Hoppa yfir valmynd

Hagsmunagæsla Íslands og bætt framkvæmd EES-samningsins

Afleidd löggjöf ESB, eða gerðir (e. acts), sem varða Evrópska efnahagssvæðið eru teknar upp í EES-samninginn og geta haft í för með sér breytingar á íslenskri löggjöf eða regluverki þegar þær eru innleiddar hér á landi. Að jafnaði eru nokkur hundruð gerðir teknar upp í EES-samninginn á hverju ári. í langflestum tilfellum er samhljómur á milli hagsmuna Íslands og áforma ESB og/eða um er að ræða tæknilegar gerðir sem hafa takmörkuð áhrif hér á landi. Þó er ávallt mikilvægt að vera vel vakandi fyrir nýjum málum sem gætu snert hagsmuni Íslands og nýta þá möguleika sem Ísland hefur til að taka þátt í mótun löggjafar ESB. Á undanförnum árum hafa íslensk stjórnvöld lagt aukna áhersla á hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB í tengslum við aðild Íslands að EES-samningnum.

Hvað felur hagsmunagæsla í sér?

Löggjafarferli ESB má einkum skipta í þrjú stig, það er forstig (e. pre-pipeline aquis), vinnslustig (e. pipeline aquis) og samþykktar gerðir (e. adopted acquis). Hagsmunagæsla fer aðallega fram á forstigi og vinnslustigi, þ.e. áður en gerðir eru endanlega samþykktar af hálfu stofnanna ESB. Til þess að hægt sé að sinna hagsmunagæslu með skipulegum hætti er nauðsynlegt að vakta og greina ný mál sem eru í bígerð innan stofnanna ESB og forgangsraða þeim málum sem talin eru mikilvæg út frá hagsmunum Íslands. Þegar um er að ræða mikilvæg forgangsmál er einnig nauðsynlegt að koma afstöðu Íslands á framfæri og afla henni fylgis innan stofnana ESB og meðal aðildarríkjanna. Þó æskilegt sé að Ísland beiti sér á fyrri stigum löggjafarferlisins er hægt að freista þess að semja um ákveðnar aðlaganir við upptöku gerða í EES-samninginn ef þörf er talin á því.

Hvernig er hagsmunagæslu háttað?

Utanríkisráðuneytið, sendiráð Íslands í Brussel, fagráðuneyti og stofnannir sinna hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd í samráði við Alþingi og hagsmunaaðila.

Aðkoma íslenskra aðila að stofnunum ESB er margvísleg. Framkvæmdastjórn ESB undirbýr drög að nýjum gerðum sem eru rædd innan sérfræðingahópa og nefnda sem Ísland og hin EFTA-ríkin innan EES eiga rétt á að taka þátt í, þó án atkvæðisréttar. Íslenskir sérfræðingar geta þannig fylgst með þegar ný löggjöf er í mótun og, eftir atvikum, komið sérþekkingu sinni á framfæri eða bent á hugsanleg álitamál. Þá eiga EFTA-ríkin innan EES sæti (án atkvæðisréttar) í stjórnum þeirra undirstofnana framkvæmdastjórnar ESB sem þau eru þátttakendur í. Þó að EES-samningurinn veiti ekki formlegan aðgang að ráðherraráði ESB er ráðherrum Íslands, Noregs og Liechtenstein er oft boðin þátttaka í óformlegum ráðherrafundum Sambandsins.

Mikil samvinna á sér stað á milli EFTA-ríkjanna innan EES þegar kemur að hagsmunagæslu gagnvart ESB einn af helst í gegnum vinnuhópa EFTA sem í sitja sérfræðingar frá Íslandi, Noregi og Liechtenstein á hverju fagsviði fyrir sig. Vinnuhóparnir boða fulltrúa ESB iðulega á fundi til að ræða nýjar gerðir sem eru í mótun innan ESB. EFTA-ríkin innan EES geta jafn­framt látið í ljós stuðning og borið upp álitamál með sameiginlegum umsögnum um tiltekin mál (e. EEA EFTA comments). Umræður við ESB um löggjöf í mótun fara þar að auki fram á fundum sameiginlegu EES-nefndarinnar og EES-ráðsins. Mikil óformleg samskipti eiga sér einnig stað við lykilgerendur innan stofnanna ESB og aðildarríkja þess til að vekja athygli á málstað Íslands og þar spilar sendiráð Íslands í Brussel lykilhlutverk.

Öflugri hagsmungæsla undanfarin ár

Í lok árs 2016 var EES-gagnagrunnur tekinn í notkun innan íslensku stjórnsýslunnar sem auðveldar sérfræðingum til muna að fylgjast með nýjum málum sem eru í undirbúningi innan ESB. EES-gagnagrunnurinn gefur tækifæri til aukins samráðs innan stjórnarráðsins og við viðeigandi undirstofnanir. Um 250 sérfræðingar hafa nú aðgang að gagnagrunninum og geta nýtt hann til að vinna sameiginlega greiningarvinnu m.a. á stefnumótandi skjölum og tillögum að nýjum gerðum. Einnig gefur grunnurinn heildaryfirsýn yfir ferli EES-gerða allt frá mótunarstigi til upptöku í samninginn, innleiðingar í íslenska löggjöf og hugsanlegrar málsmeðferðar sem tengist gerðunum hjá Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum.

Forgangslisti fyrir hagsmunagæslu í EES-samstarfinu var fyrst lagður fram í september 2016 og hefur verið endurskoðaður reglulega síðan. Þar eru skilgreind brýnustu hagsmunamál Íslands sem eru í lagasetningarferli innan Evrópusambandsins. Forgangslistinn er unninn í samvinnu allra ráðuneyta og að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis og hagsmunaaðila. Íslensk stjórnvöld fylgjast sérstaklega vel með framvindu þeirra mála, sem tiltekin eru á forgangslistanum og koma sjónarmiðum Íslands á framfæri við umfjöllun um þau innan stofnana ESB eftir þörfum.

Í tilefni af 25 ára afmæli EES-samningsins var EES-upplýsingaveitan tekin í notkun árið 2019 þar sem safnað er saman öllum helstu upplýsingum um EES-samninginn og framkvæmd hans m.a. hvað varðar hagsmunagæslu. Þá var hluti EES-gagnagrunnsins gerður opinber á EES-upplýsingaveitunni sem er mikilvægur liður í að auka upplýsingagjöf til Alþingis, hagsmunaaðila og almennings m.a. um mál sem eru í bígerð.

Sendiráð Íslands í Brussel er í fremstu víglínu þegar kemur að hagsmunagæslu gagnvart ESB. Flest fagráðuneyti eiga nú fulltrúa til Brussel sem er mikilvægur liður í að Ísland geti sinnt hagsmungæslu á öllum fagsviðum EES-samningsins.

Gagnlegar upplýsingar

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum