða fjármagnar Ísland stöðu sérfræðings hjá bankanum á sviði fiskimála með búsetu í Gana. Ísland hefur um árabil veitt framlög í orkusjóð bankans (Energy Sector Management Assistance Programme, ESMAP).

Einnig hefur Ísland fjármagnað stöðu jarðhitasérfræðings hjá orkusjóðnum og í lok árs var gerður samningur um áframhaldandi stuðning um stöðuna eftir að beiðni barst frá bankanum. Þá var nýlega auglýst hér á landi staða jarðhitasérfræðings hjá sjóðnum sem nýtur fyrrgreinds stuðnings. ESMAP hefur reynst einn mikilvægasti vettvangur bankans við að auka þekkingu á jarðhitaverkefnum og greiða fyrir fjárfestingum á því sviði. Ísland hefur stutt við brautryðjendastarf ESMAP á sviði jafnréttismála og jarðhita, og fyrstu niðurstöður nýrrar skýrslu á því sviði voru kynntar á vel sóttri jarðhitaráðstefnu í apríl 2018 á Íslandi. Í framhaldi af þeirri vinnu stóð ESMAP fyrir vinnustofu um jarðhita og jafnréttismál í smáeyþróunarríkjum (Small Island Development States, SIDS) á Gvadelúpeyjum í mars 2019. Miklir möguleikar eru til jarðhitanýtingar á svæðinu, sem er einnig vel til þess fallin að byggja upp viðnámsþrótt smáeyja, en þær eru sérstaklega viðkvæmar fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga. Þá veitti Ísland eyrnamerkt framlag til ESMAP fyrir starf sem varðar nýtingu vatnsafls í þágu þróunarríkja en Ísland býr yfir víðtækri þekkingu á því sviði sem nýst getur víða um heim.

Ísland veitir framlög í sérstakan jafnréttissjóð (Umbrella Facility for Gender Equality, UFGE) innan bankans. Nýlega var gerður samningur við sjóðinn til fimm ára en hann gegnir mikilvægu hlutverki í stefnumótun bankans á sviði jafnréttismála. Sjóðurinn hefur skilað góðum árangri og ný jafnréttisstefna bankans fyrir árin 2017–2023 byggist meðal annars á rannsóknum og verkefnum sem hafa verið á vegum hans. Áhersla hefur verið á að nýta íslenska sérþekkingu á vettvangi alþjóðastofnana og hefur þróunarsamvinnuskrifstofa unnið að útfærslum til að íslensk sérfræðiþekking á sviði jarðhita- og fiskimála nýtist innan stærri verkefna Alþjóðabankans og mögulega annarra stofnana. Utanríkisráðherra skrifaði undir samkomulag í maí í fyrra við Alþjóðabankann um tæknilega aðstoð á sviði fiskimála. Komið hefur verið á fót ráðgjafalistum á sviði fiski- og jarðhitamála, sem auglýstir hafa verið í samstarfi við Ríkiskaup.

Á árinu hafa íslenskir sérfræðingar farið til starfa við verkefni tengd Alþjóðabankanum í El Salvador, Víetnam, Bangladess og Kasakstan. Öll tæknileg aðstoð og lausnir sem veittar eru í þessu samhengi eru á grundvelli beiðna, annaðhvort frá samstarfsríkjum bankans eða bankanum sjálfum. Það tryggir að sérfræðiframlag Íslands nýtist í stærra samhengi og gildi aðstoðarinnar fyrir viðkomandi lönd. Með því að tengja sérfræðiþekkingu Íslands við starf Alþjóðabankans er þess vænst að reynsla sérfræðinganna, og þeirra fyrirtækja sem þeir starfa hjá, verði betur metin á alþjóðavettvangi og skapi mikilvæg tengsl fyrir möguleg framtíðarverkefni.

Verkefni innan Alþjóðabankans sem Ísland veitir stuðning: 
Global Program on Fisheries (PROFISH)
Energy Sector Management Assistance Program (ESMAP)
Umbrella Facility for Gender Equality (UFGE)
Nordic Trust Fund on Human Rights (NTF)

 

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira